Charlton Athletic gegn Chelsea í FA bikar
- Jóhann Már Helgason

- 11 minutes ago
- 9 min read
Keppni: Enski bikarinn, 3. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagur 10. janúar kl. 20:00
Leikvangur: The Valley, Lundúnir
Dómari: Chris Kavanagh
Hvar sýndur: Viaplay
Upphitun eftir: Björgvin Óskar Bjarnason

AGALEYSI FC. LONDON SW6
Tabula rasa
Ég tók að mér (með löngum fyrirvara) að skrifa upphitun/inngang/hvata fyrir bikarleikinn gegn Chalton Athletic 10. janúar nk. Ég reyni yfirleitt að vinna mér í haginn en vildi samt láta árið renna út áður en ég byrjaði á greininni. Eftir 2-2 úrslit gegn Bournemouth næst síðasta dag ársins og þau vonbrigði sem sá leikur og eiginlega allir leikir í desember ollu mér og sennilega flestum fylgjendum Chelsea, ákvað ég að nýta næðið á gamlársdag til að gera upp viðburðaríkt ár hjá Chelsea og Maresca. Virkilega að tæpa á því skemmtilega og jákvæða sem gerðist á árinu hjá okkar ágæta félagi, en í leiðinni að rýna aðeins í það sem miður fór og það sem mér og fleirum fannst ábótavant. Og varð nokkuð ágengt í skrifum mínum um Chelsea, Maresca, BlueCo og Clearlake á viðburðaríku ári þar sem tveir titlar unnust og jafnframt þátttaka í Meistaradeild Evrópu. Af nógu var að taka.
Á nýársmorgun vaknaði ég upp við hausverkinn. Sem var ekki tilkominn vegna þess að ég lagðist í bílífið og sollinn kvöldið áður eða hafði sprengt áramótabombu frá björgunarsveitinni of nálægt skynfærunum. Nei, það var áramótabomban sem Maresca sprengdi beint í andlitið á Boehly og Eghbali. Eiginlega meira fýlubomba en nokkuð annað. Og minn hausverkur stafaði af því að ég hafði puðrað lungann úr síðasta degi ársins í að rýna árið hjá Chelsea til gagns og draga lærðar niðurstöður sem gætu mögulega gagnast á nýja árinu (að ég hélt). En öll þessi vinna var gerð ómerk eða öllu frekar varð tilgangslaus þegar Maresca ákvað að samskiptum hans og BlueCo skyldi lokið. Puntkum basta. Eða frekar basta basta basta og síðan punktum að mati Maresca. Og ég sat uppi með ritgerð sem ég sá engan tilgang í að birta í ljósi staðreynda (og gróusagna) en hef engan áhuga að gagnrýna eða dæma Maresca lengur og kastaði greininni því á glæ. Og ég mun heldur ekki skrifa eftirmæli um Maresca. Ég væri þó alveg til í að skrifa eftirmæli um BlueCo en ég held því miður að það fyrirbæri verði langlífari en andskotinn.
Eftir að fráhvarfseinkennin runnu af mér og ég sætti mig næstum við orðinn hlut fór ég að huga frekar að þessu loforði mínu um „pepp“grein fyrir bikarleikinn gegn nágrönnunum Chalton. Ég hafði að vísu meiri áhyggjur af afleiðingunum af brotthvarfi Maresca á leikmenn okkar en hvort ég kæmist skammlaust frá skrambans greininni. Ég ákvað þó að bíða þar til BlueCo hafði ráðið nýjan þjálfar af öllum þessum EINA sem stóð til að ráða eftir að Ítalinn gekk frá borði.
Þessi EINI er auðvitað „starfsmaður á plani“ hjá BlueCo með starfsstöð í Strassborg, Frakklandi. Þessi EINI hélt blaðamannfund í Strassborg þriðjudagsmorgunin 5. janúar og sagðist „hafa fengið leyfi sinna yfirboðara (BlueCo) að ræða við einn stærsta klúbb (Chelsea/BlueCo) í heimi og það væri heiður að fá að vinna fyrir slíkan klúbb (þ.e. BlueCo) og gæti hérmeð staðfest að hann hefði verið ráðinn sem knattspyrnustjóri (e. manager) hjá Chelsea (BlueCo).“
Ég hrökk auðvitað að heyra að Chelsea hefði ráðið sér knattspyrnustjóra og renndi mér á chelseafc.com til að fá staðfestingu á þessari ráðningu. Þar kom greinilega fram í fréttatilkynningu frá félaginu (og BlueCo) að gengið hefði verið frá ráðningu á „head-coach“ eða umsjónarþjálfara, en ekki knattspyrnustjóra. Og þessi þjálfari heitir Liam Rosenior og er nú „starfsmaður á plani“ hjá BlueCo í London, Englandi. Ef hann (Liam) gerir sér minnstu grillur um að hann sér orðinn knattspyrnustjóri hjá Chelsea verður hann ekki langlífur hjá BlueCo frekar en Tuchel, Pocchettino eða Maresca. Í það eru ráðnir „íþróttastjórar“ (e. sporting directors) eða jámenn sem hafa litla sem enga kunnáttu eða reynslu í þjálfun, stjórnun og uppbyggingu á úrvalsliði í knattspyrnu. Yfir þeim er síðan framkvæmdastjórinn (e. Chief executive officer) Todd Boehly, sem hefur þó reynslu af afreksíþróttum sem eigandi nokkurra íþróttafélaga í Bandaríkjunum. Yfir honum og eiginlega öllu klabbinu er síðan Clearlake Capital sem hefur þann eina áhuga á Chelsea að hafa hagnað af starfsseminni. Með öllum tiltækum ráðum og aðferðum. Enda Chelsea ekki lengur afreksíþróttafélag heldur fjárfestingarkostur bandarísks vogunarsjóðs.

Þótt BlueCo/Clearlake Capital virðast ekki hafa mikla þolinmæði fyrir að starfsmenn þess hafi aðrar skoðanir á starfsseminni en þær sem BlueCo/Clearlake gefur út þá virðist þessi samsteypa hafa óendanlega þolinmótt fjármagn. Enda með þráhyggju fyrir eigin viðskipta/íþróttamódeli sem þeir segja að sé öllu framar að eigi að ganga upp fjárhagslega, allavega fyrir fjárfestana í vogunarsjóðnum. Skítt veri með að rústa nokkrum fornfrægum íþróttafélögum í leiðinni og pissa yfir dygga stuðningsmenn þeirra. Og í reynd setja hroll að íþróttastofnunum og samböndum í löndum og álfum sem setja og halda utan um fjárhagslegar leikreglur sem öll félög þurfa að fara eftir. Þessir aðilar eru á handahlaupum við að stoppa upp í hin og þessi göt sem Kanarnir hjá Chelsea hafa fundið á bókhaldsreglunum og reyna að svara barbabrellum þeirra sem best.
Enn sem reyndur starfsmaður á plani þá þekkir Liam Rosenior til starfshátta BlueCo og hvernig á að stíga ölduna í boðaföllum dagskipana og fyrirmæla að ofan. Hjá Strassborg hafði hann a.m.k. þrjá íþróttastjóra hangandi yfir sér. Hann verður samt að gera sér grein fyrir að Chelsea er önnur og feitari Ella en Strassborg. Og töluvert dýrari fjárfesting í leikmönnum. Þannig að hann þarf ekki aðeins að þiggja möglunarlaust þá mishæfu leikmenn sem snillingarnir Winstanley og kó kaupa dýrum dómum, heldur þarf hann að þiggja excelskrá frá þessum kónum hvaða leikmenn þeirra hann þarf að velja í liðið þannig að fjárfestingin viðhaldi verðgildi sínu. Ég held að Liam fái engan afslátt þótt hann sé Brighton-gutti eins og næstum allir Winstanleykónarnir. (Smá Winstanleytölfræði: Frá því að Winstanley, Shields, Stewart og Jewell tóku við hafa 42 leikmenn verið „keyptir“. Af þeim teljast aðeins þrír velheppnuð kaup en vel yfir 90% verið misheppnuð kaup eða kaup sem engu máli skiptir. Yfir 1.2 miljörðum punda (204 miljarða ísl. kr. - um 204.000.000.000) hefur verið eytt í þessi kaup á ungum leikmönnum en níu af hverjum tíu þeirra eru yngri en 25 ára. Sex af þessum leikmönnum hafa síðan verið seldir með hagnaði en fjórir seldir með tapi. Lítið er horft til hvort keyptir eru leikmenn til að styrkja stöður heldur er einblítt á mögulega endursölumöguleika.
Síðan þarf herra Rosenior að þiggja aðra excelskrá frá sjúkra- og endurhæfingarteyminu sem segir honum hverjir séu leikhæfir eða hversu margar mínútur hver leikmaður má vera inn á vellinum og hvernær þarf að skipta honum út af. Þannig að ekki er nú mikið eftir fyrir herra head-coach að gera. Mæta á leiki og stjórna æfingum. Setja upp leikjaplan (allavega ennþá) fyrir leiki og passa sig að segja það sem honum er sagt að segja á blaðamannfundum og í viðtölum. Og jú það mikilvægasta. Að vera algjörlega sáttur blóraböggull þegar illa gengur og þiggja 10+ milljón pund í starfslokasamning eftir rúmlega árið. Eigendurnir og valdhafarnir eru ekki mikið fyrir að skýra út það sem miður fer fyrir okkur áhangendum því þeir gera ekki mistökin. Það er allt starfsmanninum á planinu að kenna sem miður fer þótt honum sé skapað ófullkomið starfsumhverfi, léleg tæki til að vinna með og sífelld afskipti af vinnubrögðum hans með ofstjórnun. Það gengur enginn af stjórnendunum fram fyrir skjöldu og tekur ábyrgð á sínum gjörðum eða mistökum þegar á bjátar, eða skýrir út fyrir milljónum Chelsea-aðdáenda um hvað málið snýst. Lausnin er einföld. Þjálfarinn er látinn taka pokann sinn margumtalaða.
Sem frekar bjartsýnn maður að eðlisfari er ég að draga upp frekar dökka mynd af félaginu okkar. En þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Þrátt fyrir fögur fyrirheit BlueCo um að reka Chelsea í anda fyrrum eigenda (sem knattspyrnufélag í fremstu röð) þegar breski Íhaldsflokkurinn kramdi félagið úr lúku Roman og afhenti það bandarískum vogunarsjóði og nokkrum fjársterkum aðilum. Todd Boehly var beitt fyrir þeim áróðursvagni þar sem hann átti og rekur nokkur öflug íþróttafélög vestan hafs. En fljótt kastaði úlfurinn gærunni og sýndi sitt rétta andlit og innræti. Íþróttasjónarmið Boehly urðu fljótt undir og helkaldur veruleikinn kom í ljós. Þeir sem réðu voru Clearlake Capital sem eru sérfræðingar í að fjárfesta í fyrirtækjum, brjóta þau upp, selja taphlutan og reka hagnaðarhlutann eða eignastrípa fyrirtæki og félög. En gamla góða Chelsea verður aldrei það sama meðan þessir eigendur ráða ríkjum. Allavega miðað við þá þróun sem blasir við í dag. Enda ég ekki sá eini sem viðrar áhyggjur af ástandinu. Bjarni Freyr Bernhöft Reynisson skrifar upphitun fyrir Fulhamleikinn þar sem hann tæpir á því sama og ég fyrir utan að rýna skynsamlega í stöðuna.
Calum McFarlane.
Bjarni Freyr fór einnig vel yfir úrslit fyrsta leik ársins gegn Man City. En unglingaliðsþjálfari Chelsea tók að sé að stjórna vængbrotnu Chelsea-liðinu gegn vaxandi Man City á eigin heimavelli. En Chelsea náði ásættanlegum árangri í þeim leik og óx frekar ásmegin þegar líða tók á leikinn. Meiri yfirvegun og nákvæmni á síðasta þriðjungnum hefði getað fært okkur sigur en það hefur verið okkar sorgarsaga í vetur. Að klára ekki góð færi og fá á okkur ódýr og kjánaleg mörk. Calum var svosem enginn greiði gerður með því að setja hann á Fulhamleikinn þegar Rosenior var mættur þegar til starfa. En mögulega fyrir bestu þar sem Rosenior sat í stúkunni með Eghbali og horfði á allt sem einkennt hefur Chelsea í vetur.
Skelfilega vörn og einstaklingsbundin varnarmistök, óásættanleg skot og fyrirgjafir og algert agaleysi leikmanna af verstu gráðu. Chelsea hefur fengið ÁTTA RAUÐ spjöld sem komið er á þessu tímabili (CWC meðtalið). Flest þeirra beint rautt tilkomin vegna rangra ákvarðana eins og þær að varnarmaður haldi að það sé betra að bjóta á „fremsta/síðasta“ sóknarmanni og leika síðan einum færri í 60-80 mínútur í stað þess að treysta á markmanninn. Og jafnvel þó sóknarmaðurinn skori úr sóknarfærinu eru meiri möguleikar í stöðunni með 11 menn á vellinum en 10. Ekki nóg með það að Cucurella væri réttilega rekinn út af heldur náðu þrír reyndustu leikmennirnir sér í gult spjald fyrir að mótmæla þessu eina broti. Gjörsamlega óásættanleg framkoma sem ekki er hægt að skrifa á allt þetta umstang og mögulega pirringinn vegna brottfarar þjálfarans á miðju tímabili. Þetta hefur verið viðloðandi Chelsea allt BlueCo tímabilið. Staðan er ekkert betri í gulu spjöldunum en við trónum þar efstir. Flest af þessum spjöldum hafa ekkert með fótbolta að gera, fæst „fagleg“ en mest vegna mótmæla og pirringsbrota.

Liam Rosenior.
Liam hefur verið að gera góða hluti með Strassborg en hann hefur enga reynslu á stóra sviðinu þannig að ég er sammála Bjarna Frey um að erfitt sé fyrir félag sem vill vera í hæsta gæðaflokki að vera með reynslulítinn þjálfara sem og unga og reynslulausa leikmenn. Það fer ekkert á milli mála að hjá Chelsea eru margir efnilegir og jafnvel mjög góðir leikmenn. Sumir á heimsmælikvarða. En síðan eru aðrir sem búist var við miklu af, en einhvern veginn náðu sér aldrei á strik undir stjórn fyrri þjálfara. Hvort sem það var vegna þess að þeir nutu ekki trausts þjálfarans eða vegna þess að þeir skildu ekki flókið leikkerfið læt ég ósagt. Síðan eru þeir fjölmörgu miðlungsleikmenn sem keyptir hafa verið (sumir á uppsprengdum verðum) í von um að bæta þá og selja síðan. Svona meira í takt við kjúklingarækt en rekstur knattspyrnufélags. Einnig er það skrýtið að leikmenn sem „eru betri en enginn“ hjá öðrum félögum koðnuðu gjörsamlega niður eftir að þeir komu til okkar. Mér fannst eiginlega enginn leikmaður taka framförum í því ofhugsaða, rígfasta og þvingaða leikkerfi sem Chelsea hefur leikið síðasta rúmlega árið. Og margir hverjir leikmenn sýnt afturför frekar en framþróun.
En nóg af bölmóði og væli. Rosenior hefur ekki einu sinni sýnt okkur hvers hann er megnugur með þennan leikmannahóp þótt íþróttastjórarnir hafi eilítið skekkt myndina með því að kaupa leikmenn í stöður sem ekki vantaði í og selja leikmenn í stöðum þar sem við eru veikastir fyrir án þess að kaupa aðra í staðinn, hvað þá reynda gæðaleikmenn. En þetta er - og verður raunveruleiki Chelsea undir stjórn BlueCo. Ef BlueCo hefði einhvern snefil af sjálfsgagnrýni og rýndu verulega í ástæðuna fyrir því að þjálfari yfirgefur „verkefnið“ eftir aðeins 18 nokkuð árangursríka mánuði og reyndu að læra af því mun ég fagna því. Það innifelur að láta Rosenior fá reynda leikmenn sem sem styrkja hópinn, ekki unglinga. Og mögulega íþróttasálfræðing til að vinna á þessari ófagmannlegu reiði sem brýst út hjá okkar leikmönnum við minnsta mótlæti.
Ég veit að Rosenior mun farnast vel ef honum tekst að bæta eftirfarandi:
- Skerpa á vörninni með því að „rótera“ henni eins lítið og hægt er.
- Sannfæra BlueCo að styrkja vörnina (ekki Trent Alexander)
- Verjast betur föstum leikatriðum, sérstaklega á fjærstöng.
- Ekki gera kvöð um tiki-takaspil hjá Sanchez í og við teiginn.
- Halda leik Sanchez eins einföldum og hægt er.
- Laga agavandamál leikmanna á vellinum. Fækka rauðum og gulum spjöldum.
- Leyfa frjálsari, flæðandi og meira skapandi fótbolta en samt skipulagðan.
- Koma Palmer „í gang“. Þó ekki væri nema í 80% af fyrri getu.
- Endurvekja sjálfstraust leikmanna sem við vitum að geta betur.
- Æfa fyrirgjafir og sendingar á síðasta þriðjungi vallarins.
- Taka alvarlega fyrir skotnýtinguna með markvissari skotæfingum.
- Reyna að byggja upp sjálfstraust þannig að liðið tapi ekki unnum leikjum.
- Reyna að koma í veg fyrir svart og hvítt hálfleika hjá liðinu með öllum ráðum.
Chelsea - Charlton.
Ég ætla ekki að stilla uppi liði fyrir Rosenior í hans fyrsta leik. Það er mikilvægt fyrir hann að vinna þann leik jafnvel þótt leikið sé við nágrannaliðið Chalton Athletic og liðið sé í 19. sæti í Championship deildinni. Á nýarsdag náðu þeir jafntefli (heima á The Valley) við efsta lið deildarinnar Coventry þannig að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Okkur hefur ekki gengið allt of vel við minni máttar eða lið úr neðri deildum sl. ár þannig að ég geld varhug við því að stilla upp einhverju varaliði og lenda síðan í tómu basli og tjóni við að reyna að rétta úr kútnum þegar líður á leikinn. Skv. DV hefur „Ofurtölvan“ spáð um úrslit þriðju umferðar FA bikarsins og endar þessi leikur 1-1 sem Charlton vinnur síðan 4-2 í vítakeppni.
Ég ætla að láta mig hlakka til að horfa á frumraun Rosenior hjá Chelsea og vonast auðvitað eftir góðum úrslitum og lítið af rauðum spjöldum og jafnframt að sleppa við meiðsli því leikjaplanið framundan er nokkuð þétt.
Björgvin Óskar
Bob





Comments