top of page
Search

Sevilla vs. Chelsea - Baráttan um toppsætið

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Miðvikudaginn 2. desember kl 20:00

Leikvangur: Ramon Sanchez Pizujan

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 sport, Sky sports og NBC sports

Upphitun eftir: Snorra Clinton



Chelsea

Það er þétt spilað þessa dagana og leikurinn gegn Sevilla sá sjötti á einum mánuði, þrátt fyrir landsleikjahlé um miðjan mánuðinn. Á sunnudaginn var fengum við gamla stjórann okkar og lærisveina hans í Spurs heimsókn. Super Frank kom mörgum í opna skjöldu og mætti til leiks með frekar sóknardjarft leikskipulag og hélt sig við 4-3-3 leikkerfið sem er búið að skila okkar mönnum frábærum úrslitum og gríðarlega skemmtilegum fótbolta sem mætti nánast lýsa sem listformi. Bjuggust nú margir við því að um mikinn markaleik yrði að ræða þar sem sigurvegari rimmunnar myndi tryggja sér toppsætið í deildinni. Aftur á móti spilaði hann Móri okkar gamla góða leikkerfið „RÚTAN“ sem við Chelsea aðdáendur könnumst svo sannarlega við. Heilt yfir vorum við töluvert hættulegri aðilinn og hefðum hugsanlega getað stolið sigrinum undir lokin en jafntefli við sat og tel ég að Móri okkar hafi verið glaðari aðilinn af stjórunum tveim. Ég velti því þó fyrir mér hvort við hefðum getað uppskorið mark ef Big Ollie hefði fengið fleiri mínútur eða jafnvel fengið að byrja inná, svona ef við lítum til fjölda fyrirgjafa sem skiluðu sér inn í teig efti frá þeim Ziyech og James. En það er auðvelt að daðra við systurnar EF og HEFÐI þegar búið er að flauta til leiksloka.


Nú er ferðinni heitið suður til Spánar þar sem við heimsækjum Sevilla. Fyrri rimma þessara liða í riðlakeppninni endaði 0-0 á Brúnni. Reyndist það okkur frekar erfður leikur þar sem mikil þreytu ummerki voru í okkar mönnum, þá sérstaklega framlínunni. Menn á borð við Mount, Pulisic, Havertz einfaldlega týndust í þeim leik.


Það sem af er tímabils hefur okkur gengið illa að skora á móti stærri liðum. Liverpool, Man Utd, Sevilla og Spurs falla svo sannarlega í þann flokk og tókst okkar mönnum ekki a finna netið einu sinni í þessum leikjum. Ljósa hliðin er svo auðvitað sú að við höfum aðeins tapað einum af þessum leikjum og fengið á okkur fá mörk. Ég er þó töluvert bjartsýnn á að strákarnir fari að hrökkva í gang á móti þessum stærri spámönnum og sé ég fátt því til fyrirstöðu að við setjum mark í þessum leik.


Staðan á liðinu gerist eiginlega ekki betri þar sem við erum að fá menn á borð við Pulisic og Havertz til baka að nýju. Frank Lampard þarf því að eiga við lúxusvandamál af bestu gerð fyrir þennan leik þegar kemur að því að velja sína 11. Þó svo að Frank hafi efni á að hvíla menn, hefur hann lítið verið að því þegar færi gefst og gæti því spáin mín um byrjunarliðið fallið eins og spilaborg í íslenskri lægð og hefur mér bara alls ekki verið líkt við Nostradamus í gegnum tíðina.


Byrjunarliðið:

Heimakletturinn, hann Edouard Mendy, er alltaf að fara byrja í búrinu, á því leikur enginn vafi. Sofandi Mendy er hreinlega betri kostur en hinir tveir til samans. Ég gæti trúað því að breytingar munu eiga sér stað á öftustu fjórum. Tel ég að Rudiger fái spilatíma á kostnað Silva (frekar en Zouma) við hlið Kurt Happy Zouma. Mér finnst líklegt að Azpi kominn í liðið fyrir James og Chilwell heldur áfram á vinstri. Miðjan verður skipuð Kanté í sinni bestu stöðu, enda hefur hann verð að spila eins og engill að undanförnu. Fyrir framan Kanté verða þeir félagar Mount og Kovacic. Þó yrði ég ekki hissa ef við fengum að sjá annað hvort Havertz eða Jorginho í byrjunarliðinu. Nú hlýtur að koma að því að Werner frá hvíld. Ég væri því til í að sjá Pulisic á vinstri, en líklega verður það Odoi frekar (þ.e.a.s. ef Werner fær hvíldina) og þá Tammy upp á topp og Ziyech á hægri.



Sevilla

Þeir spænsku eru á fínu skriði þessa dagana og haf unnið 5 leiki í röð. Aftur á móti eru þetta ekki stórsigrar og eru á móti minni spámönnum í La Liga og CL. Sigur er þó sigur og gefur mönnum sjálfstraust. Liðið situr í 5. sæti í spænsku eftir 9 leiki, aðeins stigi á eftir Eden Hazard og félögum í Real Madrid ásamt því að eiga leik til góða. Það var nokkuð vitað eftir dráttinn að við myndum slást við Sevilla hvað varðar 1. sætið í riðlinum. Þeir hafa þó eitthvað verið að kljást við meiðsli en þegar þetta er skrifað eru menn á borð við Suso, Ocampos, De Jong og Acuno, sem hafa verið liðinu mikilvægir, allir tæpir vegna meiðsla. Það væri því mikil blóðtaka fyrir heimamenn ef þeir myndu missa af leiknum. Við gætum því verið að mæta hálf vængbrotnu liði suður á spáni. Við munum samt þurfa vinna fyrir stiginum sem í boði eru.


Spá

Ég geng fullur sjálfstrausts inn í þennan leik. Því miður gat maður ekki sagt þetta oft í fyrra en Frank Lampard og okkar ástkæru bláliðar hafa heldur betur gefið okkur tilefni til að trúa að nýju. Við munum fara til Sevilla og sækja góðan sigur og skora snemma. Ég hef þó ekki mikla trú á markasúpu en við munum stjórna leiknum í einu og öllu. Þegar flautað verður til leiksloka verður niðurstaðan 0-2. Mount setur mark á fyrstu 10 mín og Kai Havertz kemur inná í seinni og setur eitt í netið skömmu eftir að hann kemur inná.

- Snorri Clinton

bottom of page