top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Napoli gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 3 days ago
  • 4 min read

Keppni: Meistaradeildin, 8. umferð

Tími, dagsetning: Miðvikudagur 28. janúar kl: 20.00

Leikvangur: Stadio Diego Armando Maradona, Napoli

Dómari: Clement Turpin (Frakkland)

Leikur sýndur:  Viaplay (líklega!)

Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson

Á miðvikudag ferðast Chelsea til Ítalíu þar sem liðið mætir Napoli á Stadio Diego Armando Maradona, vellinum sem ber nafn knattspyrnugoðsagnarinnar sjálfrar. Völlurinn hét áður Stadio San Paolo, en nafninu var breytt skömmu eftir andlát Maradona. Hann tekur tæplega 55 þúsund áhorfendur í sæti og er mikið og glæsilegt mannvirki. Hann hefur reynst Napoli mönnum vel á tímabilinu en þeir eru enn sem komið er taplausir á heimavelli. Liðin hafa aðeins mæst tvisvar áður, í eftirminnilegri viðureign í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2012. Napoli unnu fyrri leikinn 3–1 á San Paolo þegar Chelsea var undir stjórn André Villas-Boas, en við snerum taflinu við á Stamford Bridge undir stjórn Roberto Di Matteo og unnum seinni leikinn 4–1. Chelsea fór síðan alla leið það tímabil og vann Meistaradeildina, eins og við munum öll eftir.


Napoli eru búnir að vera í harðri toppbaráttu í ítölsku deildinni og sitja nú í 4. sæti, en þeir féllu niður í það eftir slæmt tap gegn Juventus um helgina, 3–0 í mikilvægum leik. Þeir eru ríkjandi Ítalíumeistarar en eftir tapið um helgina er afar ólíklegt að þeir verji þann titil. Það breytir því þó ekki að þeir búa yfir gríðarlegum styrk í hópnum sínum, þjást undan miklum meiðslum. Þess vegna hefur gengi þeirra í Meistaradeildinni verið mjög dapurt á þessu tímabili. Fyrir þessa svakalegu lokaumferð sitja þeir í 25. sæti með 8 stig og eru á leið út úr keppninni ef þeir enda þar eða neðar. Það er því ekkert annað en sigur sem kemur til greina fyrir þá ljósbláu ætli þeir sér áframhald í keppninni. Maður má því búast við dýrvitlausum heimamönnum á eigin heimavelli, en þar hafa einmitt báðir sigrar þeirra í Meistaradeildinni komið.


Í röðum Napoli eru nokkrir leikmenn sem við þekkjum vel úr ensku úrvalsdeildinni. Þar má nefna Skotann Scott McTominay, fyrrum leikmann Manchester United, og Rasmus Højlund, sem einnig spilaði þar og er markahæsti leikmaður Napoli á tímabilinu. Þá eru þrír fyrrverandi Chelsea leikmenn í hópnum. Billy Gilmour, Kevin De Bruyne og Romelu Lukaku. Gilmour og De Bruyne eru þó báðir fjarverandi vegna meiðsla og taka ekki þátt í leiknum. Stjóri Napoli er okkur Chelsea aðdáendum vel kunnur, en það er Ítalinn Antonio Conte sem stýrði liðinu á árunum 2016–2018. Hann gerði okkur að Englandsmeisturum vorið 2017 á sínu fyrsta tímabili og vann síðan enska bikarinn ári síðar, áður en hann lét af störfum. Chelsea hefur ekki unnið bikarkeppnina síðan.


Snúum okkur þá að Chelsea. Á leikmannamarkaðnum er það nýjast að félagið hefur kallað varnarmanninn Aaron Anselmino til baka úr lánsdvöl hjá Borussia Dortmund. Hinn 20 ára gamli leikmaður verður metinn áður en ákvörðun er tekin um næstu skref, en mögulegt er að hann verði áfram hluti af aðalliðshópi Liam Rosenior. Margt veltur á frekari hreyfingum á markaðnum, en Chelsea er áfram í viðræðum við Rennes um varnarmanninn Jeremy Jacquet, þó franska félagið sé tregt til sölu og talið krefjast allt að 65 milljóna evra. En með endurkomu Anselmino hefur opnast fyrir laust pláss fyrir einhvern leikmann til að fara burt á láni. Hið góðkunni slúðursnápur Fabrizio Romano hefur þó sagt að brottför Raheem Sterling sé í burðarliðnum, þar sem bæði Chelsea og teymið hjá Sterling séu að smíða einhverskonar starfslokasamning. Axel Disasi virðist vera á förum á láni til Crystal Palace eða West Ham, þó svo klúbburinn kjósi frekar að selja þann franska.



Chelsea mæta til leiks eftir góðan 3–1 útisigur gegn Crystal Palace um síðustu helgi. Öll mörkin komu frá Suður-Ameríku, en þeir Estêvão, João Pedro og Enzo Fernández skoruðu. Estêvão nýtti sér varnarmistök Palace, slapp einn í gegn og kláraði af miklu öryggi eftir langt hlaup frá eigin vallarhelmingi, hans fyrsta mark síðan hann skoraði gegn Barcelona í lok nóvember. João Pedro bætti við marki eftir flott hlaup inn fyrir vörnina og gott slútt, áður en Enzo bætti þriðja markinu við af vítapunktinum. Þetta var í heildina mjög góður sigur fyrir Rosenior og liðið, en það eru einmitt svona leikir sem Chelsea þarf að vinna. Ég er nokkuð viss um að undir stjórn Maresca hefði þessi leikur líklega endað með jafntefli. Chelsea kemur því með gott sjálfstraust til Napoli, þar sem Rosenior hefur nú tengt saman þrjá sigra í röð.


Staða Chelsea í Meistaradeildinni er sú að liðið situr í 8. sæti með 13 stig eftir sigurinn gegn Pafos. Það er þó mikil þéttleiki í töflunni, þar sem liðin frá 6. sæti niður í það 13. eru öll jöfn að stigum. Staðan getur því breyst hratt með hverju marki á miðvikudagskvöldið. Allir leikir umferðarinnar fara fram á sama tíma og má búast við mikilli dramatík. Það er hægt að teikna upp margar myndir með mismunandi útgáfum hvernig staðan í deildinni mun þróast, en það er ljóst að Chelsea þarf sigur gegn Napoli til að eiga raunhæfan möguleika á sæti í topp 8 og sleppa þar með tveimur aukaleikjum í febrúar.


Badiashile, Romeo Lavia og Axel Disasi á æfingu í Cobham
Badiashile, Romeo Lavia og Axel Disasi á æfingu í Cobham

Af meiðslum er ekki mikið að frétta. Fyrir utan vanabundin fráföll er staðfest að Tosin missir af leiknum, en vonir standa til þess að bæði Jörgensen og Cole Palmer verði klárir. Palmer var ekki með gegn Palace, sem kom ekki að sök, en nærvera hans verður afar mikilvæg í þessum leik. Hinsvegar er Romeo Lavia farinn að æfa með liðinu, en hann er þó enn í gjörgæslu læknateymis og sjúkraþjálfara.


Það er alltaf erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið, en ég ætla að giska á eftirfarandi uppstillingu:Sánchez í markinu, Cucurella vinstra megin og Reece James hægra megin í vörninni, með Chalobah og Fofana í miðverði. Á miðjunni verða Caicedo og Enzo, með Cole Palmer fyrir framan þá. Á köntunum verða Pedro Neto og Garnacho, og João Pedro upp á topp.

Ef Palmer reynist tæpur gæti Rosenior fært Enzo framar og sett Andrey Santos við hlið Caicedo, sem væri alls ekki slök miðja, þó við viljum að sjálfsögðu helst sjá Palmer byrja ef hann getur.


Það er erfitt að spá fyrir um úrslit, og ég viðurkenni að ég er smeykur við Conte og félaga. Gengi okkar á ítalskri grundu hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarin ár. Við höfum tapað fjórum af síðustu fimm heimsóknum okkar til Ítalíu. En ég fer ekki að spá öðru en sigri hér á opinberum vettvangi og segi að Chelsea vinni leikinn 2–1 í hörðum baráttuleik. João Pedro skorar eitt og Garnacho hitt, og síðustu efasemdamenn um Rosenior verða vonandi dregnir yfir á hans vagn.




 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page