Chelsea gegn Pafos
- Jóhann Már Helgason

- 2 hours ago
- 6 min read
Keppni: Meistaradeildin, 7. umferð
Tími, dagsetning: Miðvikudagur 21. janúar kl: 20.00
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari:
Leikur sýndur: Viaplay
Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Chelsea tók á móti Brentford um liðna helgi. Þetta var fyrsti leikur Liam Rosenior í úrvalsdeildinni. Óánægja með BlueCo hefur farið sína á leið á samfélagsmiðlum meðal stuðningsmanna Chelsea. Það uppskar mótmæli fyrir utan Stamford Bridge fyrir leik þar sem hópur stuðningsmanna, þó ekki ýkja fjölmennur, mættu með mótmælendaspjöld gegn BlueCo. Það kom þó ekki að sök. Chelsea vann leikinn 2-0 sem var fyrsti úrvalsdeildarsigur Liam Rosenior. João Pedro skoraði glæsilegt mark á 26. mínútu eftir mistök í Brentford-vörninni (VAR staðfesti markið eftir að línuvörður flaggaði rangstæðu), en Cole Palmer bætti við öðru markinu á 76. mínútu úr víti eftir að markvörður Brentford, Caoimhín Kelleher braut af sér. Brentford átti fleiri góð færi en nýtti ekkert, en Robert Sánchez í markinu hjá Chelsea bjargaði stórkostlega nokkrum sinnum og var hetja leiksins. Moises Caicedo var einnig mjög öflugur og var með fyrirtaks einstaklingsframmistöðu. Það er um það bil það eina sem er hægt að draga jákvætt útúr leiknum. Hið neikvæða var spilamennskan. Chelsea gat ekki náð að tengja saman sendingar í uppspili lungan af leiknum og Brentford gáfu okkar mönnum engan grið á boltanum. Það er augljóst að Liam Rosenior er ennþá að fikta með liðið og hrókera leikmönnum í mismunandi stöðum. Til að mynda var João Pedro í striker, vinstri kant og í holunni. Skiptingar í leiknum báru þess merki, þegar Andrey Santos kom inn á fyrir Garnacho og Hato inná fyrir Enzo. Þetta var þriðji leikur Rosenior í raun er hann búinn að prófa flesta leikmenn og allskonar útfærslur. Næstu leikir verða því þýðingarmiklir, þar sem við ættum að vonast eftir því að Rosenior sé búinn að sjá nóg til forma sitt besta lið og leikstíl. Það sem var aðdáunarvert við þennan leik var sú breyting að hörfa frá áhættuuppspili Robert Sánchez eins og í Arsenal leiknum. Hlutfall langra bolta var töluvert meira sem bendir til þess að Rosenior er ekki fastur í ákveðinni hugmyndafræði. Með Tosin og Chalobah í miðvörðum framan af leiknum komst Chelsea í gegnum verkefnið með því að halda hreinu í markinu - þökk sé Robert Sánchez. Sigurinn var mikilvægur fyrir Chelsea eftir langan sigurlausan tíma í deildinni og lyfti þeim upp í 6. sætið, en Brentford féll niður í 7. sætið.
Í ljósi undanfarinna leikja og síðasta pistils á CFC hafa þrír miðverðir verið á blaði hjá BlueCo. Marcos Senesi hjá Bournemouth, Jacobo Ramón hjá Como og Jeremy Jacquet hjá Rennes. Við fyrstu sýn er þetta ekkert sérstaklega áhugavert. Ákall aðdáenda hefur verið ætíð að fá reyndan miðvörð til Chelsea, en BlueCo virðast ekki vera með slíkt á sínum snærum. Fabrizio Romano tilkynnti að samkomulag milli Jeremy Jacquet og Chelsea væri í höfn, og nú standa samningaviðræður við Rennes um kaup og kjör. Talað er um að Rennes vilji slá sölumetið sitt frá því þeir seldu Jeremy Doku til Manchester City sem voru 65 milljónir evra. Sagt er að Chelsea séu klárir með 50 milljón evra tilboð. En hver er þessi ungi franski miðvörður?

Jeremy Jacquet er tvítugur, stór og stæðilegur einstaklingur, 190 cm. á hæð og réttfættur miðvörður sem getur spilað þvert yfir varnarlínuna, líka vinstra megin. Hann er einn af efnilegustu ungu varnarmönnum Evrópu núna vegna blöndu af líkamlegum styrk, taktískri greind og boltaleikni. Hann er framúrskarandi í skallaeinvígum þar sem hann vinnur mjög hátt hlutfall þeirra. Hann hefur frábæra staðsetningagetu og þykir lesa leikinn vel sem leiðir til mikils fjölda tæklinga og unna bolta (e. interception). Hann er mjög áreiðanlegur einn á einn einvígum - og í ljósi þess hversu hraður hann, getur hann leyft liðum að spila með háa varnarlínu. Hann er líkamlega sterkur og er erfitt að stugga við honum af boltanum. Hann missir boltann sjaldan í uppspili upp úr vörninni. Í stuttu máli má segja að Jeremy Jacquet sameinar klassískan "no-nonsense" miðvörð sem er góður á boltanum og hraður til baka sem gerir hann að hugsanlegri framtíðarstjörnu. Hann hefur verið á radarnum hjá Arsenal, Bayern Munchen, Liverpool, Manchester United og Real Madrid. Það gæti því verið að eftirspurnin eftir Jacquet sé orðin það mikil að Chelsea hafa ákveðið að flýta áætlunum sínum frá næsta sumri núna í janúar. Það er líklegasta sviðsmyndin. Í raun mætti segja að Jacquet sé kannski hinn næsti Raphael Varane, miðað við hversu hæfileikaríkur hann er, og hversu vel hann hefur spilað fyrir Rennes á þessu tímabili. Þó eru alltaf ákveðnar efasemdir með svona unga leikmenn. Einnig bendir þetta til þess að það verði hreyfing á miðvarðarlínunni þegar nær dregur sumri. Chelsea fær þá til baka Aaron Anselmino og Mamadou Sarr. Við erum líka með Josh Acheampong sem hefur staðið sig mjög vel að undanförnu og það í stórleikjum. Hvað verður um Wesley Fofana og Trev Chalobah? Það er óhætt að segja aþeirra staða verður tekin til endurskoðunar eftir tímabilið ef Chelsea klófesta Jacquet. Til þess að gefa einhverja vísbendingu um hæfileikana, brugðum við á það ráð að bera saman Jacquet við varnarmenn Chelsea annars vegar, og Van Dijk hinsvegar. Tölfræðin lítur ágætlega út, en höfum í huga að Ligue 1 er ekki sama skepna og Úrvalsdeildin.

Einnig viljum við vekja athygli á einni vonarstjörnu Chelsea sem hefur verið að gera allt tryllt í unglingaliðunum. Það er hinn "marokkóski Messi" - Ibrahim Rabbaj. Hann er 17 ára gamall og var orðinn alltof góður fyrir U16 liðið. Hann spilar mest fyrir U18 liðið á þessu tímabili og með U21 liðinu í Evrópukeppni þar sem hann hefur sett sitt mark á leikinn, meðal annars með mörkum gegn Qarabag. Hann skrifaði á dögunum undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við Chelsea sem endar 2028. Nokkuð stuttur samningur, en nóg til að halda honum frá öðrum liðum eins og gerðist í tilfelli Rio Ngumoha og Liverpool. Við spáum því að hann fái örugglega að spreyta sig eitthvað með aðalliðinu áður en langt um líður.

En nóg af leikmannamarkaðinum í bili. Núna tökum við upp þráðinn í Meistaradeildinni. Síðasti leikur var hræðilegur gegn Atalanta í Bergamo sem setti okkur í ömurlega stöðu. Erum líklegir til að missa af efstu átta sætunum sem þýðir tveir auka leikir í umspili. Það væri virkilega gott að losna við þá og fá einhverja hvíld, en öll von er ekki úti enn sem komið er. Að þessu sinni mætum við Pafos FC. Það er félag frá Páfos á Kýpur, stofnað árið 2014 með sameiningu AEP Pafos og AEK Kouklia. Liðið spilar heimaleiki sína á Stelios Kyriakides Stadium og hefur vaxið hratt í síðustu árum. Á síðasta tímabili (2024-25) varð Pafos meistari í kýpversku deildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins og tryggði sér þátttöku í Meistaradeildinni. Þetta var stórt stökk fyrir félagið sem hefur verið í toppbaráttu undanfarin misseri. Pafos FC er í eigu fjárfestingafyrirtækisins Total Sports Investments (TSI) sem er stýrt af Roman Dubov, breskum ríkisborgara (upprunalega ungversk-rússneskum). Hann hefur verið formaður félagsins síðan 2018 og verið lykilmaðurinn á bak við árangurinn frá 2017 þegar TSI tók við. Dubov hefur oft lýst yfir metnaði sínum, t.d. að hann hafi dreymt um að vinna Meistaradeildina og hafði myndir af stórum völlum á veggjum félagsins löngu áður en kýpverski titilinn kom. Það er líka sterk tenging við rússneska viðskiptamanninn Sergey Lomakin, sem hefur verið nefndur sem mikilvægur fjárhagslegur bakhjarl félagsins. Lomakin var hluti af fjárfestingunni snemma og tengist einnig öðrum félögum í gegnum TSI (t.d. Riga FC í Lettlandi og Rodina Moscow). Það sem er furðulegt við Pafos liðið er sú staðreynd, að það eru einungis tveir Kýpverjar í öllu liðinu! Vinstri bakvörðurinn Kostas Pileas og varamarkvörðurinn Neofytos Mikail. Liðið er því samsett úr leikmönnum frá Suður Ameríku, Afríku og Evrópu. Sannkallað málaliðalið í grunsamlegu rússnesku eignarhaldi. Enginn leikmaður sker sig úr nema okkar kæri David Luiz, en því miður, þá meiddist hann í síðasta leik Pafos gegn Olimpiakos Nikosia á 12. mínútu leiksins. Það er því óvíst með hans þátttöku í leiknum gegn Chelsea. Brasilíski leikmaðurinn Anderson Silva hefur skorað flest mörk liðsins, en þó ekki nema fimm talsins. Markaskorun Pafos hefur mikla dreifingu en liðið hefur staðið sig bærilega í Meistaradeildinni. Gerðu jafntefli við Kairat Almaty og Mónakó og unnu Villareal 1-0. Liðið er í baráttu um að komast í umspilið og við megum alveg búast við erfiðum leik.
Það verður því áhugavert að sjá hvernig Liam Rosenior stillir upp Chelsea liðinu. Estevao og Jamie Gittens voru ekki með gegn Brentford vegna veikinda og einhverjir leikmenn spiluðu þann leik í gegnum veikindi sem bendir til þess að flensan sé að fara í gegnum leikmannahópinn. Tosin fór meiddur af velli þar sem hann fann til aftan í lærinu og Cole Palmer lagðist í grasið eftir leikinn gegn Brentford. Það er nokkuð augljóst að hann er ekki orðinn heill af nárameiðslunum þannig að þátttaka hans er mjög óljós eins og staðan er núna. Við hjá CFC ætlum þó að skjóta á að byrjunarliðið verði þetta: Robert Sánchez verði í markinu. Vinstri bakvörður verður Jorrel Hato. Hægri bakvörður verður Josh Acheampong. Miðverðir verða Chalobah og Fofana. Á miðjunni verða Reece James og Moises Caicedo og Enzo verður í holunni. Á vinstri kantinum verður Garnacho og Pedro Neto á þeim hægri. Liam Delap fær sennilega að byrja í framherjastöðunni. Það verður þó áhugavert að sjá hvort Tyrique George fái mínútur hjá Rosenior því hann er einn af þeim fáu sem hafa ekkert spilað. Einnig er líklegt að aðrir unglingaliðsmenn geti fengið mínútur ef þeir verða valdir í hóp og leiknum miðar vel. Hvernig fer leikurinn? Þetta á að vera 3-0 leikur. Mörk frá Delap, Reece og Enzo. Það er algjört lykilatriði að við klárum þennan leik sómasamlega til þess að vera lausir við vesen. Napoli eru næstu andstæðingar og það væri heppilegt að fara í þann leik með ekkert til hafa áhyggjur yfir, því Napoli hafa verið stökustu vandræðum í Meistaradeildinni.
Góða skemmtun og áfram Chelsea!





Comments