top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea gegn Brentford

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 48 minutes ago
  • 5 min read

Keppni: Úrvalsdeildin, 22. umferð

Tími, dagsetning: Laugardagur 16. janúar  kl. 15:00

Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir

Dómari: John Brooks

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson



Já, kæru Chelsea aðdáendur. Enska úrvalsdeildin hefst aftur hjá okkar mönnum eftir tvo bikarleiki í sitthvorri keppninni. Á laugardaginn mæta liðsmenn Brentford á svæðið, en þeir hafa komið verulega á óvart í vetur og sitja nú í 5. sæti deildarinnar með 33 stig. Brentford misstu báða helstu markaskorara sína frá síðasta tímabili síðasta sumar, auk þjálfarans Thomas Frank sem kom liðinu upp í úrvalsdeildina og hélt því þar í nokkur ár án mikilla vandræða. Í hans stað var Keith Andrews ráðinn úr þjálfarateyminu og margir spáðu því að Brentford yrði í fallbaráttu á þessu tímabili, en þeir hafa sýnt hvað gott skipulag, sterkur heimavöllur og þétt liðsheild geta náð langt.


Af leikmannamálum í janúar er það helst að frétta að Argentínumaðurinn Facundo Buonanotte virðist ætla að klára seinni hluta tímabilsins í búningi Leeds. Þeir voru á eftir honum áður en við fengum hann nokkuð óvænt til okkar á láni, en dvöl hans hjá okkur á fyrri hluta tímabilsins hefur því miður ekki verið upp á marga fiska. Takk fyrir þitt framlag, Facundo. Á hinn bóginn virðist tími Tyrique George vera líða undir lok. Hann hefur ekki verið í leikmannahóp í Úrvalsdeildinni í 12 leikjum í röð og mínútum hefur farið markvisst fækkandi. Það myndi ekki koma á óvart ef hann væri á förum bráðlega, jafnvel í þessum glugga. Við hjá CFC sögðum áður að það væri ekkert sem bent til þess að nýjir leikmenn koma í þessum janúarglugga, en Matt Law, blaðamaður á Daily Telegraph, segir frá breyttum áformum. BlueCo höfðu áætlað að miðvarðakaup yrðu á dagskrá í sumar, en því hefur verið flýtt. Það gæti líka þýtt að einhverjum miðvörðum verði ýtt út á móti, og þar mætti segja að Tosin Adarabayo sé líklegur, í ljósi þess að hann ber ekki þungan kostnað í sanngirnisbókhaldinu. Að sama skapi yrði Benoit Badiashile ólíklegur til brottfarar, þar sem hann er eini örvfætti miðvörðurinn í hópnum og miðað við hvernig Rosenior leggur upp leikinn, virðist þetta vera mjög mikilvæg staða. Það hefur borið skugga á frammistöðu Kendry Paez hjá Strasbourg. Háværar raddir eru um að hann komi til aftur til baka til Chelsea og fari annað á láni innan Englands, þótt ekki neitt liggi ljóst. Ástæðurnar koma ekki til af góðu, þar sem hann hefur ekki ná að setja sitt mark á leikinn, undir stjórn hjá Rosenior, en franski fjölmiðillinn L'Equipe birti samantekt yfir síðasta ár. Utanvallarmálin eru sérstaklega nefnd: L'Équipe segir að lífstíll (fr. hygiène de vie) hans sé "pas optimale" eða ekki upp á sitt besta. Þetta þýðir að lífsstíllinn hjá honum sem oftast vísar til næturlífs, svefnvenja, næringar eða annarra utanvallarþátta, sé ekki í takt við væntingar til ungs knattspyrnumanns - hvað þá til þeirra sem eru keyptir á metfé. Þetta var þegar álitaefni hjá Strasbourg þegar hann kom síðasta sumar vegna frétta um veru hans á skemmtistað með öðrum landsliðsmönnum Ekvadors, og það er sagt vera að staðfesta sig núna upp á síðkastið. Þetta verulegt áhyggjuefni fyrir Chelsea.



Liam Rosenior hóf sinn feril hjá okkur á öflugum útisigri gegn Charlton, 1–5, en í kjölfarið kom heimaleikur gegn Arsenal sem tapaðist 2–3. Hvað er eiginlega hægt að segja um þann leik? Hann var að mörgu leyti vonbrigði, en samt má draga úr honum nokkra jákvæða punkta. Sánchez rifjaði upp gamla takta í markinu og því miður átti Joao Pedro mjög dapurt kvöld. Uppspilið í leiknum var í tómu tjóni nánast allan leikinn sem má skrifa á uppleggið hjá Rosenior. Á móti kom Garnacho með flotta innkomu og Estevao spilaði allan leikinn, sem bendir líklega til þess að hann byrji á bekknum á laugardaginn og Garnacho komi inn í byrjunarliðið. Leikur Estevao vakti sérstaka athygli í þeim skilningi hvað Jurrien Timber átti í stökustu vandræðum með þann brasilíska. Við erum þó enn inni í þessari viðureign gegn Arsenal og vonum einfaldlega að liðið komi betur slípað í seinni leikinn eftir þrjár vikur, en það eru vissulega nokkrir leikir fram að því.


En í stað þess að dvelja við það sem er að baki skulum við líta fram á veginn. Leikurinn gegn Brentford verður fyrsti deildarleikur Rosenior með liðið, og það er nokkuð ljóst að þetta verður alls ekki auðveldur leikur. Það sem ætti þó að gefa okkur smá bjartsýni er að útivallarleikir hafa reynst Brentford erfiðir. Þeir hafa spilað 10 útileiki, aðeins unnið þrjá en tapað sjö. Sigrarnir komu gegn West Ham, Wolves og Everton. Markahæsti maður þeirra er Igor Thiago með 16 mörk í deildinni og þurfa varnarmenn okkar að hafa sérlega góðar gætur á honum. Þá er Þjóðverjinn Kevin Schade einnig stórhættulegur og hefur verið í fantaformi í vetur. Fyrri leikur liðanna endaði í 2–2 jafntefli þar sem Brentford jafnaði í uppbótartíma eftir kæruleysi í varnarvinnunni. Það verður áhugavert að sjá hvernig Liam Rosenior stillir liðinu upp. Hann þarf að fara með sterkt lið inn í þennan leik því sigur er bæði nauðsynlegur fyrir liðið og ekki síður hann sjálfan. Greyið kallinn byrjar í ákveðinni brekku gagnvart hluta stuðningsmanna. Það hlýtur að vera erfitt að fá þessa vinnu og strax heyra gagnrýnisraddir um reynsluleysi og að vera ekki nógu stórt nafn. En hann virðist einbeittur í að láta verkin tala og vonandi tekst honum það. Ef Avram Grant gat mallað rólega upp brekkuna þegar hann tók við af José Mourinho, með enn stærri skó að fylla og fleiri prímadonnur í hópnum, og skilað ágætu tímabili, þá hlýtur Rosenior líka að geta það. Við hljótum jú öll að vona að þjálfara liðsins okkar gangi vel, er það ekki? Ferilskrá hans er kannski ekki skreytt risaliðum, en gleymum því ekki að bæði Lampard og Maresca, og já, vinur minn Avram Grant (það voru aðrir tímar), komu ekki heldur með stórglæsilegan feril á bakinu. Vonandi nær Rosenior bæði til leikmanna og stuðningsmanna.


En snúum okkur þá að hugsanlegu byrjunarliði. Það er enn óvíst hvort Cole Palmer og Reece James séu klárir, en vonandi verða þeir það. Jamie Gittens og Liam Delap eru búnir að vera lasnir og misstu þess vegna að leiknum við Arsenal, og óvíst er með þátttöku þeirra. Einnig er Malo Gusto spurningamerki, en vonandi verður hann klár. Ég reikna með að Sánchez haldi sæti sínu í markinu. Vonandi verður Reece James orðinn heill og byrji í hægri bakverði. Marc Cucurella verður vinstra megin, en ég vona að samkeppni hans við Hato verði meiri nú með komu Rosenior, en Hato er að mínu mati óslípaður demantur. Miðverðirnir verða Chalobah og Fofana. Punktur. Ekki vera að hræra í því. Á miðjunni snýr Caicedo aftur og Enzo verður honum við hlið, þó Andrey Santos sé farinn að banka fast á dyrnar. Hann átti jú mjög gott tímabil undir stjórn Rosenior hjá Strasbourg í fyrra. Ég vona að Cole Palmer verði orðinn klár og spili fyrir framan miðjuna. Garnacho kemur inn eftir tvö mörk og Pedro Neto heldur sínu sæti.  João Pedro byrjar líklegast frammi ef Delap er ekki enn búinn að ná sér, en Pedro þarf að sýna okkur mun betri leik en hann sýndi í vikunni.


Ég ætla að spá þessum leik með 2-0 sigri okkar manna. Fyrra markið kemur frá Pedro Neto í fyrri hálfleik og seinna markið skorar Estevao undir lok leiks.


Góða skemmtun og áfram Chelsea!

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page