Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: Sunnudagur 19 desember 14:00
Leikvangur: Molineux Stadium
Hvar er leikurinn sýndur?: Síminn sport
Upphitun eftir Guðmund Jóhannsson
Evrópumeistararnir eru mættir til starfa aftur og núna er það Wolves úti. Við erum að dragast aftur úr City og Liverpool þessa dagana og því er mjög mikilvægt að fá 3 punkta um helgina. Erum sem stendur 4 stigum á eftir Shitty og 3 á eftir Liverpool gómunum.
Í síðustu leikjum höfum við verið að skapa gríðarlegt magn af færum en við getum ekki skorað fleiri en eitt mark í þessum deildarleikjum (Utd, Burnley og Everton). Mikið áhyggjuefni en þetta fer að smella.
Sú brögðótta og bröndótta hefur heldur betur herjað á okkar leikmenn núna og eru þeir Lukaku, Hudson Odoi, Timo Werner og Chilwell allir með veiruna skæðu. Í guðanna bænum passiði ykkur. En ólíkt vælukjóunum í Manchester borg þá biðjum við ekki um frestanir og við spilum okkar leiki. Ég ætla lítið að tala um þennan skelfilega Everton leik í vikunni sem fór einhvern 1-1 í staðinn fyrir 8-0 einungis vegna þess að MATEO KOVACIC og NGOLO KANTE eru mættir aftur eftir meiðsli og fara þeir báðir beint inn í byrjunarliðið á sunnudag.
Saul Niguez…… Já ég ætla að fljúga þeim manni sjálfur til Spánar og geri það launalaust. Ótrúlegt að þetta sé atvinnumaður í fótbolta. Ég lofa því kæru lesendur að hann er kominn í uppvaskið með Boss Barkley og við sjáum hann ekki aftur. takk.
*Innskot frá ritstjóra - eftir að þessi grein var skrifuð kom í ljós að tvö önnur smit eru innan raða Chelsea - ekki er vitað hverjir það eru svo þessi upphitun stendur óhögguð þangað til.
Ég reyni alltaf að vera raunsær maður og þessi leikur verður allt annað en léttur. Bæði upp á formið okkar þessa dagana að gera og hvað Wolves eru sterkir. Liverpool vann þá á einhvern ógeðslegasta hátt sem ég hef séð á 94 mínútu (Hélt ég gæti ekki hatað þetta lið meira) og City þurfti vítaspyrnu á Emptyhad einum fleiri til að sigla sigrinum heim.
Lukaku og Werner verða því miður ekki komnir úr einangrun þannig að við þurfum enn og aftur að treysta á Mason Mount frammi sem er að draga okkur áfram þessa dagana. Við þurfum að koma okkur úr þessari ´´Krísu´´strax ef jólin eiga að vera skemmtileg í ár. Óþarfi að eyðileggja þau strax 19 des.
Byrjunarliðið
JÆJA JÆJA JÆJA. Aldrei verið jafn létt að giska á eitt byrjunarlið hjá Tuchel og núna. Margir leikmenn frá og nokkrir tæpir. Þannig að klukkutíma fyrir leik þurfið þið ekki að sjá byrjunarliðið vegna þess að þið eruð búin að sjá það hér. Jorginho og Loftus Cheek eru báðir tæpir fyrir leikinn og sé ég fyrir mér að Tuchel muni frekar spila tæpum Kante í staðinn fyrir Saul og Barkley.
Kai Havertz er mættur aftur og eins og ég sagði Kante og Kovacic einnig.
Heimakletturinn verður í rammanum fyrir aftan Christensen, Thiago Silva og okkar aðal sóknarmann Antonio Rudiger.
Kante og Kova verða á miðjunni með Reece james og Alonso í vængbakvörðum. Kai havertz verður síðan upp á topp með Money Mase og töframanninn sér við hlið.
Wolves
Eins og ég segi þá verður þetta erfiður leikur en á sama tíma eigum við að vinna þetta Wolves lið á okkar degi. Þeir eru gríðarlega skipulagðir og munu þeir liggja aftarlega allan tíman og beita skyndisóknum þar sem Barnaolían Adama Traore reynir að stinga okkur af.
Við þurfum alvöru performance á sunnudag og mun Antonio Rudiger láta menn eins og Traore og Jimenez alveg vita af því hver sé kominn í heimsókn.
Wolves munu sennilega spegla kerfið okkar og spila 3-4-3 eða 3-4-2.
Þeir munu stilla liðinu svona upp:
GK: Sá
vörnin: Kilman, Saiss og Coady
5 manna miðja: Semedo, Dendonker, Moutinho, Neves og Nouri
Frammi verða svo Adama Traore og Jimenez
Spá
Ég er skíthræddur við svona leiki og höfum við tapað oftar en einu sinni á heimavelli Wolves og er það oftast í desember mánuði því miður. En núna er þörf fyrir 3 punktum ef við ætlum að halda í við toppliðin 2 og við siglum skítugum 1-3 sigri heim þar sem Reece James, Rudiger og Havertz klára þetta fyrir okkur. Þurfum gleðileg jól og 3 stig í líf okkar á þessum tímum. TAKK.
Í kjólinn fyrir jólin og KTBFFH
Guðmundur Jóhannsson
Comments