top of page
Search

Wolves vs Chelsea - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 14. September 2019, kl 14

Leikvangur: Molineux leikvangurinn í Wolverhampton

Hvar er leikurinn sýndur: NBC sports gold og BeIn Sports 3

Upphitun eftir: Snorra ClintonChelsea

Nú er landsleikjahléi lokið og er enski boltinn farinn að rúlla á fullu að nýju. Ástandið á leikmannahópnum eftir hléið er ekki upp á marga fiska því miður. Rudiger er nú allur að koma til en afar ólíklegt er að hann byrji leikinn, síðustu leikir hafa sýnt það að við þurfum að fá hann heilann og það strax. Svipaða sögu má segja af N´Golo Kanté. Gaf Lampard það út fyrir landsleikjahlé að hann vonaðist til að leikmaðurinn yrði orðinn heill fyrir leikinn á móti Wolves.

Verðum við því bara að krossleggja fingur og vona það besta. Því miður er listinn hér ekki upp talinn. Pedro meiddist í upphitun gegn Norwich og hefur ekki spilað síðan. Miðjumaðurinn knái Matteo Kovacic dró sig úr landsliðshóp Króata fyrir hlé til að einbeita sér að ná bata á Cobham. Rúsínan í meiðsla endanum er svo Emerson, haltraði hann að velli eftir aðeins örfáar mínútur á móti Finnum í hléinu en samkvæmt Mancini landliðsþjálfara var ekki um alvarleg meiðsl að ræða. Vonum því allt hið besta og að þessir leikmenn verði klárir kl 14 á laugardaginn kemur.


Orðið á götu þessa dagana er að hugsanlega munu bláliðar fá heimild til að versla í janúarglugganum. Undirritaður hefur mjög blendnar tilfinningar reynist þetta rétt. Ef ráðist verður í að kaupa stór nöfn er alltaf hætta á að spilatími ungu leikmanna Chelsea gætu farið minnkandi og með því dregið úr þróun þeirra. Aftur á móti eru allar líkur á að nauðsynlegt þykir að fjárfesta í leikmanni til að veita Azpi samkeppni.


Í síðustu umferð mættur nýliðar Sheffield United á brúnna. Á pappír var aðeins formsatriði að klára leikinn á sannfærandi hátt. Mikið basl hefur verið á varnarleiknum frá því í fyrsta leik og því kom kannski ekki mörgum á óvart að Tomori hafi fengið tækifæri til að sanna sig í byrjunarliðini. Verður það að segjast að drengurinn greip tækifærið föstum tökum og stó sig með mikilli prýði. Fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum var hreint út frábær. Chelsea stjórnaði leiknum í einu og öllu þar sem leikmenn liðsins virtust vera njóta hverrar mínútu á vellinum. Til að undirstrika flotta spilamennsku leiddu bláklæddir 2-0 í hálfleik og leit allt úr fyrir að nýliðarnir frá Sheffield myndu aldrei sjá til sólar.


Því miður virtist allt annað Chelsea lið mæta til leiks í seinni 45 mínúturnar. Sheffield náði að minnka muninn eftir tæpar tvær mínútur og var það vítamínsprautan sem Chelsea ræð ekki við. Okkar menn náðu sér aldrei á strik í seinni hálfleik, spilamennskan einkenndist af hugmyndaleysi, lélegum sendingum og algjört bitleysi sóknarlega. Til að kóróna skelfilegan seinni hálfleik skoraði Kurt Zouma sjálfsmark sem tryggði nýliðunum dýrmætt stig á brúnni. Eins leiðinlegt og það er þá hefur Azpi ekki verið skugginn af sjálfum sér það sem af er leiktíðar og Zouma hefur átt erfitt uppdráttar. Það hefur því ekki farið framhjá neinum að vörnin er okkar Akílesarhæll eins og staðan er núna og gríðarlega mikilvægt að Super Frank finni límið sem þarf til að stöða þann leka.


Miðað við meiðslalistann og vesenið á vörninni er erfitt að segja til með hvernig Lampard stillir upp liðinu á laugardaginn. Tammy Abraham er eflaust öruggur með sitt sæti í fremstu víglínu en hann hefur verið alveg hreint frábær í síðustu tveimur leikjum. Líklegt er að Barkley kominn aftur inn fyrir Pedro en því miður hefur hann bara ekki náð að sýna að hann sé nægilega góður fyrir þetta lið og því alveg jafnt líklegt að Willian fái kallið í staðinn. Mount verður á sínum stað sem og Pulisic en þeir hafa staðið sig með prýði. Sé Kanté heill er fátt sem bendir til þess að hann byrji, líklega vill Lampard ekki spila honum fullan leik strax eftir meiðslin. Jorginho og Kovacic munu því leiða báráttuna um miðjuna. Eins og áður koma fram telur undirritaður að helsti hausverkur Lampard sé vörnin. En líklegast mun hún breytast lítið frá síðasta leik, Emerson – Christiansen – Tomori – Azpi og Kepa í markinu, nema að Rudiger verði orðinn heill, þá kemur hann líklega inn í liðið.


Wolves:

Fáir myndu mótmæla því að Wolves var eitt af, ef ekki spútnik liðið í ensku úrvalsdeildinni í fyrra. Nuno Espírito Santo náði frábærum árangri með liðið í fyrra og endaði í sjötta sæti. Wolves tapaði einungis þremur leikjum á móti topp sex liðum Englands á síðasta tímabili og náði liðið í frábær úrslit á móti þeim liðum á útivelli. Sem dæmi náðu okkar menn aðeins einu stigi á móti Wolves í fyrra. Bestu leikmenn liðsins voru meðal annars Raúl Jimenez, Diego Jota, Joao Moutinho og Ruben Neves. Liðið var þó ekki umsvifa mikið á leikmannamarkaðnum í sumar en fékk þó til sín varnarmanninn Jesus Vallejo að láni frá Real Madrid og sóknarmanninn Patrick Cutrone frá AC Milan. Sá síðarnefndi spilaði 90 leiki fyrir Mílanó liðið og skoraði í þeim 27 mörk og lagði upp 7 önnur. Santo hefur því náð að bæta hópinn sinn aðeins á milli ára. Liðið hefur þó ekki náð sér enn á flug og er með aðeins þrjú stig eftir 4 umferðir og eru enn án sigurs. Liðið gerði jafntefli í fyrstu þremur leikjunum sínum og töpuðu svo gegn Everton í síðustu umferð. Það má því gera ráð fyrir að Wolves mæti harðeinbeittir til leiks á laugardaginn og tilbúnir í að gera okkar mönnum lífið leitt.


Spá:

Eitt er víst, Wolves ætla sér þrjú stig úr þessum leik og ætla sér að eyðileggja daginn fyrir okkur Chelsea aðdáendum. Sóknarlega hefur liðið okkar sýnt að það er til alls líklegt og kann heldur betur að koma sér í færi og skorað mörk. Ungu leikmennirnir hafa staðið sig frábærlega sýnt það að þeir eiga heima í liðinu. Til þess að taka stigin þrjú heim þarf Lampard að ná stöðugleika úr liðinu, sóknin og miðjan hefur verið öflug en liðið hefur átt það til að vera mun slakara í seinni hálfleik ásamt því að vörnin hefur lekið eins og gatasigti. Til að sigra þarf frammistaða liðsins að vera heilstæð allar 90 mínúturnar og líma þarf saman vörnina. Nái Lampard að bæta þessa hluti munum við sigra Wolves án nokkurs vafa.


Undirritaður ber fullt traust til Super Frank og hefur gríðalega trú á hópnum, Chelsea mun sigla þessu heim 1-3 með mörkum frá Mount, Tammy og Jorginho af punktinum áður en Jimenez klórar í bakkann undir lok leiks.


KTBFFH

Comments


bottom of page