top of page
Search

Heimsmeistarar Chelsea heimsækja Crystal Palace

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 19. Febrúar kl. 15:00

Leikvangur: Selhurst Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport

Upphitun eftir: Finn Marinó



Jæja, þá er loksins komið að því. Nýkrýndir heimsmeistarar Chelsea heimsækja Crystal Palace eftir tæplega mánaðar pásu í úrvalsdeildinni. Eftir langa og stranga ferð til Sameinuðu arabísku furstadæmanna snúa okkar menn aftur til leiks sem heimsmeistarar félagsliða. Þarf að segja meira? “We’ve won it all!”.

Nú þurfa okkar menn að koma með ákveðinn statement sigur. Eftir brösugt gengi í deild í síðastliðnum leikjum vil ég sjá liðið mæta af fullum krafti í þennan leik þrátt fyrir þreytu sem kann að herja á þá og klára þetta litla lið í London líkt og við gerðum við minnsta lið London í síðasta deildarleik.


Chelsea

Á blaðamannafundinum í dag var Tuchel spurður að því hvað markmiðið væri fyrir liðið núna þar sem að þeir eru 16 stigum á eftir Manchester City. Ætlar hann að einblína á bikarkeppninar og slaka á í deild? Svarið var augljóst: Efstu fjögur. Hann ítrekaði að það væri ekkert vit í því að rugla leikmenn liðsins með því að setja markið á titilinn. Mikilvægasti leikur liðsins er á morgun.


Skref fyrir skref. Áfram gakk!


Staðan er bara þannig að það þýðir ekkert að misstíga sig ef við ætlum að halda áfram í baráttunni um þetta þriðja og fjórða sæti. Liverpool eru að spila miklu afkastameiri bolta en við um þessar mundir og allt í einu er rauða liðið í London farið að vakna til lífsins og spila fótbolta.


Mason Mount, Reece James og Ben Chilwell eru allir frá vegna meiðsla á morgun en góðu fréttirnar varðandi meiðsli eru að Loftus-Cheek er klár í slaginn og samkvæmt stjóranum styttist í það að vængbakverðirnir okkar kæru snúi aftur í fulla þjálfun.


Liðið

Þá er það byrjunarliðið.


Ég spái því að Tuchel stilli upp 3-4-3 til að byrja með frekar en 4-2-2-2.

Þrátt fyrir fína frammistöðu Kepa á heimsmeistaramótinu verður Mendy í marki. Varnarlínan mun samanstanda af Votta Chalobah, Christensen og Rudiger. Ég veðja á að Silva fái hvíld og Christensen spili þrátt fyrir samningsþrætur. Azpilicueta verður í hægri vængbak við hlið Jorginho og Kovacic. Alonso tekur vinstri vængbak. Kante fær hvíld í allavega 60 mín. Ég veðja svo á að framlínan hjá okkur verði Pulisic, Lukaku og Ziyech. Ungstirnið okkar Havertz fær að hvíla sig á bekknum á morgun.




Crystal Palace

Gengi Crystal Palace hefur ekki verið upp á marga fiska í undanförnum leikjum. Liðið hefur gert þrjú jafntefli og tapað tveimur leikjum í síðustu fimm. Ekki mun það heldur hjálpa þeim að vera án markahæsta og langbesta leikmanni liðsins á morgun, okkar manni Conor Gallagher. Einnig verður fróðlegt að fylgjast með fyrrum leikmanni okkar Marc Guehi sem er alltaf fyrsti maður á blað í vörn Palace.


Það er ekki mikið hægt að segja um þetta lið Palace annað en að þeir eru að spila grútleiðinlegan fótbolta. Arsenal goðsögnin Patrick Vieira hefur ekki tekist að blása einhverjum eldmóði í liðið…ennþá. Undirritaður horfði á leik Brentford og Crystal Palace í síðustu umferð og það er óhætt að segja að það var einhver slakasti fótboltaleikur sem sést hefur. Vonandi verður frammistaða þeirra svipuð á morgun og Chelsea-liðið nýtir sér það.


Þó að lið Palace spili ekki sérlega áferðarfallegan eða skemmtilegan fótbolta, þá leynast í liðinu býsna öflugir leikmenn. Þar ber helst að nefna Fílbeinsstrendinginn Wilfried Zaha, sem að mætti líklega kalla Herra Palace um þessar mundir. Hann er potturinn og pannan í þeirra sóknarleik, þá sér í lagi þegar að Conor Gallagher vantar. Hann er kraftmikill, snöggur og ofboðslega leikinn og getur oft búið til hluti upp úr litlu. Azpi verður að vera með hausinn rétt skrúfaðan á í baráttu sinni við Zaha.


Spá

Þetta verður vesenis leikur á morgun. Chelsea verður líkt og oft áður miklu meira með boltann allann leikinn en lenda í vandræðum með að kljúfa djúpa vörn Palace. Mig grunar að það verði þreyta í mönnum eftir þetta heimsmeistaramót og leikurinn þróist eftir því. Ég vil sjá fremstu menn liðsins rífa sig í gang og að belgíska stjarnan okkar ákveði að hreyfa sig í sókninni og hvíli “thumbs up” tjáningarnar.


Þetta endar með 2-1 sigri Chelsea eftir mark frá Lukaku og Ziyech. Vælukjóinn Zaha jafnar leikinn eftir einstaklingsmistök í vörn Chelsea.


#BLUEISTHECOLOUR Gaman að segja frá því að lagið er 50 ára í dag!

KTBFFH

Finnur Marinó


bottom of page