top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Hamarnir á heimavelli

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 11 minutes ago
  • 5 min read

Keppni: Úrvalsdeildin, 24. umferð

Tími, dagsetning: Laugardagur 31. janúar  kl:17:30

Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir

Dómari: Anthony Taylor

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Bjarna Reynisson



Ég er búinn að vera að geyma einn góðan sokk, mikið notaðan sem hefur legið í bleyti og þornað til skiptis margsinnis og ég er ekki frá því að það er komin smá mygla í hann. En téður sokkur er loksins tilbúinn og því hef ég opnað bás til að taka á móti stuðningsmönnum allra klúbba sem að bera ekki virðingu fyrir Heimsmeisturum félagsliða. Það kostar ekkert aukalega ef að maður vill láta troða honum upp í sig tvisvar eða jafnvel þrisvar. Meistarar eftirfarandi landa hafa nú legið í valnum gegn Chelsea: England, Spánn, Frakkland og nýjasta viðbótin Ítalía en okkar menn unnu frækinn endurkomu sigur á Napoli í miðri viku. Joao Pedro virðist vera að finna formið sitt aftur og hefur skorað fjögur mörk í síðustu fimm leikjum. Cole Palmer kom inn á af bekknum og átti tvær stoðsendingar og hefur því komið með beinum hætti að þremur mörkum í Meistaradeildinni á aðeins 135 mínútum. Hann og Joao Pedro virðast ná þrusu vel saman og lengi mega þeir halda áfram að skapa og skora með sinni samvinnu. Það vekur alltaf upp reiði hjá mér að sjá falskar fréttir og umræðan um Palmer til United kyndaði vel upp í því reiðibáli. Maðurinn er samningsbundinn klúbbnum til ársins 2033, síðan hann kom hefur hann verið lykilmaður undir þremur stjórum og þeir hafa allir það sama að segja um hann. Hann er leikmaður sem að stuðningsmenn borga aðgangseyri á völlinn til að sjá. Hann getur breytt leikjum einn síns liðs og eins mikið og United gæti ásælst hann þá er hann ekki á förum enda er hann á “the untouchables” listanum.

Sigurinn gegn Napoli tryggði okkar mönnum sjálfkrafa þátttöku í 16 liða úrslitinum en mögulegir andstæðingar okkar þar verða PSG, Monaco, Newcastle eða Qarabag. Best væri örugglega að fá PSG þar sem að við flengdum þá í sumar. Annars hafa síðustu viðureignir við Newcastle og Qarabag báðar endað í 2 -2 jafntefli. Síðasta viðureign Chelsea við Monaco var tímabilið 03/04 þegar við mættum þeim í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og vorum bölhyggjulega sendir úr keppni. Við eigum því harma að hefna þar.



Rosenior tímabilið er í bullandi blóma og enn sem komið er hefur ekki reynt á afsökunina “við þurfum að gefa nýja stjóranum tíma til að aðlagast enska boltanum og koma sínum áhreslum á framfæri við leikmennina” Ég á persónulega mjög erfitt með að lesa eftir leiki “frammistaðan var alls ekki nógu góð en það mikilvæga er að við sluppum með sigurinn eða jafntefli”. Þegar uppi er staðið snýst þessi blessaða íþrótt samt um niðurstöður og það er óhætt að segja að Rosenior er að skila þeim. Fimm sigrar í fyrstu sex leikjunum með markatöluna 11 - 6 verður að þykjast nokkuð gott og ef ekki hefði verið fyrir gjafmildi Robert Sanchez hefðum við jafnvel verið með sex sigra. Líkt og forveri sinn sá Rosenior strax að það vantar annan miðvörð. Enn sem komið er hefur klúbburinn þó látið nægja að kalla Aaron Anselmino heim frá láninu sínu hjá Dortmund. Yfirmenn íþróttamála gætu samt sem áður ákveðið að senda hann til Strasbourg og kalla þá Mamadou Sarr aftur til Lundúna en sá hefur heldur betur verið að standa sig og var til að mynda í byrjunarliðinu hjá Senegal þegar þeir unnu Afríkumótið á dögunum. Það sem veldur mér áhyggjum er að báðir spila þeir hægra megin í bakverðinum en það sem að klúbbnum bráðvantar er leikmaður sem getur spilað í hjartanu á þriggja manna varnarlínu. Fofana er ekki rétti maðurinn í það hlutverk, Tosin getur leyst það en hefur gert of mörg mistök til að maður treysti honum fullkomlega. Klúbburinn er orðaður sterklega við Frakkann Jérémy Jacquet en sá leikur fyrir Stade Rennes í heimalandinu. Hann uppfyllir skilyrði innkaupastjórana um að vera ungur og efnilegur og spilar í hjarta þriggja manna varnarlínu hjá Rennes. Fabrizio Romano segir að löngun Chelsea í hann sé orðin það mikil að þeir gætu rifið upp veskið á sama hátt og þeir gerðu þegar við sóttum Enzo Fernandez. En sá franski kostar sem betur fer minna en helminginn af því sem við greiddum fyrir Fernandez. 


Við sitjum í fimmta sæti í töflunni með 37 stig og framundan er þægileg leikjadagskrá en fjórir næstu leikir okkar í Úrvalsdeildinni eru gegn öllum liðunum sem sitja í fallsæti eins og er ásamt Leeds. Ótímabæra spáin mín er að við hneppum þriðja sætið þetta tímabilið og því væri fínt að fara að setja inn alvöru frammistöður á vellinum og rífa okkur frá þétta pakkanum sem er í rassgatinu á okkur. Fjögur stig aðskilja Chelsea og Sunderland sem að sitja í ellefta sæti og því megum við ekki við að misstíga okkur með að tapa stigum á kjánalegan hátt.


West Ham eru í bullandi brasi þetta tímabilið og hafa í raun verið á hægri en stöðugri niðurleið síðan að þeir létu David Moyes taka poka sinn. Félagið var stofnað árið 1895 og sturlaða staðreynd dagsins er sú að fyrstu 94 ár klúbbsins var liðið einungis þjálfað af fimm þjálfurum. Einnig er smá galið að þeir heita West Ham þar sem þeir eru staðsettir í austurhluta Lundúna. Chelsea stuðningsmenn hata að tapa stigum til West Ham en þeirra stuðningsmenn vilja líklega fátt annað en að sigrast á nágrönnum sínum úr vestur hluta borgarinnar. West Ham, eða Hamrarnir eins og þeir eru kallaðir, eru úr iðnaðarhverfinu og það hefur meitlast inn í menningu klúbbsins. Við Chelsea menn kunnum West Ham ágætlega þakkirnar fyrir félagsskipti en Frank nokkur Lampard kom upp í akademíunni hjá Hömrunum ásamt Joe Cole. Nuno Espírito Santo er núverandi þjálfari Hamranna en hann byrjaði tímabilið með Nottingham Forest. Það virðist fara illa í fótboltastjóra þegar þeim er neitað um ákveðin leikmannakaup en einn af banabitum Nuno hjá Forest var ákefð hans í að fá olíuborna vöðvabúntið Adama Traoré frá Fulham. Traoré var mikilvægur leikmaður fyrir Nuno þegar þeir voru báðir hjá Wolverhampton. Þá hafa Hamrarnir einnig eytt um €52m í framherjana Taty Castellanos og Pablo í þessum glugga. Þeirra besti leikmaður Lucas Paqueta fékk heimþrá og sneri aftur til Brasilíu og lýsti Nuno yfir vonbrigðum með ákvörðun hans enda erfitt að finna mann í hans stað þegar lítið er eftir af félagsskiptaglugganum.


Sögusagnir herma að Romeo Lavia sé nálægt því að snúa aftur en bakkabróðir hans af miðsvæðinu Dario Essugo er enn meiddur og snýr líklega ekki aftur í liðið fyrr en undir lok febrúar mánaðar. Við erum ennþá þunnir í hjarta varnarinnar með bæði Tosin og Colwill meidda. Aðrir eru blessunarlega heilir. Ég spái því að Rosenior stilli liðinu upp með Robert Sanchez í markinu, Reece James og Cucurella sem bakverði, Chalobah vinstra megin í miðverðinum og Fofana hægra megin. Caicedo og Andrey Santos á miðjunni með Enzo þar fyrir framan. Pedro Neto verður í liðinu þrátt fyrir að hafa ekki heillað mikið upp á síðkastið en vinnuframlagið hans varnarlega séð verður mikilvægt í leiknum til að halda vængmönnum West Ham í skefjum. Cole Palmer á hægri kantinum, og Joao Pedro uppi á topp.


Ég spái okkar mönnum sigri í þessum leik enda höfum við ekki tapað gegn Hömrunum á heimavelli í undanförnum fimm viðureignunum okkar við þá. Ég ætla að skjóta á 3 - 1 sigur, mörkin koma frá Palmer, Joao Pedro og Estevao.


Takk fyrir lesturinn og áfram Chelsea!!! KTBFFH. 





 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page