Undanúrslit gegn Arsenal
- Jóhann Már Helgason

- 13 minutes ago
- 7 min read
Keppni: Enski deildarbikarinn, undanúrslit fyrri leikur
Tími, dagsetning: Miðvikudagur 14. janúar kl. 20:00
Leikvangur: Stamford Bridge, Lundúnir
Dómari: Simon Hooper
Hvar sýndur: Viaplay
Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Það var ánægjulegt að verða vitni að því þegar Chelsea mætti Charlton í hinum enda borgarinnar í ensku bikarkeppninni um helgina. Þetta var fyrsti leikurinn undir stjórn Liam Rosenior. Það fór ákveðinn hrollur um mann þegar byrjunarliðin voru birt klukkutíma fyrir leik. Minni spámenn eins og Jörgensen, Tosin Adarabayo, Beniot Badiashile og Facundo Buonanotte voru á blaði. Þrátt fyrir að Charlton er lið í ströggli í Championship deildinni, þá hafa minni lið strítt okkur afskaplega mikið með því að leggjast niður á teig og verjast á 10-11 leikmönnum. Leikir fyrr á tímabilinu gegn Lincoln City, Cardiff, Wolves og Qarabag í Baku gáfu tilefni til þess að vera með kvíðahnút í maganum fyrir þessum leik. Rosenior fékk tvo daga til að undirbúa liðið og koma sínum áherslum að. Eðlilega var ekki hægt að umturna öllu á svona skömmum tíma. Rosenior til að mynda spilaði með Mike Penders mjög hátt á velli með Strasbourg og er virkur þátttakandi í uppspili liðsins sem miðvörður, stundum með 30-40 snertingar utan teigs í leik. Þetta er eitthvað sem passar ákaflega illa með Robert Sanchez og að einhverju leyti Filip Jörgensen. Rosenior útskýrði þetta á blaðamannafundi fyrri leik að slíkar færslur taka lengri tíma að implimentera. En liðið var stillt upp, nokkuð líkt uppleggi Enzo Maresca, þar sem liðið varðist í 4-2-3-1 en sótti í 3-2-4-1 þar sem vinstri bakvörðurinn (Jorrel Hato) varð að þessum miðjublendingi.

Chelsea tóku fljótt yfir leikinn en þó náðu Charlton að ógna með skyndisóknar upphlaupum annað slagið, sér í lagi þegar Tosin og Badiashile voru klúðurslegir á boltanum. Badiashile tókst einnig að fá gult spjald eftir fimm mínútur og okkur rann kalt vatn milli skinns og hörunds. En smám saman urðu yfirburðirnir þannig að leikurinn fór fram við vítateig Charlton. Athygli vakti að Jamie Gittens lék á hægri vængnum, en Garnacho vinstri. Gittens þó mun meira í boltanum að taka rispur framhjá bakverði Charlton. Buonanotte var ekki að hlaupa inn í hálfsvæðið, sennilega til þessa að gefa plássið fyrir Gittens. Margt líktist við upplegg Maresca, liðinu gekk ekki vel að brjóta niður Charlton múrinn framan af leik. Það var á þessum augnablikum sem manni leið eins og við værum á leiðinni í sama miðjumoðið og Enzo Maresca hafði boðið uppá mánuðina áður. Færin sem gáfust voru í raun hálffæri og skotan utan við teiginn. Buonanotte átti í erfiðleikum og missti gjarnan boltann í álitlegum sóknaraðgerðum. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks brast svo stíflan. Caicedo átti sendingu inn á teig sem varnarmenn Charlton skölluðu boltanum frá í hlaupaleið Jorrel Hato sem tók boltann á lofti og þrumaði upp í nærhornið. Besti tíminn til að skora mark er rétt fyrir hálfleik.

Í seinni hálfleik stigu Charlton aðeins upp völlinn leikurinn opnaðist. Chelsea fengu aukaspyrnu á 50. mínútu sem Buonanotte sendi á nærstöngina þar sem Tosin gat stýrt boltanum í netið. Þarna varpaði maður öndinni léttar. Sjö mínútum síðar fengu Charlton hornspyrnu þar sem þeir unnu skalla á fjærstöng. Enn og aftur er fjærstöngin að valda okkur vandræðum. Jörgensen varði meistaralega en Miles Leaburn fylgdi eftir frákastinu. Staðan 2-1 og takturinn á hvíldarpúlsinum tók að aukast á ný. Mikil meginlandsstemmning myndaðist á The Valley, reykblys og trall í öllum stúkum vallarins. Megi Charlton koma aftur í Úrvalsdeildina bara fyrir það, en síðast þegar Chelsea mættu þeim voru Shevchenko og Lampard að stríða þeim. Á þessu augnabliki var ég hræddur um að þarna myndi Chelsea missa leikinn frá sér útfrá andrúmsloftinu - en allt kom fyrir ekki. Garancho mætti á vinstri kantinum, setti hann út á Buonanotte sem skaut að marki sem Mannion markvörður Charlton varði með löppunum, en boltinn datt fyrir Marc Guiu sem skoraði úr frákastinu í markteignum. Þarna hvarf kvíðinn. Það var ekki séns á að klúðra málum uppúr þessu. Liam Rosenior ákvað þá taka Guiu, Buonanotte og Gittens útaf fyrir Estevao, Enzo og Liam Delap.
Þarna breyttist leikurinn og varð algjörlega eign Chelsea. Estevao og Enzo léku sér að Charlton vörninni sem var sundurtætt hvað eftir annað. Miðjan hjá Andrey Santos og Caicedo hafði líka verið frábær fram að þessu, en með viðbót Enzo Fernandez í holuna, fór þetta að tikka fyrir alvöru. Greyið bakvörðurinn og vinstri miðvörðurinn hjá Charlton. Þeir voru alveg á útopnu við að stoppa hverja sóknina. Estevao hefði átt að skora tvívegis. Pedro Neto kom svo inn fyrir Garnacho og bætti í vinstra megin, náði að koma sér í skotstöðu og skoraði mark á 85. mínútur og Estevao vann vítaspyrnu sem Enzo setti örugglega í netið. 5-1 lokaúrslit og frábær byrjun hjá Liam Rosenior. Fyrsti stjórinn til að vinna fyrsta leik síðan Antonio Conte stýrði (við teljum ekki Samfélagsskjöldin hjá Sarri með í þessu).
En bíðum við! Þetta er bara Charlton! Lítið lið með litla möguleika. Aftur vísa ég til þess þegar Chelsea spilaði við Qarabag, Wolves, Lincoln og Cardiff. Allir þeir leikir voru helber þvæla og gáfu Chelsea góðan leik. Lincoln og Cardiff eru í deild neðan við Charlton, en í þessum leik náði Chelsea að skapa sér 9 stórfæri, 30 skot þar af 16 á rammann. xG tölfræði uppá 3.59 og tæplega 700 sendingar með 92% heppnishlutfalli. Þetta er standardinn sem á að vera settur gegn svona litlum liðum, með fullri virðingu fyrir þeim. Það gerðist ekki í hinum leikjunum og við gerðum jafntefli við Qarabag. Eftir leik hrósaði Liam Rosenior leikmönnum liðsins. Hann þakkaði þeim fyrir að taka vel í sínar hugmyndir. Hann hefur komið mjög vel fram í viðtölum almennt. Hann talar upp jákvæða hluti og hefur líka beint orðum að aðdáendur skipta máli. Hann er í raun að gera allt rétt útfrá hlið almannatengsla. Hann gerir lítið úr sínum hlut, en talar aðra upp, og rétt til aðdáenda. Útfrá sjónarhóli leiðtogafræða er hann að tikka í öll rétt box. Hann gefur af sér ákveðin blæbrigði eins og hann sé góða tilfinningagreind og hefur þessa ákveðnu auðmýkt sem mörgum skortir. Ég nefni sérstaklega í því samhengi Erik Ten Haag, Ruben Amorim, Andre-Villas Boas og aðrir sem virka eins og róbotar í mannlegum samskiptum. Hann virkar á mig eins og hann hefur element sem Carlo Ancelotti hefur með mannleg samskipti, en athugið sérstaklega, að ég er ekki að segja að þeir séu á sama leveli sem knattspyrnustjórar, þvert á móti.
Liam Rosenior á eftir að sanna sig og hann veit það sjálfur manna best. Andrúmsloft meðal stuðningsmanna er líka þess eðlis. Þrátt fyrir stórsigur eru menn ekki sannfærðir, enda óreyndur gegn betri liðum. Við erum ekki búnir að sjá hvernig hann bregst við mótlæti, sem verður án efa atriði sem kemur fljótt. Þar munum við sjá virkilega úr hverju Liam Rosenior er gerður. Frammistaðan í þessum leik var þó fín og gefur ástæðu til að vera bjartsýnn á framhaldið, sér í lagi þegar okkar bestu leikmenn koma inn eins og Marc Cucurella, Reece James, Cole Palmer og miðverðirnir tveir, Chalobah og Fofana.
Næsta áskorun verður einmitt úr efstu hillu þar sem við tökum á móti Arsenal í fyrri leik undanúrslita Deildarbikarsins. Marc Cucurella á að vera klár í þann leik samkvæmt mínum heimildum, þar sem rauða spjaldið hans verðskuldaði aðeins eins leiks bann, þar sem brotið var fyrir utan teig gegn Fulham. Jorrel Hato var þó alveg frábær í Charlton leiknum og gefur góð fyrirheit að liðið þurfi ekki að misnota mínúturnar hans Cucurella með þeirri meiðslaáhættu sem fylgir. Síðasti leikur gegn Arsenal var frábær skemmtun, en rauða spjaldið í þeim leik eyðilagði sigurvonirnar. Nallarnir tóku Portsmouth og pökkuðu þeim saman 4-1 með m.a. þrennu frá Martinelli. Jafntefli eða sigur gegn Arsenal í þessu einvígi mun fleyta okkur langt, og sérstaklega Rosenior. Tap gæti þó þýtt að kurrið sem kraumar undir yfirborðinu hjá aðdáendum brjótist aftur upp á yfirborðið. Níðsöngvar gegn BlueCo heyrast þó enn á leikjum sem og lofsöngvar um Roman Abramovich. Þolinmæðin gegn stjórnendum Chelsea er orðin ansi takmörkuð. Við sem stuðningsmenn vorum orðnir svo góðu vanir með því að fá stærstu stjörnurnar í liðið og nafntogaða stjóra. Þessi tími er liðinn og áherslur BlueCo eru til lengri tíma. Hinsvegar verður því ekki neitað að leikmenn og stjórar sem hafa komið í gegnum tengslanet íþróttastjóranna hefur ekki borið eins mikinn ávöxt og aðdáendur hafa ætlast til. Þetta snýst líka að einhverju leyti um væntingastjórnunina. Behdad Egbhali virðist þó eiga það sameiginlegt með Roman Abramovich að hafa litla þolinmæði fyrir takmörkuðum árangri. Það er hann sem leggur sína peninga að veði og við getum þakkað fyrir að hann lætur sjá sig á leikjum, en t.d. Glazerarnir hjá Manchester United, því það er ekkert eins vont og fjarverandi eigendur sem hugsa bara um fjárhagslegu hliðina en ekki fótboltahliðina. Við gefum því Eghbali sénsinn, sér í lagi þegar söngvarnir úr stúkunum eru ekki til þess fallnir að hylla hann. Við höfum fengið fregnir af því að Chelsea munu ekki kaupa neina leikmenn til liðsins í janúar og orðræðan er þann veg hverjir fara. Leo Castledine, unglingaliðsmaður á láni hjá Huddersfield (12 mörk í 27 leikjum) var seldur til Middlesborough á 1 milljón punda. Umboðsmenn Axel Disasi eru að vinna yfirvinnu við að koma honum einhvert í janúar glugganum. Þeir hafa boðið hann til Barcelona og AC Milan, en Roma virðist enn vera með mestan áhuga. Raheem Sterling er enn orðaður við Fulham en Napoli bíða enn á kantinum. Hinsvegar vill Sterling halda sig við Lundúni af fjölskylduástæðum og Napoli vilja ekki kaupa hann nema þeir selji leikmenn. Það er þó eitt ljóst, hann vill fara frá Chelsea endanlega. Því hyllir undir að einhverskonar starfslokasamningur verði á borðinu, en Chelsea losa sig við hann úr launabókhaldinu. Chelsea getur ekki lánað fleiri leikmenn erlendis, nema Kendry Paez fari frá Strasbourg á láni einhvert annað innan Englands. Mál Mikhaylo Mudryk eru enn óskýr, þó spænskir fjölmiðlar segja að það dragi til tíðinda í hans málum þann 17. janúar. Hvort það sé satt er svo annað mál. Framundan er svo leikurinn við Arsenal eins og áður sagði. Það má búast við því að Rosenior tefli fram sterkasta liðinu sínu. Það má búast við því að hann róteri miklu til að sjá hópinn betur. Því býst maður við þessari uppstillingu: Sanchez í markinu. Cucurella (eða Hato) í vinstri bakverði. Fofana og Chalobah miðverði. Malo Gusto verður í hægri bakverði. Miðjan verður Reece James og Caicedo, þótt Andrey Santos gæti verið inni, ef Reece er ekki heill. Pedro Neto verður á vinstri kantinum, Enzo í holunni og Cole Palmer á hægri. Joao Pedro fær að byrja í framherjanum. Dario Essugo er byrjaður að æfa og var á bekknum gegn Charlton, en gegn liði eins og Arsenal er afar ólíklegt að hann fái mínútur. Þessi leikur skiptir þvílíkt miklu máli og það verður fróðlegt að sjá hvernig leikurinn þróast. Rosenior hefur gefið það út, að það þrátt fyrir leikupplegg, sendingarmynstur og almenna taktík, þá verða leikmenn að gefa sig alla í verkefnið. Berjast fyrir hvorn annan og fara af hörku í öll návíg. Aðeins þannig næst árangur og ég ætla rétt að vona að það verði raunin. Hvernig fer leikurinn. Ég ætla að gerast svo djarfur og spá 1-1 jafntefli. Estevao með sterka innkomu af bekknum sem skilar marki.





Comments