top of page
Search

Chelsea vs. Man Utd - Upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 28. Febrúar kl 16:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport, Sky Sports, Ölver ofl

Upphitun eftir: Snorra ClintonChelsea

„Klíptu í mig, því mér hlýtur að vera að dreyma“ – Þetta hafa án ef fjölmargir Chelsea stuðningsmenn hugsað þegar Konungur Lundúna ákvað að skella í eitt stykki hjólara í miðri viku þegar við lögðum Atl. Madríd 0-1, í leik sem var "Tuchel tactic master class". Okkar ástkæra lið er komið í bílstjórasætið í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og með kærkomið útivallar mark í farteskinu fyrir heimaleikinn sem fer fram á Brúnni þann 17. mars næstkomandi. Ég ætla nú ekki að eyða fleiri orðum í þann leik, en Þór okkar Jensen gerir þeim leik góð skil hér og hvet ég alla að renna yfir leikskýrsluna úr þeim leik. Svo skemmir ekki að horfa á nokkrar endursýningar af markinu góða til að koma sér í rétta gírinn fyrir leikinn á móti Man Utd.


Það eru ótal umræðurnar sem hafa átt sér stað síðustu vikur um hvort uppsögn Lampard hafi átt rétt á sér eða hvort hann hafi átt að fá meira tíma með liðið og jafnvel hvort Mr. Tuchel sé sá rétti til að taka við því sökkvandi skipi sem klúbburinn okkar var orðinn. Eru þetta allt punktar sem hafa verið ræddir hér innan CFC.is, í Blákastinu og eflaust nokkrum kaffistofum landsmanna. Það er aðeins eitt víst í þessu og það er að við erum taplausir undir "Mr. T" og höfum aðeins fengið á okkur tvö mörk og annað þeirra var sjálfsmark. Þetta eru einu staðreyndirnar sem við höfum í höndunum og restin verður að þola tímans tönn, eins og segir í kvæðinu. Áhyggjuefnið er samt áfram markaþurrð okkar, í 8 leikjum undir Tuchel höfum við aðeins skorað 10 mörk sem er allt of lítið fyrir klúbb af þessum kaliberi. Fleiri áhyggjuefni sem hafa ratað á yfirborðið, samskipti á milli Tuchel og leikmanna, sérstaklega eftir að Tammy var hrifsað af velli í hálfleik og það sem grófara þótti að CHO kom inn á í hans stað en fékk aðeins 30 mín áður en Mr. T fékk sig full saddann og sendi hann í sturtu. Þessar áhyggjur lifðu þó ekki lengi þar sem Tuchel gaf CHO strax aftur traustið í stórleiknum á móti Atl Madrid þar sem hann komaftur í byrjunarliðið og stóð sig með stakri prýði.


Það virðist vera að Tuchel sé með liðið og leikmenn í teskeið og veit upp á hár hvað hann vill fá frá þeim í hverjum leik og hikar ekki við að setja menn á bekkinn ef þeir eru ekki að standa sig. Nú er þá bara næsta mál á dagskrá að tálga betur sóknarleik liðsins því við þurfum á öllum okkar vopnum að halda á sunnudaginn þegar við mætum Manchester Utd. Við megum ekki við að tapa fleiri stigum þar sem önnur lið í kringum okkur eru á miklu flugi. Að því sögðu er sigur í þessum leik gríðarlega mikilvægur ef við ætlum okkur að festa rætur í topp 4.


Byrjunarliðið

Bragðarefurinn hann Tuchel er eflaust búinn að reynast hingað til vera mesti Fantasy böðull sem sést hefur. Í fyrstu 5-6 leikjunum hans átti maður betri líkur á að giska á alla rétta plús ofurtöluna í Euro Jackpot en að geta sagt til um byrjunarlið Chelsea. Því hafa mörg Fantasy lið fengið skellinn síðust vikur, ég neita að trúa að ég sé einn í því. En ég held alltaf áfram að kaupa mér lottó og því er við hæfi að reyna að hitta á ellefu rétta hér í leiðinni. Það kæmi mér ekki á óvart ef Bragðarefurinn myndi gera fáar ef nokkrar breytingar á liðinu á milli leikja.


Heimakletturinn er alltaf að fara í búrið annað væri eintóm þvæla. Þó svo að við gefum varla færi á okkur þessa dagana þá líður manni bara betur með klettinn í búrinu en spænsku pönnukökuna, því verr og miður.


Fyrir framan Klettinn halda þeir sínu plássi félagarnir Rudi – Danski Prinsinn – Dave. Tuchel staðfesti á fundi að Faðir Vor (Silva) væri því miður enn meiddur og því tel ég að varnarlínan verði óbreytt á milli leikja. Air Zouma því miður virðist ekki ná að funkera í þessu kerfi án þess að hafa Silva sér við hlið.


Loreal módelið hann Alonso og CHO munu halda áfram að frá traustið í stöðum vængbakvarða, við þekkjum öll gæði Alonso í þeirri stöðu og Odoi virðist vera dafna þar vel undir handleiðslu Tuchel.

Á miðjunni verður ein breyting þar sem Kanté stígur inn í liðið á kostnað Kovacic á meðan Jorginho heldur sínu plássi. Fremstir verða svo þeir Giroud með Werner og Mount fyrir aftan sig. Því miður þá held ég að Tuchel sé ekki tilbúinn að láta Ziyech og Havertz fá byrjunarliðs mínútur enn sem komið er. En vert er að minnast á það að ég hef alls ekki verið sannspár í gegnum tíðina og ekki hefur bragðarefurinn Tuchel gert það mér auðvelt hingað til.Manchester United

Fyrir stórleik eins og þetta þýðir ekkert annað en að fá VIP gesta penna til að fara yfir mál sinna manna og koma með smá innsýn inn í hugarheim Manchester United stuðningsmann. Það er því sannur heiður að kynna til leiks leikmann meistaraflokks Fjölnis og stuðningsmann Manchester United, enginn annar en Jón Gísli Ström (Ström-Vélin), gefum honum gott klapp:2 sæti - 49 stig!!

Þetta tímabil hefur verið ákveðinn rússíbani fyrir okkur Manchester menn. Liðið spilað mjög vel á köflum en klúðrað leikjum þar sem möguleikar voru að gera titilbaráttuna skemmtilega. Luke shaw hefur verið í stuði og spilað mjög vel, gaman að sjá LOKSINS þann Pogba sem við keyptum. Hann hefur frábær í þeim leikjum sem hann hefur verið heill og límt United liðið saman.

3-1 sigur á Newcastle var nokkuð þægilegur, því við höfum verið að klúðra þessum leikjum á heimavelli. Daniel nokkur James steig upp og sýndi að hann á alveg heima á stóra sviðinu. Chelsea vann síðast Manchester United í deildinni tímabilið 17/18 þar sem Chelsea fór með 1-0 sigur á Brúnni - Síðustu 6 leikir hafa United unnið 3 leiki og 3 leikir farið jafntefli. Það verður spennandi að sjá hvernig Chelsea ætlar að stilla upp sínu líði á sunnudaginn þar sem bakverðir United hafa verið mjög góðir. Ég tel þó líklegast að Ole stilli upp mjög varnasinnuðu liði og það verður lítið um skemmtilegan fótbolta.


Nokkuð er um meiðsli hjá okkur, Pogba, Scott McTominay , Cavani, Donny van de Beek. Ég hefði vilja sjá Pogba, Scott á miðjunni á sunnudaginn - en við verðum líklegast með tvo djúpa, Fred og Matic.Ég spái því að leikurinn fari 1-1. Leikurinn fer hægt af stað - lítið um færi í fyrri hálfleik, en Chelsea verða líklegri. Seinni hálfleikur þegar Chelsea ákveður að færa sig ofar, þá mun Rashford skora svakalegt mark. Timo mun svo jafna metinn þegar 12 mín eru eftir og síðustu mín leiksins verða mjög skemmtilegar


Spá

Við þökkum Jóni Gísla fyrir innlegg sitt en neyðumst til að vera ósammála með úrslitin. Tuchel er búinn að setja iðnaðar „superglue“ í varnarleik okkar manna og tel ég að sú hólklíming muni halda út leikinn. Aftur á móti hefur sóknarleikur okkar manna ekki verið neitt "laser show" upp á síðkastið og er þetta kannski ekki leikurinn til að búast við mikilli breytingu þar á. Þó tel ég samt sem áður að við setjum 3 stig á töfluna með aukaspyrnumarki frá Loreal fyrirsætunni honum Alonso og leikurinn endar með 1-0 sigri okkar mann.


KTBFFH

- Snorri Clinton

Comments


bottom of page