top of page
Search

Aston Villa vs. Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudaginn 21. Júní kl 15:15

Leikvangur: Villa Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport, Sky sports og NBC sports

Upphitun eftir: Snorra Clinton

Chelsea

LOKSINS, LOKSINS!!!!

Núna á sunnudaginn kemur fáum við að sjá okkar ástkæra lið aftur á vellinum. Enski boltinn er byrjaður að rúlla á ný eftir allt of langa fjarveru en okkar menn spiluðu síðast keppnisleik þann 8. mars þegar liðið sundur spilaði Everton á brúnni og fór með sigur af hólmi 4-0. Þessi upphitun verður aðeins með breyttu fyrirkomulagi en aðrir pistlar frá mér. Venjulega hef ég byrjað að fara ofan í saumana á síðasta keppnisleik og rifja hann örlítið upp en þar sem rúmlega þrír mánuðir hafa liðið síðan við keppnum síðast man ég lítið annað frá þeim leik annað en það sem er þegar komið fram. Ég vona að mér fyrirgefst það.Aftur á móti er margt annað sem hægt er að tala um frá herbúðum Chelsea. Timo Werner er STAÐFESTUR! Eru það frábærar fréttir fyrir klúbbinn. Þó svo að það virðist hafa verið tímaspursmál um hvenær málið yrði klárað er alltaf undirliggjandi stress yfir svona kaupum í manni þar til að maður sér (Staðfest) fyrir aftan fyrirsagnirnar á íþróttamiðlum. Ég ætla ekki að eyða meiri orðum í þetta heldur benda áhugasömum á nýjasta þáttinn af Blákastinu, sem er podcast þáttur okkar Chelsea manna. En í nýjasta þættinum er þessum kaupum velt um og hvað það gæti þýtt fyrir næstkomandi tímabil.


Kai Havertz er svo nýjasta nafnið sem miðlar erlendis frá vilja meina að sé á innkaupalistanum hans Lampard. Sumir miðlar fara svo langt og segja að þegar sé búið að leggja inn tilboð uppá 75 milljónir í þennan bráðsnjalla miðjumann. Ef eitthvað er til í þessum fregnum og gangi þetta eftir má segja að Chelsea sé heldur betur að minna á sig og láta vita að Lampard og hans menn séu fúlasta alvara með komandi tímabil. Klúbburinn er þegar búinn að tryggja sér Hakim Ziyech og nú Werner, komi Havertz líka erum við í topp málum. Þá að mínu mati þyrfti bara vinstri bakvörð til viðbótar og þá myndum við líta hrikalega vel út! Aftur á móti efast ég um að Chilwell sé besti kosturinn fyrir okkar lið. Þó það sé mitt mat, þá endurspeglar það ekki endilega mat þjóðarinnar.


Aðrar fréttir af klúbbnum eru þær að menn á borð við Pulisic og Loftus-Cheek eru komnir til bara úr meiðslum sem eru frábærar fréttir. RLC tók sig til og skoraði tvö í æfingarleik á móti QPR um daginn. Ég verð þó að viðurkenna að ég er hvað spenntastur fyrir því að sjá "Captain America" aftur á grasinu. Er hann í miklu uppáhaldi og voru það mikil vonbrigði að hann skuli hafa meiðst þegar hann farinn að sýna frábæra takta leik eftir leik. Eitt er þó víst að Lampard mun eiga við lúxusandamál fyrir næsta sunnudag varðandi byrjunarliðið.


Byrjunarliðið

Ég spái að Super Frank muni gera þó nokkrar breytingar á liðinu frá því á móti Everton. Til að mynda er Jorginho í leikbanni, Pedro neitar að spila og vill fara um mánaðarmótin (segja slúðurblöðin), Pulisic og RLC eru orðnir leikfærir og svo áfram mætti telja.Kepa verður í markinu, hann átti nokkra fína leiki fyrir COVID og þá sérstaklega á móti Liverpool í bikarnum. Ég held að hann sé kominn aftur með blóðbragð á tennurnar og sé staðráðinn að sanna sig sem aðalmarkvörður liðsins. Ég spái því að Azpi verði settur í vinstri bakvörðinn þar sem hann er betri kostur en Alonso og Emerson að mínu mati, einnig þar sem James virðist ætla að eigna sér stöðu hægri bakvarðar meira og meira eftir hvern leik. Í hjarta varnarinnar verða svo Rudiger og Christiansen. Það er auðvelt að giska á Rudi og Zouma þar sem enginn virðist getað fest sig almennilega við hlið Rudi í byrjunarliðinu. Á miðjunni verða svo Kovacic, sem hefur verið okkar allra besti leikmaður á tímabilinu. Með honum verða svo RLC og Kanté. Það kæmi þó ekki á óvart ef skoski stubburinn hann Gilmour fengi annað tækifæri í byrjunarliðinu, hann hefur verið hreint magnaður. Á köntunum frammi verða svo Pulisic og Willian. Hudson-Odoi hefur einfaldlega ekki náð að sýna sitt rétta andlit og réttlæta sæti í byrjunarliðinu. Ég tel svo að engar líkur séu á að við sjáum Pedro, sérstaklega ef eitthvað er til í þeim sögusögnum sem nú eru í gangi. Fremstur er svo sjálfur Tammy Abraham.


Aston Villa

Villa menn sluppu nú heldur betur með skrekkinn í vikunni þegar þeir fengu á sig mark en marklínutæknin hikstaði eitthvað og gaf dómari leiksins ekki merki um að boltinn hafi farið yfir línuna. Heppnin var því með Villa mönnum og kræktu þeir sér í kærkomið stig í fallbaráttunni. Hefði markið fengið að standa væri þetta 5. tapleikurinn þeirra í röð í deildinni. Chelsea mætti síðast Aston Villa í byrjun desember á Brúnni og unnum við þann leik 2-1 með mörkum frá Tammy og Mount. Það er til mikils að vinna fyrir bæði liði. Chelsea er í mikilli baráttu um Meistaradeildarsætið með Man Utd aðeins í þriggja stiga fjarska og Villa menn að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, í 19. sæti, aðeins 3 stigum frá 15. sæti. Því er um skildu sigur fyrir þá að ræða ætli þeir sér að komast upp frá botninum. Sigur gegn Villa lítur nokkuð öruggur út á pappír en þó er víst að þeir ætla sér að láta okkur vinna fyrir honum.


Spá

Ég held að þetta verði erfiður leikur. Það eru einmitt liðin sem eru í basli sem hafa strítt okkur hvað mest á tímabilinu. Ekki má svo gleyma að menn eru ekki í 100% leikformi eftir 3ja mánaða fjarveru frá keppnisleik, t.a.m. voru menn farnir að fá krampa á 70. mín í leik Villa og Sheffield í miðri viku. Á móti kemur að liðin mega vera með fleiri leikmenn á bekknum og gera fleiri skiptingar en venja segir til um. En rekum nú botninn í þetta. Þó svo að Villa séu svangir og þurfa sigur til að halda lífi þá mun það ekki duga á móti Chelsea. Þetta verður erfiður sigur en sigur samt sem áður. Lokatölur í leiknum verða 1-3, Pulisic setur tvö í fyrri hálfleik og Tammy gerir út um leikinn seint í seinni hálfleik.


תגובות


bottom of page