
Chelsea er komið í kjörstöðu til að komast í 8 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir sterkan 0-1 sigur gegn Atletico Madrid. Útivallarmarkið er komið í hús og nú er spurning um að halda haus og sigla okkur áfram í næstu umferð.
Chelsea var ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik án þess að skapa sér mikið um færi. Við héldum boltanum vel og unnum alla seinni bolta. Pressan var góð og Atletico menn fengu engan tíma á boltanum og skyndisóknir þeirra enduðu oftast áður en þær byrjuðu. Suarez olli einhverjum usla í byrjun leiks en þegar leið á leikinn setti Christensen Úrúgvæann í hægri rassvasann og hélt honum þar út leikinn. Atletico vörðust með 6 manna varnarlínu, 3 þar fyrir framan og Suarez var einn í heiminum framar á vellinum. Okkar menn náðu ekki að finna glufur á þéttum varnarpakka Madridarmanna og oft vantaði upp á síðustu sendinguna eins og svo oft hjá okkar mönnum. 0-0 var staðan í hálfleik og okkar menn með 65% boltahlutfall og yfir 400 sendingar sín á milli.
Seinni hálfleikur byrjaði af nokkuð meiri krafti hjá og menn voru áræðnari og beinskeittari fram á við. Christensen, Rüdiger og Azpilicueta héldu Joao Felix og Suarez algjörlega í skefjum og Jorginho og Kovacic hirtu alla seinni bolta. Mount var sprækur fram á við og Callum var hörkuduglegur og bætti upp fyrir áhugalausu frammistöðuna gegn Southampton og greinilegt að skilaboð Tuchel hafi komist rækilega til skila. Alonso var hins vegar í vandræðum þegar hann lenti í 1 á 1 stöðu á vellinum og skorti hraða til að taka varnarmenn Atletico á. Spánverjinn bætti það hins vegar upp með flottum varnarleik og gerði virkilega vel í að verjast kantmönnum Atletico oft á tíðum.
Oliver Giroud hafði varla snert boltann í seinni hálfleik þegar hann ákvað að finna sinn innri Cristiano Ronaldo og skoraði sigurmarkið með frábærri bakfallsspyrnu á 68. mínútu. Aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu og Felix dómari í samstarfi við VAR dómarana tóku óralangan tíma í að skoða atvikið á meðan við horfðum á dómarann í sjónvarpinu. Niðurstaðan var mark og okkar menn fögnuðu frábæru marki.
Atletico færðu sig framar á völlinn en Chelsea menn voru mjög þéttir og skipulagðir til baka og gáfu engin færi á sig. Varnarlínan hélt gríðarlega vel og héldu línunni nógu framarlega og pössuðu að Atletico menn myndu ekki pressa okkur of neðarlega á okkar vallarhelming. Allir leikmenn liðsins unnu fyrir liðið og Tuchel getur verið stoltur af sínum mönnum.
Eins og sjá má á kortinu hér að neðan var Callum að vanda að spila sem hálfgerður kantmaður og Alonso töluvert aftar á vellinum, enda fóru nánast allar okkar sóknir fram á hægri kantinum. Við sjáum líka að Timo Werner var í raun að spila sem nía frekar en kantmaður og var að meðaltali fremsti maður Chelsea í þessum leik.

Niðurstaðan er gríðarlega mikilvægur 0-1 sigur á sterku liði Atletico með sigurmark frá Oliver okkar Giroud, eins og undirritaður spáði fyrir í upphituninni (og hefði átt að "betta" á).
Umræðupunktar
Christensen hefur verið algjörlega frábær undir stjórn Tuchel og er að stimpla sig rækilega inn í byrjunarliðið. Það verður hægara sagt en gert fyrir Silva að komast aftur inn í byrjunarliðið, allavega á kostnað Danans.
Rüdiger var einnig frábær í leiknum og gaf ekki tommu eftir, gaman að sjá baráttuviljan hans og þegar hann lét Suarez hrottann heyra það.
Callum var mjög vinnusamur og sýndi Tuchel að hann ætlar sér að halda sínu sæti í liðinu.
Giroud er ekki alltaf mest áberandi leikmaður vallarins, en hann þarf bara eitt færi til að sýna töfrana sem hann býr yfir.
Alonso var miklu betri varnarlega en við höfum oft séð hann, en hann hefur verið mikið slakari fram á við en við höfum vanist frá honum í vængbakverðinum. Mögulega er hann að breyta leikstíl sínum í þessa átt.
Kovacic og Jorginho er besta miðjan í þessu 3-4-3 kerfi, svo einfalt er það. Þeir tengja vel saman og leikur liðsins er afar fljótandi og skipulagður með þá tvo inn á vellinum.
Mount og Jorginho verða báðir í leikbanni í seinni leiknum vegna uppsafnaðra gulra spjalda, mögulega er það áhyggjuefni fyrir Tuchel.
Ziyech kom vel inn í leikinn með ógnandi sendingum og góðu tempói, gaman að sjá.
Timo Werner átti ágætis spretti inn á milli en við verðum að sjá hann gera betur í loka sendingunni eða skotinu.
Chelsea getur unnið Meistaradeild Evrópu á þessu tímabili að mínu mati.
Einkunnir
Mendy - 6. Fékk ekkert skot á sig, sem sýnir hversu góður varnarleikurinn var. Nokkuð öruggur í fótunum, heppinn að gera ekki klaufamistök í byrjun leiks.
Azpilicueta - 7,5. Fyrirliðinn rock solid að vanda. Captain consistent stígur varla feilspor í Chelsea treyjunni.
Christensen - 9. Maður leiksins. Daninn var frábær í dag, vann skallabolta, hélt Suarez í vasanum og sendi boltann vel frá sér.
Rüdiger - 8,5. Þjóðverjinn frábær í hjarta varnarinnar, steig varla feilspor fyrir utan smá klaufaskap með Alonso í byrjun fyrri hálfleiks.
Alonso - 8. Mjög sterkur varnarlega en vantaði upp á gæðin í sóknarleiknum.
Callum Hudson-Odoi - 7,5. Hörkuduglegur og hélt boltanum vel, mætti koma meira frá honum sóknarlega þó. Flottur leikur engu að síðu.
Kovacic - 7,5. Góður leikur hjá Króatanum, sólaði sig nokkrum sinnum út úr fyrstu pressu og sendi boltann vel.
Jorginho - 8. Mjög góður í dag, stoppaði hættulega skyndisókn þegar hann tók Felix niður og uppskar nauðsynlegt gult spjald og verður í banni í næsta leik. Var ekki tekinn útaf þrátt fyrir að vera á gulu sem sýnir hversu mikið Tuchel treystir honum.
Mount - 8,5. Vinnusamur að vanda og reyndi að skapa fram á við en klaufi að fá á sig gult spjald í byrjun leiks. Verður í banni í næsta leik.
Werner - 6,5. Þjóðverjinn með enn eina meðal frammistöðuna, ekki lélegur en ekkert sérstaklega góður heldur. Þarf að gera betur í lokasendingu og skotum.
Giroud - 8. Fær áttu fyrir frábært sigurmark. Sást lítið í leiknum fram að markinu og mætti koma aðeins neðar til að sækja boltann og vera meira í boltanum að mínu mati.
Nú er það að duga eða drepast og fara alla leið í 8 liða úrslitin!
KTBFFH
Þór Jensen
Comments