top of page
Search

Fyrsti leikur Tuchel - upphitun fyrir Wolves!

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 27. Janúar 2021

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport, Sky sports

Upphitun eftir: Snorra ClintonChelsea

Jæja þá hefur Super Frank Lampard yfirgefið okkar ástkæra klúbb og það í annað skiptið. Fyrst sem leikmaður og nú sem knattspyrnustjóri. Þessi ákvörðun Roman og yfirstjórnarinnar kom eflaust fáum á óvart en þrátt fyrir það hefur brottvísun Lampard vakið mikil viðbrögð meðal stuðningsmanna, sumir hafa gagnrýnt ákvörðunina harkalega á meðan aðrir tekið undir hana.


Í dag var svo verst geymda leyndarmálið í fótboltaheiminum afhjúpað:

-> Thomas Tuchel er nýr knattspyrnustjóri Chelsea <-

Hann er þegar byrjaður að stýra æfingum á Cobham. Sameinast hann þá aftur þeim Tiago Silva og Christian Pulisic en Tuchel þjálfaði þá hjá PSG og Dortmund. Blákastið gerði þessum þjálfaskiptum góð greinaskil og spá vel í spilin og hverju við eigum von frá liðinu okkar undir stjórn Þýska þjálfarans smelltu hér til að hlusta á þáttinn.


Í kjölfar uppsagnarinnar hafa ýmsar sögusagnir skolast upp á yfirborðið, allt frá því að Frank hafi ekki fengið að fá að kveðja leikmennina, að hann tali ekki við þá leikmenn sem eru ekki í hans plönum, yfir í að Rudiger sé einn mesti haugur sem gengur um í London með leiðinlegri framkomu í garð yngri leikmanna. Hvað af þessum orðómum eru réttir er erfitt að segja um en eitt er víst að það verður nýr stjóri á hliðarlínunni á morgun þegar við fáum Wolves í heimsókn. Klúbburinn okkar birti í dag stutta grein á vef félagsins þar sem Tuchel er kynntur og farið er yfir feril hans og hvernig knattspyrnu við megum eiga von á undir hans leiðsögn - sjá hér.


Eitt skondið myndband af Tuchel hefur verið að fá mikið vibe á samfélagsmiðlum og leyfi ég því að fljóta með hér - sjón er sögu ríkari:
En yfir í mál málanna, leikurinn á móti Úlfunum. Það er enginn að missa kjálkann í gólfið yfir því þegar ég segi að liðið sé búið að vera í ruglinu, liðið hefur aðeins sigrað tvo leiki í síðustu átta deildarleikjum. Voru þetta viðureignir á móti West Ham og Fulham, þessir sigrar voru ALLS ekki sannfærandi. Nú síðast mættum við Luton í bikarnum og fórum með 3-1 sigur af hólmi þar sem Tammy Abraham setti þrennu. Liðið átti fínasta leik og kom sér iðulega í færi. Yfirburðirnir voru algjörir og þrátt fyrir mark frá Luton (sem er Kepa staðalbúnaður) þá sáu þeir aldrei til sólar. Ég vildi óska þess að þetta væru orð skrifuð eftir sigur á liði í Úrvalsdeildinni í topp 10 en því miður þarf ég að sætta mig við hetjuskrif eftir að sigra lið sem situr í 13. sæti í Championship deildinni.


Það verður fróðlegt að sjá hvernig Tuchel undibýr liðið fyrir þessa viðureign gegn Úlfunum og hvernig hann mun stilla upp byrjunarliðinu. Það væri ekki í fyrsta skipti ef einhverjir frystikistu-pésar öðlast nýtt líf við þjálfaskipti. Þó er vitað að nýi stjórinn er mikill taktískur hugsuður og sjaldan taka leikmenn hans hreyfingar án þess að vita upp á hár hver tilgangurinn er á bakvið hreyfinguna. Hann hefur ekki verið hræddur við að prufa sig áfram á ferlinum og hefur unnið vel með kerfi á borð við 4-3-1-2, 4-1-3-2, 4-1-4-1, 4-2-3-1, 3-4-3 og hugsanlega uppáhaldið hans hjá PSG 4-3-3.


Ég ætla að leyfa mér að skjóta á það að hann haldi sig við 4-3-3 í sínum fyrsta leik með Chelsea. Ef það hefur einhvern tíman verið snúið að spá fyrir um byrjunarliðið þá er það núna, nýr stjóri í brúnni og við vitum ekkert hvað hann upplifði á fyrstu æfingunni sinni í dag. En þó geri ég ráð fyrir því að hann hafi horft á fótbolta áður og viti hvaða hæfielika hann hafi í höndunum. Mendy heldur áfram að vernda búrið með Chilwell, Silva, Zouma og Azpilicueta fyrir framan sig. Á miðjunni verða svo Mason „hinn útvaldi“ Mount, Billy Gilmour (skoski Zidane) og Kai Havertz. Í fremstu víglínu verða Pulisic, Werner og Ziyech. Ég held að það verði lagt mikið púður í byrjun í að koma Þjóðverjunum okkar í gang og vonum að Tuchel sé maðurinn í það hlutverk. Thomas Tuchel á að eiga fullt aðgengi að liði sínu fyrir utan hugsanlega Kanté, sem líklega missir af leiknum vegna meiðsla.Wolves

Úlfarnir unnu fyrri viðureignina núna í desember 2-1 með grátlegu sigurmarki í uppbótartíma. Í þeim leik vorum við betra liðið í fyrri hálfleik en eins og oft áður féll botninn úr spilamennsku Chelsea og Wolves nýttu sér það í gríð og erg, skilaði það þeim marki og stigunum þremur undir lok leiksins. Liðið er enn án lykilmanna á borð við Jiminez og Podence. En þeir hafa enn hinn baneitraða Pedro Neto, sem gerði okkur heldur betur lífið leitt í desember þegar hann skoraði sigurmarkið á móti okkur.


Úlfarnir sitja sem allra fastast í 14 sæti með 22 stig, sjö stigum á eftir okkur. Gengi liðsins hefur verið svolítið slitið en það hefur ekki unnið deildarleik síðan 15. desember sem er einmitt umræddur leikur hér að ofan. Þetta ætti því að vera spennandi leikur þar sem Úlfarnir vilja ná tvennunni og vinna sinn fyrsta deildarleik á árinu. Á sama tíma munu okkar ástkæru bláliðar hungra í sigur og hver maður mun væntanlega reyna sýna sínar allra bestu hliðar til að tryggja áfram sæti sitt í liðinu undir nýrri stjórn.


Spá

Nú er stórt spurt. Mun Tuchel setja mark sitt á liðið strax frá upphafi? Ég ætla að segja já! Eitt að þeim orðrómum sem hafa ratað á yfirborðið er að leikmenn hafa ekki fengið taktískar leiðbeiningar fyrir leiki nema í besta falli „spilaðu bara þinn leik“. Ég á auðvelt með að trúa þessu þar sem liðsmenn líta oft út fyrir að hlaupa um eins og stefnulausar hænur á vellinum. Þetta verður það fyrsta sem nýi stjórinn lagar og mun það skila okkur sigri í fyrsta leik, um það er ég sannfærður.


Werner, Ziyech og Zouma senda boltann í netið sem skilar okkur 3-0 sigur og stigin þrjú í kjölfar.


TAKK FYRIR ALLT FRANK – ÁFRAM GAKK – VELKOMINN THOMAS


- Snorri Clinton

Comments


bottom of page