Keppni: Enska úrvalsdeildin.
Dag- og tímasetning: Þriðjudagur, 19. Janúar 2021 kl. 20:15.
Leikvangur: King Power Stadium.
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Ölver (Glæsibæ), Sky Sports o.fl.
Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.
Chelsea
Það er mikil boltaveisla þessa dagana enda margir spennandi leikir í einni og sömu umferðinni. Okkar menn ferðast til Leicester í sínum öðrum leik þremur dögum. Þrátt fyrir sigur í síðustu tveimur leikjum hefur gengið ekki verið upp á marga fiska í nokkrar vikur og virðist sjálfstraust hópsins í heild vera í einhverju lágmarki. Það verður seint talist til mikilla afreka að sigra lið sem er mörgum deildum neðar eða sigra tíu leikmenn liðs sem var að vinna sig inn í úrvalsdeildina (Fulham á reyndar hrós skilið fyrir frammistöðu sína þar). Þeir sem ekki hafa lesið leikskýrsluna eftir Fulham leikinn geta lesið hana hér.
Þar sem það eru aðeins tveir dagar síðan liðið spilaði seinasta leik er spurning hvort Lampard geri ekki nokkrar breytingar á byrjunarliðinu. Kante verður ekki í leikmannahópnum sem mætir Leicester vegna meiðsla en aðrir leikmenn aðalhópsins eru heilir. Ég gæti trúað að Azpilicueta verði settur á bekkinn og Reece James komi inn í hægri bakvörðinn. Ben Chilwell verður örugglega á sínum stað í vinstri bakverði sem og þeir Silva og Zouma í miðverðinum. Mason Mount verður áreiðanlega á miðjunni en erfiðara er að segja til um hverjir verða með honum þar. Billy Gilmour er einn þeirra sem koma sterklega til greina að mínu áliti, hæfileikaríkur ungur strákur sem við viljum öll sjá meira af. Havertz var ekki með gegn Fulham og spurning hvort hann byrji nú gegn Leicester. Ég spái því þó að það verði Jorginho sem byrji með Mount og Gilmour.
Stóri höfuðverkurinn er svo auðvitað að velja fremstu mennina. Þeim hefur gengið fremur illa að undanförnu og því enginn öruggur valkostur þar. Að vísu hefur Odoi verið að standa sig vel þegar hann hefur fengið tækifæri og finnst mér hann eiga skilið sæti í byrjunarliðinu á þriðjudagskvöldið. Hann hefur sýnt stöðugar framfarir undanfarið og var til dæmis einn besti maðurinn gegn Fulham þrátt fyrir að hafa ekki komið inn á fyrr en á 75. mínútu.
Mín spá fyrir byrjunarliðið gegn Leicester:
Leicester City
Gengi Leicester á heimavelli gegn toppliðunum hefur ekki verið þeim hagkvæmt en ólíklegt að það hafi nokkur áhrif á leikmenn Leicester sem virðast óstöðvandi eins og er en þeir hafa ekki tapað leik á þessu ári. Seinast unnu þeir Southampton á laugardaginn var, stukku þar með yfir Liverpool og sitja í 3. sæti deildarinnar. Southampton var án Danny Ings í þeim leik og því var á brattann að sækja fyrir þá. Engu að síður voru þeir sterkari aðilinn í leiknum megnið af fyrri hálfleik. Mark Maddison á 37. mínútu gefur ekki alveg rétta mynd gangi leiksins á þeim tíma en vel gert hjá Leicester að ná tvö núll sigri og halda áfram sigurgengi sínu. Vardy var skipt út af á 90. mín. leiksins vegna meiðsla og er óvissa með þátttöku hans í leiknum í kvöld. Það eru ágætis fréttir í ljósi þess að hann hefur skorað ellefu mörk og átt fimm stoðsendingar í deildinni það sem af er vetri. Nú er þó allt útlit fyrir að hann verði a.m.k. í leikmannahópi Leicester. Annar stórhættulegur leikmaður Leicester er James Maddison. Hann hefur skorað fimm mörk á þessu tímabili, tvö þeirra í seinustu tveimur leikjum. Hann hefur einnig átt fjórar stoðsendingar og eru því bæði hann og Vardy ekki bara duglegir að skora heldur einnig að leggja upp mörk. Þá hefur vinstri miðjumaðurinn Harvey Barnes náð því skemmtilega afreki að skora jafnmörg mörk á þessu tímabili ensku úrvalsdeildarinnar og hann skoraði allt seinasta tímabil (sex mörk).
Brendan Rodgers er að gera frábæra hluti með þetta Leicester lið og er engin tilviljun að þeir sitja í þriðja sæti deildarinnar. Það er mikið jafnvægi milli varnar og sóknar í leik þeirra og alveg á kristaltæru að þetta verður mjög erfiður leikur.
Spá
Sú er þetta ritar reynir gjarnan að líta á glasið sem hálffullt en það er erfitt þegar það virðist bara vera botnfylli í því. Seinast mættust þessi lið 28. júní sl. í undanúrslitum FA-bikarsins og endaði sá leikur með sigri Chelsea. Báðir leikir liðanna í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili enduðu með jafntefli. Núna er samt komið árið 2021, nýtt ár og ný tækifæri fyrir okkar menn að girða sig í brók og spila eins og þeir fagmenn sem þeir fá borgað fyrir að vera. Það er mér þungbært að spá Leicester 1 – 0 sigri í leiknum. Chelsea menn verða í vandræðum með að koma boltanum framhjá Schmeichel og hinn markheppni Vardy potar boltanum inn okkar megin. Það er vert að taka það fram að spár mínar verða sjaldnast að veruleika og vonandi mæta okkar menn einbeittir til leiks með sjálfstraustið í botni.
Áfram Chelsea!
- Elsa Ófeigs
Comments