top of page
Search

Útileikur gegn Tottenham

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 26. Febrúar kl 13:30

Leikvangur: Tottenham Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? : Síminn sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason




Það eru ekki sjö dagarnir sælir í vestur Lundúnum þessi misserin. Chelsea eru á hrikalegu “rönni”. Það versta síðan 1995, þegar við vorum undir stjórn Glen Hoddle, sem var þá leikmaður og knattspyrnustjóri liðsins. Það eru næstum þrír áratugir síðan, einmitt þegar internetið var rétt svo nýkomið á íslensk heimili og réttarhöldin yfir O.J. Simpson stóðu sem hæst. Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands. Þetta segir ýmislegt. Við sem aðdáendur félagsins, erum bara alls ekkert vön þessum aðstæðum. Liðið undir stjórn Graham Potter er að safna sirka 1,7 stigi per leik. Ef það væri ekki fyrir þessa leiki sem Thomas Tuchel safnaði stigum í, þá værum í neðri hlutanum á töflunni. Persónulega hef ég verið bjartsýnn fram að þessu. Hef alltaf horft á stóra samhengið. “Trust the process”, eins og mönnum ef tamt að segja. Það er samt rosalega erfitt að halda trúnni, þegar liðið lætur Southampton, af öllum liðum, gjörsamlega éta sig á heimavelli. Souhtampton eru í neðsta sæti í deildinni og við töpuðum báðum leikjunum gegn þeim. Ég ætla að fullyrða að það slíkt myndi aldrei gerast undir öllum hinum stjórunum sem hafa stýrt liðinu sl. 20 ár. Meira að segja hjá Andre Villas Boas og Luis Felipe Scolari. Graham Potter hefur víst fullt traust stjórnarinnar, en það er nokkuð ljóst að andrúmloftið meðal aðdáenda liðsins er að súrna býsna hratt.


Áhorfendur bauluðu t.a.m. á liðið í lok leiks gegn Southampton og umræðan á twitter er orðin ansi andstyggileg. Potter sagði svo á fréttamannafundi að honum hafi borist allskonar ósæmilegir tölvupóstar. En hvað er til ráða? Ef Potter verður rekinn, þá fer meirihlutinn af þjálfaraliðinu með. Það er ekki eins og Guus Hiddink sé á lausu til að redda málum. Ef Potter verður rekinn, þá er líklegt að einhver unglingaþjálfari myndi vera ráðinn tímabundið og úrval af öðrum reynslumiklum stjórum á lausu er ekki sérlega kræsilegt í augnablikinu. Það er ekki hægt að gera neitt nema vona það besta. Þrátt fyrir öll þessi vandræði, þá eru vissir þættir að batna eins og xG tölurnar. Liðið er að skapa sér fleiri færi en fyrr á tímabilinu. Það hlýtur að koma að því að mörkin detta inn, en þetta hefur verið dálítið stöngin út og markverðir andstæðinga að eiga topp frammistöður.

Af öðrum fréttum að segja eru samningsmál. Mason Mount hefur hafnað all nokkrum tilboðum frá klúbbnum og viðræðurnar eru komnar á ís. Hann hefur ekki staðið sig nógu vel á þessu tímabili, mögulega eru nýjir leikmenn eitthvað að ógna honum? Timo Werner skýrði frá því í vikunni að koma Romelu Lukaku hafi sett hans mál í ákveðið uppnám. Maður veltir því fyrir sér hvort koma Joao Felix og Mudryk hafi sömu áhrif á Mase? Annars eru samningamál að þokast í rétta átt með N’Golo Kante. Manni finnst eins og hann sé mikið eldri, en hann er samt bara 31 árs. Það styttist í endurkomu hans, en það má reikna með tveimur vikum í viðbót. Annars er meiðslalistinn nokkuð stuttur, svona miðað við allt tímabilið. Broja er auðvitað frá út tímabilið, en Pulisic, N’Golo og Mendy eru einnig frá. Azpilicueta fékk heilahristing eftir sparkið frá leikmanni Southampton og verður ekki með að þessu sinni. Potter skýrði frá því að Aubameyang ætti alveg séns að spila fyrir liðið, en hann virðist ekki komast í hóp, þrátt fyrir að liðinu vantar augljóslega framherja. Hann átti það til að hegða sér eins og Meghan Markle hjá Arsenal og það myndi ekki koma mér á óvart, ef þannig mál eru upp á teningnum núna.


Líklegt byrjunarlið:

Potter stillir líklega upp í 4-2-3-1 með Kepa í markinu. Varnarlínan verður Chilwell, Badiashile, Thiago Silva og Reece James. Enzo og Kovacic á miðjunni. Mudryk, Felix og Sterling frammi með Havertz upp á topp. Mögulega gæti Mason Mount verið í liðinu, en frammistöðurnar hafa bara verið heldur daprar. Ólíklegt er að Koulibaly, eftir að hafa verið kippt útaf í hálfleik gegn Southampton.





Tottenham hafa átt í erfiðleikum með meiðsli og munar það klárlega mest um Bentancur og Hugo Lloris. Það er svo spurning hvort Conte verði á hliðarlínunni, en hann er að ná sér eftir aðgerð á gallblöðru. Lið Spurs verður líklega í 3-4-3 kerfinu. Forster í marki, Romero, Dier og Lenglet í miðvörðum. Ben Davies og Emerson Royal í vængbakvörðum. Oliver Skipp og Höjberg á miðjunni. Kulusevski og Son fyrir aftan Harry Kane. Gengi Tottenham hefur ekki verið neitt sérstakt, þrátt fyrir að hafa unnið Manchester City í byrjun mánaðar. Liðið steinlá fyrir Leicester og tapaði gegn AC Milan í meistaradeildinni á San Siro. Það sem var áhugavert við þann leik, var það að Pioli speglaði Tottenham leikstílinn, en spiluðu mjög aggressíft gagnvart Harry Kane. Simon Kjær hljóp hvað eftir annað uppúr varnarlínu og kjötaði Harry um leið og hann fékk boltann. Það riðlaði öllu samspili Spurs sóknarlega. Ég ætla bara rétt að vona að Graham Potter hafi horft á þann leik og glósað eitt og annað.

Núna kemur ekkert annað til greina en að spyrna sér upp af þessum 1995-botni sem liðið er á. Út með kassann og tökum hressilega á móti Spurs. Munum líka, að bikarskápurinn hjá Tottenham Hotspur er sennilega eins og tóm Billy hilla í IKEA bæklingi, eða jú, kannski er einn Audi cup til skrauts. Ég get alveg tekið það á kinnina að hafa tapað í tvígang fyrir lélegasta liði deildarinnar, en að tapa erkióvinum okkar, er bara eitthvað sem við ráðum ekki alveg við í augnablikinu. Einnig eigum við harm að hefna fyrir Cucurella hártogunina frá því á Stamford Bridge fyrr á tímabilinu. Stuart Atwell mun dæma leikinn, og það er eins gott að hann standi sig betur en ræpurnar Anthony Taylor og Mike Dean gerðu í fyrri leiknum.


Spá:

Ég ætla að vera bjartsýnn í þetta skiptið. Vinnum 0-1 með marki frá Mudryk. Christian Romero fær verðskuldað rautt spjald. Hann átti að fá það í fyrri leiknum og líka í leiknum gegn AC Milan fyrir takkatæklingu. Menn eru ekkert svona endalaust heppnir.

bottom of page