top of page
Search

Everton vs. Chelsea - Upphitun

Keppni: Premier League

Dag- og tímasetning: Laugardaginn 12. desember, kl.20:00

Leikvangur: Goodison Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, BT Sport 1, meira hér.

Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.



Chelsea

Margir leikmenn fengu hvíld í síðasta leik liðsins gegn Krasnodar í lokaleik riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Reyndar var það svo að Lampard stillti upp liði sem var þéttsetið mönnum sem hafa lítið spilað fyrir Chelsea þessa leiktíðina eins og Christensen, Rudiger, Emerson og auðvitað kappinn Kepa. Það kom líklega fáum á óvart að Krasnodar hafi skorað mark, þó markið sjálft skrifist engan veginn á hann Kepa. Sjálf bjóst ég reyndar við fleiri mörkum frá okkar mönnum, sérstaklega eftir að Timo og Giroud var skipt inn á. Allt kom fyrir ekki og jafntefli varð niðurstaðan. Leikurinn skipti okkur svo sem ekki máli nema þá að fara taplaus í gegnum riðlakeppnina því toppsætið var þegar tryggt.

Mig langar til að nefna nokkra leikmenn sérstaklega í tengslum við Krasnodar leikinn. Emerson stóð sig með prýði í leiknum og hlýtur að teljast líklegt að Alonso fari á sölulistann þegar næsti gluggi opnar. Billy Gilmour spilaði allan leikinn og var gaman að sjá hann aftur á vellinum, virkilega þroskaður leikmaður miðað við að vera aðeins 19 ára gamall. Annað ungmenni úr akademíunni spilaði einnig í leiknum, hinn 19 ára Faustino Anjorin. Hann spilaði í sinni kjörstöðu á hægri vængnum en tókst ekki að láta ljós sitt skína. Hann gerði nokkrar atlögur að marki, átti tvö skot og var duglegur að koma til baka ef á þurfti að halda. Frammistaða okkar manna í leiknum var þokkaleg, dugði til og flott hjá Krasnodar að taka stig úr þessum leik. Nánar um leikinn má lesa hér.


Það virðast allir vera heilir í leikmannahópnum nema tveir: Hudson-Odoi og Ziyech. Þeir eru báðir að glíma við meiðsli aftan á læri og eru ekki væntanlegir aftur fyrr en undir lok ársins. Við munum sakna þeirra beggja þann tíma sem þeir verða fjarverandi. Sem betur fer er leikmannahópur okkar breiður og í stað Ziyech og Odoi má setja Kai Havertz, Pulisic eða Werner á vængina. Á þeim nótum er komið að hugsanlegu byrjunarliði laugardagskvöldsins. Ég tel að teflt verði fram liði í 4 – 3 – 3 uppstillingu:


Everton

Everton byrjaði leiktíðina af miklum krafti. Þeir unnu fyrstu fimm leiki sína og sátu á toppnum í smástund. Síðustu vikurnar hefur allt gengið á afturfótunum hjá þeim og hafa þeir aðeins krækt sér í fimm stig úr síðustu sjö leikjum. Þeir hafa nú hrapað af toppnum niður í 8.-10. sæti deildarinnar með 17 stig, en þeir deila þeim stigafjölda með West Ham og Wolves. Stjóri Everton, Ancelotti, er aftur á móti töframaður og líklega er það ekki spurning um hvort heldur hvenær hann nær að snúa gengi liðsins aftur á rétta braut. Þeir Lampard þekkjast ágætlega eftir að Ancelotti stýrði klúbbnum 2009-2011 og hefur Lampard einmitt sagt Ancelotti hafa verið mikla fyrirmynd fyrir sig á þeim tíma. Skemmtilegt nokk þá á Ancelotti eitt hæsta vinningshlutfall þjálfara í ensku úrvalsdeildinni. Hann ávann sér þann heiður fyrir þann tíma sem hann stýrði bláliðunum í London.


Leikmannahópur Everton er áhugaverður þó hann teljist ekki endilega mjög breiður. Í fremstu víglínu eru Richarlison og Calvert-Lewin aðalmenn Everton. Calvert-Lewin virtist ætla að tryggja sér gullskóinn í fyrstu umferðum deildarinnar. Það hefur aðeins hægt á markaskoruninni hjá honum en hann hefur þó skorað þrjú mörk í seinustu þremur leikjum með Everton. Richarlison hefur ekki komið svo mikið að markaskorun það sem af er en hefur þó verið að skapa hættur fyrir lið sitt og er einnig duglegur í varnarvinnu.


Miðjumaðurinn Doucouré hefur verið fastamaður í Everton liðinu þessa leiktíðina. Hann er agaður leikmaður með góðan leikskilning og gott auga fyrir spili. James Rodríguez kom til klúbbsins síðasta sumar frá Real Madrid og hefur staðið sig með miklum ágætum. Hann skorað þrjú mörk og átt þrjár stoðsendingar í tíu leikjum og tvisvar verið valinn maður leiksins. Hann er reyndur og hæfileikaríkur leikmaður sem er til alls líklegur. Tveir af aðal varnarmönnum Everton eru á meiðslalistanum, þeir Lucas Digne og Seamus Coleman. Michael Keane, hann hefur skorað fjögur mörk fyrir Everton á þessari leiktíð, jafn mörg og Zouma hefur skorað fyrir okkur. Íslendingurinn í Everton hefur ekki fengið mörg tækifæri í byrjunarliðinu undanfarið og ólíklegt að breyting verði þar á. Nema Ancelotti telji að fyrirgjafir Gylfa gætu snúið við gengi liðsins gegn sókndjörfu liði Chelsea. Það er varla hægt að sleppa því að nefna aðalmarkmann liðsins, Jordan Pickford. Á góðum degi mun hann reynast okkur óþægur ljár í þúfu. Það telst okkur þó til bóta að hann hefur orð á sér fyrir að vera mistækur. Þá gæti allt umtalið kringum Van Dijk samstuðið hafa slegið hann enn frekar út af laginu enda hefur gengi liðsins hrapað í kjölfarið.


Spá

Sagan er bæði með okkur í þessari viðureign og gegn. Everton hefur unnið sjö af síðustu ellefu heimaleikjum sínum gegn Chelsea, þar af síðustu tvær viðureignir. Chelsea hefur aftur á móti unnið Everton oftar en nokkur annar klúbbur eða 73 sinnum. Það er okkur til happs að vörn Everton er brothætt vegna meiðsla Digne og Coleman. Það er því tilvalið að láta reyna vel á varnarlínuna. Ég hef litlar áhyggjur af varnarlínu okkar, leiðtoginn Silva stýrir henni og hefur leyst það verkefni með miklum sóma hingað til. Ég vonast til að sjá góða pressu fyrir Chelsea mönnunum, ég tel miðju Chelsea mun sterkari en þá hjá Everton og því ættu þeir ekki að eiga í erfiðleikum með að vinna boltann aftur. Ég sé fyrir mér að að Chelsea verði meira í sókn og muni sækja öll stigin þrjú án mikilla vandkvæða.


Ég spái 0 – 3 fyrir Chelsea (en ekki hvað): Pulisic setur tvö og Zouma eitt skallamark.


- Elsa Ófeigs


Comments


bottom of page