top of page
Search

Sigur gegn Fulham - Leikskýrsla og einkunnirChelsea sótti sigur á Craven Cottage í kvöld er liðið vann torsóttan 1-0 sigur. Það var töluvert jafnræði með liðinum fyrsta hálftímann og voru það Fulham menn sem fengu lang besta færi leiksins þegar Ivan Cavaleiro brenndi af í dauðafæri eftir flotta sókn heimamanna. En undir lok fyrri hálfleiks dró til tíðinda, Antonee Robinson hendi sér þá í háskalega tæklingu og fékk umsvifalaust rauða spjaldið frá dómara leiksins.


Það var því viðbúið að okkar menn myndu blása til mikillar sóknar í síðari hálfleik enda manni fleiri. Okkar menn reyndu og reyndu en þrjóskir Fulham menn vörðust vel og okkar bestu sóknarmenn voru alls ekki á sínum besta degi. Sóknirnar hægar og fyrirsjáanlegar. En eftir að Lampard setti Hudson-Odoi og Tammy Abraham inn í leikinn lifnaði aðeins yfir okkar mönnum og Mason Mount skoraði loksins mark á 78' mínútu leiksins.


Fulham menn reyndu eftir þetta að sækja meira og opnaðist vörnin þeirra fyrir vikið. Nokkur mjög góð marktækifæri litu dagsins ljós hjá okkar mönnum en eins og oft áður klúðruðustu þau illa.


Lokastaðan 1-0 sigur.


Umræðupunktar

  • Eg get ekki fyrir mitt litla líf verið sáttur með spilamennsku Chelsea í þessum leik. Sóknarleikurinn afar dapur og Chelsea á alltaf að skora fleiri mörk gegn liði eins og Fulham þegar þeir spila allan seinni hálfleikinn einum fleiri.

  • Frank Lampard stillti upp kolvitlausu liði í þessum leik. Það að hann skuli ekki velja Hudson-Odoi fram yfir Pulisic og Ziyech er með hulin ráðgáta.

  • Timo Werner minnir mig alltaf meira og meira á Alvaro Morata - er hættur að brosa, sjálfstraustið í molum og honum líður hreinlega illa á vellinum.

  • Fulham voru alveg vel inni í þessum leik fyrir rauða spjaldið - þannig allt tal um að okkar menn eigi að öðlast eitthvað sjálfstraust við þennan sigur er bara þvæla.

  • Okkar menn eru 7. sæti deildarinnar, þremur stigum frá 4. sætinu. Sú tölfræði blekkir reyndar töluvert þar sem flesti öll liðin fyrir ofan okkur eiga ýmist 1 eða 2 leiki til góða.


Einkunnir leikmanna

Edouard Mendy - 6: Hélt hreinu og fékk nokkra æfingabolta á sig en var í vandræðum í uppspilinu. Átti líka á einum tímapunkti í samskiptaerfiðleikum við Azpilicueta sem næstum kostuðu okkur mark.


Cesar Azpilicueta - 5,5: Við söknum Reece James sóknarlega og það sást best í þessum leik. Fyrirliðinn skilur alltaf allt eftir á vellinum en hann í er miklu basli í uppspilinu okkar og þar er ekki tilviljun að sóknarmenn Fulham herjuðu endalaust á hann.


Ben Chilwell - 6: Hefði viljað sjá fleiri fyrirgjafir frá Chilly B. í seinni hálfleik, því ekki vantaði plássið úti á vængjnum. Átti sinn þátt í markinu.


Thiago Silva - 7: Flott frammistaða, gerði vel í binda vörnina saman í fyrri hálfleik og var svo með flotta sendingar úr vörninni í þeim seinni þegar hann spilaði nánast eins og miðjumaður.


Antonio Rudiger - 7: Var óvænt í byrjunarliðinu og skilaði sínu vel. Er mjög sterkur í stöðunni einn á einn og gerði vel gegn t.d. Lookman og Cavaleiro.


Jorginho - 6: Allt í lagi ekki gott hjá Jorgi í þessum leik. Hefði líklega átt að taka hann fyrr út af í leiknum því hann hafði lítið að gera þarna aftast á miðjunni í seinni hálfleik.


Mateo Kovacic - 6: Var valinn fram yfir Havertz sem mér finnst undarleg ákvörðun hjá Lampard. Það er oft mjög gaman að horfa á Kovacic keyra með boltann upp völlinn en þegar kemur að loka ákvarðanatöku veldur hann of oft vonbrigðum - sú var raunin í kvöld.


Mason Mount - 8,5: Langbesti maður vallarins. Braut ísinn þegar það virtist ætla að vera ómögulegt fyrir okkur og átti einnig skot í slá í fyrri hálfleik. Ef allir leikmenn Chelsea væru með sama hugarfar og Mount værum við örugglega með 10 stigum meira og í toppsætinu.


Christan Pulisic - 5,5: Slakur dagur hjá Pulisic sem var alltof ragur í fyrri hálfleik og náði heldur ekki að koma sér inn í leikinn í þeim síðari. Við erum öll að bíða eftir því að hann sýni sitt rétta andlit á þessu tímabili.


Hakim Ziyech - 6: Það var ekki fyrr en 64' mín að ég loksins sá eina geggjaða fyrirgjöf frá Ziyech. Hann átti vissulega nokkur skot og barðist ágætlega en það vantaði herslumuninn í dag. Saknaði Reece James sem gerir mikið fyrir hann á hægri vængnum.


Olivier Giroud - 5,5: Big Ollie var í krummafót í þessum leik og var þetta fyrsti slaki leikurinn hans í dágóðan tíma.


Callum Hudson-Odoi - 7: Kom strax með meiri áræðni í sóknarleikinn og átti sinn þátt í markinu. Galið að Lampard skuli hafa geymt hann á bekknum, verður að byrja næsta leik!


Tammy Abraham - 6,5: Fínasta innkoma hjá Tammy sem tókst að teygja aðeins á miðvörðum Fulham með hreyfanleika sínum.


Timo Werner - 5: Algerlega vonlaus innkoma hjá Timo sem fékk tvo frábæra sénsa til að skora en klúðraði þeim báðum. Er vissulega að koma sér í færin en guð minn almáttugur hvað hann er góður í að klúðra þeim.


KTBFFH

- Jóhann Már

Comments


bottom of page