top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Crystal Palace gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 15 minutes ago
  • 4 min read

Keppni:  Premier League 23. umferð

Tími, dagsetning:  Sunnudagur 25. janúar kl: 14.00

Leikvangur: Selhurst Park

Dómari: Darren England

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson



Þá er komið að okkar árlegu heimsókn á Selhurst Park þar sem við mætum Crystal Palace í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Það er einhver ónotatilfinning sem fer um mann fyrir þennan leik og sérstaklega eftir leik okkar manna gegn Kýpverjunum í Pafos á miðvikudagskvöldið. Sá leikur fer í sögubækurnar fyrir það helst að vera einn leiðinlegasti leikur tímabilsins. Margir leikir hafa ekki skartað miklu skemmtanagildi en þessi keyrði um þverbak. Þrátt fyrir þrjú stig út úr þessum leik þá var nákvæmlega ekkert sem gladdi augað og þetta virkaði eitthvað sem þurfti að klára með öllum tiltækum ráðum. Við réðum leiknum frá byrjun en það nægði ekki. Þrátt fyrir að mark hafi verið dæmt af okkur sem Enzo skoraði, en hann ýtti hressilega við varnarmanni Pafos í leiðinni og var snupraður fyrir og markið dæmt af. Ég veit ekki alveg hvað er í gangi með Enzo okkar þessa dagana, hann virðist aðallega vera að safna spjöldum og það er vandræðalegt að sjá hann endalaust með fingurinn í andlitinu á dómurunum. Mér finnst skína svolítið í gegn að hann sé farinn að hugsa sér til hreyfings og það hefur heyrst að bæði PSG og Real Madrid hafi mikinn áhuga, en hvort að það séu fabúleringar út í loftið skal látið ósagt en í besta falli skrítin hegðun á vellinum. Eins og áður sagði þá var þessi leikur ekki mikið fyrir augað og fór að mestu leyti fram á vallarhelmingi Pafos. Þeir Kýpversku voru mjög þéttir fyrir og hleyptu okkar mönnum ekki nær en þeir þurftu og voru fastir fyrir. 37 krossar á 71 mínútu nægðu aðeins til fjögurra færa sem segir sína sögu. Pafos eru þekktir fyrir að vera fastir fyrir varnarlega og með þeim leikur fyrrum Chelsea maður hinn brasilíski David Luiz, en hann kom þó ekkert við sögu gegn sínum gömlu félögum að þessu sinni. En það var þó Moisés Caicedo sem stóð upp og skoraði eina mark okkar gegn þeim kýpversku og sá til þess að við erum þó enn á meðal átta efstu liða í Meistaradeildinni. Það sem gladdi mann helst var að sjá Estevao aftur á leikvellinum. Hann er að stíga upp eftir veikindi og í hvert skipti sem hann kom að einhverjum sóknarlotum skapaðist mikil hætta. Á hinn bóginn verður að segjast að Liam Delap og Joao Pedro verða að fara girða sig í brók.


Nú eru þeir hjá BlueCo byrjaðir að versla og hafa fest kaup á Yiso Alao 17 ára bakverði frá Sheffield Wednesday fyrir 500.000 pund en drengurinn sá hefur vakið talsverða athygli fyrir vasklega framgöngu með Miðvikudagsmönnunum og að auki með yngri landsliðum Englands. Einnig hafa verið þreyfingar varðandi franska varnarmanninn Jeremy Jacquet sem leikur með Rennes en þær viðræður hafa siglt í strand þar sem Rennes vill meiri pening fyrir hann en Chelsea eru tilbúnir að sættast á. Ég veit ekki alveg með þessa hugmynd þar sem ungir franskir leikmenn hafa nú kannski ekki verið að gera stórkostleg mót hjá okkur. Chelsea eru einnig á markaðnum eftir lánsmanni á miðjuna sökum þess að Dario Essugo meiddist aftur á æfingu, og það er alls óvíst með þátttöku Romeo Lavia á næstunni. Sá belgíski er í strangri gjörgæslu læknateymisins og honum verður ekki teflt fram nema læknar og sjúkraþjálfarar séu vissir um það verði óhætt. Nafn Douglas Luiz hefur dúkkað upp í umræðunni, en hann er á láni hjá Nottingham Forest frá Juventus og hefur lítið gengið hjá þeim ágæta leikmanni, sem var eitt sinn einn sá besti í Aston Villa. Gróa á Leiti hefur líka hvíslað því að stuðningsmönnum Chelsea að N'Golo Kante hafi komið til álita, en við blásum á þannig frásagnir, þar sem N'Golo er upptekinn með liðinu sínu Al Ittihad fram í apríl. Tilhugsunin um miðju með Moises Caicedo og N'Golo Kante er eins og sagði í auglýsingunni hér um árið: "Góður draumur maður". Einnig eru einhverjar sögur í gangi um Cole okkar Palmer, sem koma reyndar ekki frá áræðanlegum miðlum, um að hann sé með einhverjar hugmyndir um að spila fyrir Manchester United, en við verðum að láta eins og þetta séu smellubeitur eins og þær gerast bestar. En eitthvað þarf að breytast og viðhorf leikmanna þurfa að breytast til hins betra og puttinn þarf að fara í aðra átt en hann hefur farið. Það er nóg af silly-season frásögnum, en framundan er síðasta vika janúargluggans. Ekkert bólar á neinum viðræðum varðandi Axel Disasi og Raheem Sterling, en það kemur vonandi í ljós í vikunni.


Crystal Palace

Það ætti að vera auðvelt að sækja þrjá punkta á Selhurst Park eins og staðan er í dag. Andi upplausnar og uppgjafar er í herbúðum Crystal Palace. Oliver Glasner hefur tilkynnt að hann verði ekki áfram með liðið og er einn þeirra sem koma til greina sem næsti stjóri Manchester United. Miklar róteringar eru á liði þeirra þessa dagana þar segir helst til sín að Marc Guehí sem var uppalinn hjá okkur í Cobham er farinn til Manchester City. Jean Philippe Mateta er svo orðaður við brottför, líklegast til ítalskra liða eins og Juventus. Þetta kemur í kjölfar þess að Eze fór til Arsenal fyrr á tímabilinu. Það er óhætt að segja að risið á Palace mönnum sé ekki með besta móti þessi dægrin. Á góðum degi ættum við að ná þremur punktum, en Jesús minn hvað við mættum hrækja aðeins í lófanna frá síðasta leik. Ef við ætlum okkur eitthvað, þá er það núna. Crystal Palace hafa ekki unnið einn einasta leik síðan 11. desember og það var gegn írska liðinu Shelbourne í Sambandsdeildinni. Þetta á að heita skyldusigur, sama þótt það sé á útivelli, en við höfum yfirleitt kunnað vel við okkur á Selhurst Park, sunnan við Thamesá.



Liðsuppstilling og spá :

Ég hef enga trú á öðru en Rosenior tefli fram sínu sterkasta liði og ætla að setja Sanchez á milli stanganna og fyrir framan hann verða þeir Cucurella, Acheampong, Chalobah og Reece James. Tvíeykið þar fyrir framan verða þeir Enzo og Caicedo og svo verður hin heilaga þrenning skipuð þeim Palmer, Neto og Estevao og ætli Joao Pedro fái ekki ekki að dóla sér fremstur


Þetta fer 0-2 eftir mikinn þæfing


Góða skemmtun og Áfram Chelsea!!!




 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page