top of page
Search

Spurs vs Chelsea - Nágrannaslagur af bestu gerð!

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudagur 19. september kl 15:30

Leikvangur: Tottenham Hotspur Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Stefán Martein Stefánsson



Ég vil byrja þessa upphitun á að minna á nýjasta þáttinn af Blákastinu þar sem Bogi Ágústsson var gestur okkar. Hann er grjótharður Spursari og fræddi okkur mikið um gang mála á þeim bænum. Hægt er að hlusta á þáttinn með því að ýta hér.


Upp með sokkana og ,,on to the next one!”. Heimsókn á Tottenham Hotspur Stadium bíður okkar næst. Það var ljóst í upphafi að okkar biði ágætis prófraun strax í byrjun þegar uppröðun leikjanna var birt. Hálf galið ef spáð er í því að núna erum við að sigla inn í fimmtu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar og eftir hana þá verða okkar menn búnir að heimsækja Emirates og pakka Arsenal saman í tösku, Anfield og þola Anthony Taylor og svo núna heimsækja Tottenham. Ekki skánar það í sjöttu umferð þegar við fáum Englandsmeistara Manchester City í heimsókn.


Skemmst er þó frá því að segja að þrátt fyrir þessa byrjun á tímabilinu deilum við toppsæti deildarinnar með Manchester United, Liverpool og Everton með 10 stig hvert og fari svo að við komumst í gegnum þessa hrinu áfallalaust ætti ekkert að verða því til fyrirstöðu að hamra á bensíngjöfina og keyra á þann stóra, því við höfum svo sannarlega hópinn í það!


Ég þreytist ekki við að segja það, verið bara tímanlega í þessu og takið 22. maí frá strax því það verður alvöru veisla að þegar Azpilicueta fær Englandsmeistaratitilinn í hendurnar og allir henda sér í gott stemnings-blackout og Blákastið hleður í annan þátt þar sem menn verða komnir vel á veg í bjórdrykkju.


Aftur að efninu...


Það er víst ekki nema mið-september svo kannski er maður að fara full langt framúr sér? Vill samt bara minna á að ég var einn fárra sem spáði okkur sigri í Meistaradeildinni síðasta tímabil í upphafi móts svo ég vill meina að ég sé fínasti spámaður (Spái okkur reyndar sigri í öllum keppnum allan tíman alltaf svo kannski er maður smá blálitaður).


Enn allavega þá spiluðum við einmitt í Meistaradeildinni í miðri viku þar sem titilvörnin hófst gegn Zenit á Stamford Bridge. Kannski óþarfi að eyða of mörgum orðum um þennan leik þar sem okkar menn virkuðu ekki alveg rétt stilltir margir hverjir og gerðu sér erfiðara fyrir, gullkálfurinn okkar Mason Mount átti t.a.m. alls ekki sinn besta dag og líklega sinn versta í tíð Thomas Tuchel. Zenit gaf okkur hörku leik og voru svo sannarlega sýnd veiði sem á endanum gaf sig en það var að sjálfssögðu Romelu Lukaku sem bjargaði því að við fórum með sigur úr þessum leik með frábærum skalla eftir sendingu frá fyrirliðanum Cesar Azpilicueta, mark sem minnti örlítið á Azpi → Morata samleikinn hér forðum og þar við sat. Alvöru meistarabragur yfir þessum sigri og við tökum því fagnandi!


Byrjunarlið

Ég geri ekki ráð fyrir því að TT bregði útaf vananum og haldi því í sama leikkerfi

Ég á ekki von á öðru en að Edouard Mendy verði á milli stanganna aftast en líklega hefur Manuel Neuer haft eitthvað til síns máls þegar hann sagði snemma á síðasta tímabili að Mendy væri svo sannarlega heimsklassa markvörður.

Azpilucueta , Thiago Silva og Antonio Rudiger er þríeykið fyrir framan Mendy ef allt er eðlilegt. Reece James kemur aftur í liðið eftir leikbann í síðasta leik og þá hef ég grun um að Marcos Alonso verði áfram vinstra meginn þó svo ég voni að Ben Chilwell fari að taka við þessu þarna vinsta meginn. Miðjan mun samanstanda af N'Golo Kante (ef hann er heill, annars Kovacic) og Jorginho. Fremstu þrír ætla ég að giska á að verði Mason Mount, Timo Werner og Romelu Lukaku. Hraði og Power til að hrista upp í þessari Spurs vörn.



Tottenham

Spurs koma inn í þennan leik með svolítið óskrifað blað. Spiluðu á sterkum mönnum í evrópska framrúðubikarnum en náðu ekki að leggja félaga okkar í Frakklandi, Rennes. Óvíst með þáttöku Son og Dier vegna meiðsla, Tanganga tekur út leikbann og Harry Kane er ekki að byrja sannfærandi. Jafnvægið á miðjunni hjá Spurs er ekki gott og þá skín það best í gegn þegar þeirra “sóknarsinnaðasti” miðjumaður er Pierre-Emile Højbjerg sem er betur þekktari fyrir eitthvað allt annað en sóknartilburði. Allt í uppbyggingu leiksins virðist ætla benda til þess að við hlaupum með stigin 3 í burtu án þess að svitna nánast en fótbolti er svo yndisleg íþrótt að ef eitthvað lítur út fyrir að vera of gott til að vera satt þá er það yfirleitt staðan svo við þurfum að nálgast þennan leik án vanmats og klára verkefnið sem ég hef ekki minnstu áhyggjur af því að við munum gera.


,,Oft er það þannig að menn leggja upp með einhverja taktík og svo spilast leikurinn bara allt öðruvísi og í þessu tilfelli þá er Chelsea greinilega leikmann fyrir leikmann betra lið heldur en Tottenham svo ég held það gerist automatískt alveg sama hvað Nuno vill gera að Chelsea sæki mun meira en Tottenham í þessum leik og ég vona að hann fari ekki í það að parkera strætó eins og José Mourinho gerði stundum.” Sagði Bogi Ágústsson gestur okkar í síðasta þætti af Blákastinu.


Spá

Ég ætla að vera samkvæmur sjálfum mér og spá því að við förum af Tottenham Hotspurs Stadium með öll 3 stigin og það nokkuð þægilega. Ég sé fyrir mér að við byrjum nokkuð sterkt og komumst yfir á fyrsta korterinu með marki frá Romelu Lukaku eftir flottan undirbúning frá Timo Werner. Lukaku launar svo Werner greiðan þegar hann dregur til sín vörn Tottenham og skapar pláss fyrir Werner til þess að athafna sig og við leiðum 2-0 í hálfleik. Við förum svo nokkuð þægilega í gegnum síðari hálfleikinn og Mason Mount rekur síðasta smiðshöggið eftir laglegan undirbúning frá Reece James og við sigrum Tottenham með þremur mörkum gegn engu.


KTBFFH

- Stefán Marteinn

bottom of page