top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Chelsea vs Gent

Keppni: Evrópska Sambandsdeildin

Tími, dagsetning:  3. október  kl. 19:00

Leikvangur: Stamford Bridge, London

Dómari: Daniel Schlager (Þýskaland)

Hvar sýndur: Viaplay

Upphitun eftir: Hafstein Árnason



Chelsea hefur nú frumraun sína í Sambandsdeildinni. Þetta er bikarinn sem okkur vantar í stellið og það ætti að vera forgangsmál að sækja hann á þessu tímabili. Chelsea eru núna á mjög góðu skriði eftir jákvæð úrslit síðustu leikja. Cole Palmer ákvað að setja upp flugeldasýningu á Stamford Bridge gegn Brighton um liðna helgi með fjórum mörkum, þar af eitt úr víti og annað beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi. Maresca sagði þó á blaðamannafundi að hann hefði verið ánægðari með seinni hálfleikinn hjá liðinu fremur en þann fyrri. Helstu ástæðuna sem hann taldi fyrir því var sú að hann setti upp leikstílinn gegn Brighton eftir því hvernig liðið spilaði fram að þessu á tímabilinu. Í leiknum breyttu þeir um áherslur og það kom þeim ítalska í opna skjöldu. Áherslum var hagrætt í hálfleik og Brighton sáu ekki til sólar í seinni hálfleiknum. Á meðan fengu Chelsea urmul tækifæra til að skora, m.a. nokkur einn á móti markmanni en því miður urðu engin mörk úr því. Maresca lýsti því þó yfir, að frammistaðan var það sem gildir í hans huga og hún var töluvert betri að hans mati í seinni hálfleiknum.


Chelsea mæta núna til leiks gegn belgíska liðinu KAA Gent, sem er Íslendingum nokkuð kunnugt lið. Liðið kom á Laugardalsvöllinn og lék við Breiðablik í Sambandsdeildinni fyrir um ári síðan. Leikar fóru 2-3 þar sem Jason Daði Svanþórsson skoraði mörk Blika, en Gift Orban skoraði þrennu fyrir Gent. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af Gift Orban, þar sem hann var seldur til Lyon. Þess í stað keyptu þeir belgísku, Andra Lucas Guðjohnsen sem skoraði einmitt í síðasta leik með Gent, af bekknum. Gent sitja í þriðja sæti í belgísku deildinni með 16 stig eftir níu leiki. Þeir hafa skorað 17 mörk þar sem þeir yfirskora xG gildið sitt sem er 12,4. 15 markanna hafa komið úr opnum leik, eitt úr föstu leikatriði og eitt sjálfsmark. Þeir leikmenn sem hafa staðið sig best eru Davy Roef, Sven Kums og Omri Gandelman. Gandelman er markahæstur ásamt Noah Fadiga með þrjú mörk, en Andri Lucas er með tvö mörk. Frank Surdez er svo leiðandi í stoðsendingum með fimm kvikindi. Þetta ætti að gefa okkur ágæta hugmynd um hverjir séu hættulegustu leikmen Gent að þessu sinni.


Enzo Maresca tilkynnti á blaðamannafundi að allir eru heilir fyrir þennan leik og klárir í spil, að undanskyldum þeim sem eru ekki í UEFA hópnum eins og Chilwell, Cole Palmer, Lavia og Wesley Fofana. Þetta þýðir að Reece James er loksins klár eftir tveggja mánaða fjarveru. Aðspurður á blaðamannafundi um hvort Maresca sæi eftir því að hafa skilið Ben Chilwell útúr hópnum, þá var svarið skýrt og skorinort nei. Nú reiðir dálítið á að dreifa mínútum á leikmenn. Kiernan Dewsbury-Hall var ekki í hóp í síðasta leik og Carney Chukwuemeka fékk einungis korter í leiknum gegn Barrow. Færri mínútur en Tyrique George og Josh Acheampong úr unglingaliðinu. Það vekur örlitla furðu hvað Carney hefur varla fengið sénsinn. Það er sannarlega tækifæri núna til að sýna og sanna að hann eigi einhvern tilverurétt í liðinu. Samkeppnin um stöðurnar í liðinu er orðin býsna hörð við liðið virðist ætla að njóta ávaxta þess, að fráskildri markvarðastöðunni þar sem Maresca taldi ekki miklar líkur á því að Jörgensen myndi ógna stöðu Robert Sanchez þrátt fyrir trúðamörkin sem Brighton skoruðu. Hvort þetta sé einhver taktík til að fylla Sanchez trausti á eftir að koma í ljós, en líklega er það eina rétta í stöðunni. Maður getur vel ímyndað sér að Joao Felix, Pedro Neto og Christopher Nkunku munu mæta mjög grimmir til leiks, líkt og gegn Barrow í síðustu viku.


Hvernig ætli Maresca stillir upp nú þegar sjúkralistinn er tómur. Ég myndi reikna fastlega með því að liðsuppstillingin verði 4-3-3 þar sem mezzala teig í teig miðjumennirnir ýta vel upp í línuna á meðan vinstri bakvörðurinn aðstoðar djúpa regista miðjumanninn. Það er klárt að Jörgensen verður í búrinu. Varnarlínan verður að öllum líkindum Malo Gusto í hægri bakverði, Colwill og Tosin í miðvörðum (Ef ekki Tosin, þá Disasi). Vinstri bakvörðurinn sem hleypur á miðjuna verður Renato Veiga. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Cesare Casadei verði djúpi miðjumaðurinn, þar sem Maresca er að reyna búa til þannig leikmann úr honum. Enzo Fernandez og Kiernan Dewsbury-Hall verða í mezzala hlutverkunum. Pedro Neto og Joao Felix verða á köntunum og Christopher Nkunku verður frammi. Það væri þó gaman að sjá Jadon Sancho byrja - þar sem hann hefur farið prýðilega af stað og fleiri mínútur bæta sjálfstraustið. Jackson, Caicedo, Chukwuemeka, Mudryk og Guiu koma af bekknum.


Ég ætla að spá því að leikar fari 3-0. Felix, Nkunku og Enzo með mörkin. Það er bara þannig háttur á liðinu að sóknarleikurinn er alveg feyki öflugur þessa dagana.


Áfram Chelsea! KTBFFH!!


P.s. Sérstakt hrós á skátadeildina hjá Chelsea. Ekki nóg með að klúbburinn virðist hafa fjárfest gríðarlega vel í ungum leikmönnum sem eru að blómstra í Chelsea, þá má benda sérstaklega á það, að Strasbourg unnu Marseille í frönsku deildinni um helgina. Þar var Diego Moreira hetja liðsins og Andrey Santos stendur sig eins og hetja hjá liðinu. Svo má ekki gleyma leikmönnum sem hafa verið undir smásjá liðsins á undanförnum misserum. Jhon Durán...enginn vildi kaupa hann í sumar á 50 milljónir punda, en núna virðist það líta út fyrir að enginn muni geta keypt hann á 50 milljónir, ef kappinn heldur áfram að skora svona grimmt af bekknum!


P.p.s. Við minnum svo enn og aftur á nýskráningar og endurnýjarnir hjá Chelsea klúbbnum á Íslandi. Þetta skiptir okkur máli að við séum eins mörg og við getum mögulega verið. Munum svo að þetta er besta leiðin til að verða sér út um miða á leiki með Chelsea. Allar upplýsingar á www.chelsea.is


댓글


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page