top of page
Search

Chelsea - Nottingham Forest

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:  6. október  kl. 13:00

Leikvangur: Stamford Bridge, London

Dómari: Chris Kavanagh

Hvar sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson



Sambandsdeildin hófst síðasta fimmtudag og unnum við nokkuð þægilegan 4-2 sigur gegn belgíska liðinu Gent á Stamford Bridge. Mörkin skiptust á milli Veiga, Neto, Nkunku og Dewsbury-Hall. Þeir Veiga og Dewsbury-Hall skoruðu sín fyrstu mörk fyrir Chelsea og áttu ofan á það mjög góðan leik. Þetta var þægilegur skyldusigur og gott fyrir þá leikmenn sem spiluðu þennan leik að fá þessar mínútur. Eins og glöggir aðdáendur tóku kannski eftir að þá var enginn byrjunarliðsmaður í leiknum á móti Gent sem byrjaði í leiknum gegn Brighton um síðustu helgi. Breiddin í hópnum er mikil og auðvitað er gott að gefa flestum leikmönnum innan hópsins einhvern spilatíma og hlutverk innan liðsins. Næst er svo leikur við Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina áður en við skellum okkur í næsta landsleikjahlé. 


Nottingham Forest


Nottingham Forest eru næstu gestir okkar á Stamford Bridge. Þeir hafa byrjað tímabilið nokkuð sterkt, unnið tvo leiki, gert þrjú jafntefli og töpuðu sínum fyrsta leik um síðustu helgi gegn nágrönnum okkar í Fulham eftir að hafa fengið á sig vafasama vítaspyrnu. Báðir sigrar þeirra hafa komið á útivelli, en þeir unnu meðal annars Liverpool á Anfield með marki frá okkar fyrrum leikmanni, Callum Hudson Odoi. Sá dúddi skoraði einmitt í síðustu viðureign Forest og Chelsea, sem við unnum 2-3 í bráðskemmtilegum leik undir lok síðasta tímabils. Það er eini sigur okkar í fjórum deildarleikjum við Forest eftir að þeir komu aftur upp í úrvalsdeildina vorið 2022. Í síðustu heimsókn þeirra á Stamford Bridge unnu þeir okkur 0-1 með marki frá Anthony Elanga í leik sem þarf ekki að eyða meiri orðum í. En aftur til nútíðar. Sá leikmaður Nottingham Forest sem við þurfum að hafa gætur á er Morgan Gibbs White. Hann er hörkuspilari og virðist njóta sín mikið undir stjórn Nuno Santo sem stýrir nú Nottingham Forest. Þeir félagar þekkjast frá dögum þeirra hjá Wolves þar sem Gibbs White hóf feril sinn. Mikið af spili Forest fer í gegnum Gibbs White og verður það væntanlega undir Caceido komið að stöðva sóknaruppbyggingu hans í fæðingu. Gibbs White var í banni í síðasta leik Forest á móti Fulham og það sást greinilega á spilamennsku liðsins að þeim vantaði sköpunarmátt hans inn á völlinn. Við þurfum að halda aftur af honum og einnig sendingum James Ward-Prowse á miðjunni, en rándýru Suður-Ameríkanarnir Enzo og Caceido eru réttir til þess að sjá um það verkefni. Í framlínu Nottingham Forest verður væntanlega hinn stóri og sterki Nýsjálendingur Chris Wood. Hann hefur byrjað tímabilið af krafti og er þegar kominn með þrjú mörk, en ef við skoðum tölfræði hans gegn Chelsea að þá er hún ekki merkileg. Hann hefur spilað 783 mínútur gegn Chelsea í tólf leikjum án þess að skora eitt einasta mark. Hann á eina stóðsendingu á ferilskránni gegn okkur, en þá spilaði hann fyrir Burnley og sá leikur var leikinn áður en Covid var fundið upp. Hins vegar er Taiwo Awoniyi, hinn framherji Forest, með mun betri tölfræði gegn okkur. Í fjórum leikjum hefur hann spilað 238 mínútur gegn okkur og skorað tvö mörk, en bæði komu þau á Stamford Bridge. Báðir þessir framherjar eru nautsterkir og varnarmenn okkar þurfa að vera klókir gegn þeim, og svo þarf auðvitað óþekktarormurinn Robert Sanchez að haga sér vel í rammanum.       


Chelsea


Það er svo gaman að halda með Chelsea núna. Við erum með fimmtán mörk skoruð í sex fyrstu leikjunum í deildinni, og fyrir sjöundu umferðina vorum við það lið sem var með flest skoruð mörk í deildinni.  Auk þess fáum við urmul af færum sem að sjálfsögðu væri hægt að nýta betur, en við komumst þó allavega í þau. Nú verð ég kannski rekinn þegar ég skrifa þetta, en Chelsea liðið í dag minnir mig rosalega á hið unga og skemmtilega Leeds lið sem var uppi um aldamótin síðustu. Þeir voru með fullt af ungum og hæfileikaríkum strákum, pössuðu sig á því að hafa nokkra þeirra enska, og ungan stjóra sem ætlaði sko að sanna sig fyrir stóru strákunum í deildinni. Þeir voru villtir og spjaldaglaðir, en einnig mjög sóknarsinnaðir og skoruðu mörk úr öllum áttum. Þið sem fylgdust með boltanum á þessum árum muna kannski eftir þessu liði, kannski eruð þið ósammála mér, en ég sé nokkur líkindi með þessum liðum og ég afsaka það mjög að líkja þessum erkifjendum saman. En ef við einblínum á nútímann og okkar lið að þá er Cole Palmer náttúrulega alveg stórkostlegur leikmaður og hann sýndi það enn og aftur í síðasta deildarleik gegn Brighton þar sem hann skoraði fjögur mörk á aðeins tuttugu mínútum, sem er jafn langur tími og frímínútur í skólanum. Kantmennirnir okkar eru mjög ógnandi og skapandi.


Jadon Sancho hefur heldur betur stimplað sig inn og spilar með miklu sjálfstrausti. Madueke er óhræddur við að taka menn á og með aðeins meiri þroska og reynslu verða ákvörðunartökur hans vonandi betri. Pedro Neto er öskufljótur og sjálfstraust hans eykst með hverjum leiknum. Hann skoraði virkilega gott mark gegn Gent og heldur öðrum kantmönnum á tánum. Mudryk sýndi fína takta gegn Barrow og átti flotta stóðsendingu í leiknum gegn Gent, hann er líklega sá síðasti af þessum fjórum í goggunarröðinni en hann þarf að vera duglegur að nýta sénsana þegar hann fær þá. Nicolas Jackson er líka að spila virkilega vel. Hann er sífellt ógnandi með hlaupum sínum og var óheppin að skora ekki gegn Brighton. Mörkin hans tvö gegn West Ham voru virkilega góð og það væri í raun algjör vitleysa að taka hann úr liðinu á meðan þessi ára svífur yfir honum. Það kæmi mér alls ekki á óvart ef hann myndi skora í þessum leik, hann á það svo sannarlega skilið. Hann var hvíldur gegn Gent og ætti því að vera sprækur. Nkunku bíður síðan rétt fyrir utan byrjunarliðið, en hann er að minna rækilega vel á sig í þeim leikjum sem hann fær almennilegan spilatíma. Byrjunarlið okkar verður ábyggilega óbreytt frá síðasta deildarleik, ég ætla allavega að spá því að Sanchez byrji í markinu með þá Fofana og Colwill fyrir framan sig. Malo Gusto verður síðan hægra megin í vörninni og Cucurella til vinstri. Á miðjunni verða Caceido og Enzo með Palmer fyrir framan sig og á köntunum ætla ég að spá því að Sancho og Madueke haldi sætum sínum. Jackson verður síðan fremstur.


Sanchez,Gusto,Fofana,Colwill,Cucurella,Caceido,Enzo,Palmer,Madueke,Sancho, Jackson.


Miðað við síðustu tvo leiki okkar manna á Brúnni væri vitleysa að spá einhverju öðru en 4-2 sigri. Jackson, Sancho, Palmer og Nkunku skipta mörkunum á milli sín.


Áfram Chelsea! KTBFFH!


P.s. við hvetjum lesendur til að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig er hægt að fá miða á leiki með Chelsea á hagkvæmum verðum. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is

Comments


bottom of page