top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Wolves heima

Keppni:  Enska Úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:   Mánudagur 20. janúar 2025 kl: 20.00

Leikvangur:   Stamford Bridge, Lundúnum

Dómari:   Simon Hooper

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir:  Hafstein Árnason


Það var nú helvíti súrt að horfa á upp á síðasta leik Chelsea gegn Bournemouth. Reyndar var mark Cole Palmer alveg framúrskarandi. Afgreiðslan hans var á heimsmælikvarða sem minnti mann á takta Roberto Baggio þegar hann var á hátindi síns ferils. Stoðsendingin hjá Nico Jackson var einnig ótrúlega vel útfærð. Þetta var 12 markið sem Cole Palmer og Nico Jackson skora og aðstoða hvorn annan með. Aðeins fjögur teymi hafa skorað saman fleiri mörk í Úrvalsdeildinni Drogba & Lampard með 36 mörk, Cesc Fabregas & Diego Costa með 14 mörk, Drogba & Nicolas Anelka með 13 mörk ásamt Jimmy Floyd & Eið Smára Guðjohnsen. Mjög áhugaverð tölfræði og við erum bara að tala um tvö tímabil hérna hjá þeim Palmer og Jackson.


Sá senegalski var óheppinn að skora ekki stuttu seinna þegar hann skaut í stöngina, en allt kom fyrir ekki. Því miður urðu okkur á mistök í vörninni enn og aftur. Bournemouth jöfnuðu eftir að Moises Caicedo braut klaufalega af sér í vítateignum. Justin Kluivert þrumaði í netið af punktinum. Þeir rauðsvörtu komust svo yfir eftir að Semenyo hreinlega pakkaði unglingnum Josh Acheampong saman. Tók litla fintu og stal tveimur metrum og dúndraði upp í nærhornið á Robert Sanchez sem kom öngvum vörnum við. Við getum hreinlega ekki kennt Acheampong um þetta mark, þar sem hann verður að læra af svona mistökum, en læra hratt. Hann átti ekkert sérstakan leik, en unglingarnir verða einhvernveginn að slíta skónum. Mistök eru manns besti kennari og við skulum vona að þetta gerist ekki oftar. Chelsea átti í verulegum erfiðleikum að skora í leiknum. Liðið þjarmaði að þeim rauðklæddu og þrýstu þeim niður í eigin vítateig, sem virðist vera trendið í dag hjá andstæðingum Chelsea. Hægri vængurinn hjá okkur með Madueke var frekar bragðdaufur. Manni sýnist oft eins og hugarfarið hjá þeim ágæta dreng sé ekki alltaf með besta móti. Caicedo var í hægri bakvarðar-hybrid stöðunni og kom inn á miðjuna með Lavia. Þeir áttu allir slappar frammistöður og ekkert í líkingu við þeirra besta. Maresca skipti loksins fleiri en einum manni inn í leikinn í þetta skiptið og þar á meðal Reece James og Joao Felix. Sá portúgalski var mjög sprækur í þær mínútur sem hann spilaði og olli varnarmönnum usla hvað eftir annað. Við uppskárum erindi sem erfiði þegar Reece James skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Fögnuðurinn hjá honum var gríðarlegur enda líður manni mjög vel þegar fyrirliðinn setur mark. Vonandi verður þetta til eftirbreytni.


Helsti höfuðverkur Maresca eftir síðustu leiki er að blæða ekki ódýrum mörkum á okkur, sérstaklega eftir varnarmistök. Nú er það ljóst að Vottur Chalobah hefur verið kallaður til baka frá Crystal Palace þar sem hann var á láni. Til þess þurfti símtal frá Behdad Eghbali, enda hefur framkoma klúbbsins verið býsna óvægin í garð Chalobah. Hann var einn af betri varnarmönnum síðasta tímabils, en fékk að dúsa í bombsquad á undirbúningstímabilinu með Chilwell. Þetta var í raun framvindan á því að Chelsea reyndi að kaupa Marc Guehí af Palace en þær viðræður sigldu fljótt í strand, enda ber nokkuð á milli. Þessi hrókering kemur eingöngu af því tilefni að Wesley Fofana er meiddur líkast til langt fram í Apríl og Axel Disasi virðist vera á leiðinni annað. Þar hafa klúbbar eins og Newcastle, Juventus og Bayern Leverkusen nefndir sem áfangastaðir þess franska. Aaron Anselmino er byrjaður að æfa með aðalliðinu en líkast til er hann ekki klár. Einungis með nokkra leiki fyrir Boca Juniors í fullorðinsfótbolta. Minni einnig á að Branislav Ivanovic kom í janúarglugga en fékk ekkert hlutverk fyrr en leiktíðina eftir. Ég hygg að svo verði einnig með Anselmino. Boehly og Egbhali eru sagðir vera leita af miðverði til framtíðar. Það eru nokkur nöfn sem eru farin að detta nokkuð reglulega á radarinn. Tomas Araujó hjá Benfica hefur áður verið nefndur og er til skoðunar. Sama má segja um hinn brasilíska Lucas Beraldo hjá PSG. Efnilegur vinstri fótar miðvörðru sem getur spilað í hárri varnarlínu. Annar brassi hefur líka verið nefndur hjá Gróu á Leiti, en það er Murillo hjá Nottingham Forest. Sá hefur staðið sig prýðilega en það eru víst fleiri lið sem horfa til hans og alls ólíklegt að ofurfjárhæðum verði sturtað í miðvarðarstöðuna.


Öllu meira fár er í kringum miðjustöðurnar. Kiernan Dewsbury-Hall er sagður vera á förum með West Ham sem líklegan áfangastað, en Hamrarnir eru einungis að hugsa um lán. Kobbie Mainoo hjá Manchester United hefur verið nokkuð óvænt orðaður við Chelsea. Helstu ástæður þess er að Mainoo og United eru í pikklesi með samningamál. Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe heldur þétt um bókhaldið í Manchester sem leiðir til þess að klúbburinn er líklegur til að selja Mainoo, til þess að fá inneign í sanngirnisbókhaldið. Mainoo er á 20 þús. pundum á viku til 2027 sem þykir heldur lítið fyrir leikmann af hans kalíberi, en hann er sagður vilja tífalda launin sín. Það verður áhugavert að sjá hverju fram vindur, en Chelsea hafa auga með þessu ástandi og eru sagðir tilbúnir að notfæra sér það. Alejandro Garnacho er líka orðaður við Chelsea, en undirritaður hefur litla trú á þeim pælingum. Garnacho er samningsbundinn til 2028 og Napoli eru mættir með seðlana eftir að hafa selt Kvicha "Kvaradona" Kvaratskelia til PSG.


Blaðamaðurinn Ben Jacobs reporteraði líka að Chelsea séu að skoða Englendinginn Jamie Gittens hjá Dortmund. Hann er vinstri vængmaður sem bendir til þess að Mudryk málið sé í tómu tjóni. Hann hefur skorað 7 mörk í 18 leikjum í Bundesligunni. Það sem aðstoðar okkur í þessu atriði er að Dortmund eru með áhuga Carney Chukwuemeka. Þeir hafa þegar athugað með lánamöguleika, en upphaflega var talið að Chelsea vildu bara selja, en verðmiðinn 40 milljónir punda sem þykir full hátt fyrir meginlandið. Höfum þó í huga að Nico Williams er ennþá til skoðunar í þessa stöðu fyrir sumarið, en það tekur vel í veskið að fara á eftir þeim baskneska. Annars var Carney orðaður við AC Milan. Lánaumleitunum var hafnað og nú er það úr sögunni, þar sem Kyle Walker er á leiðinni til Milan, og þar með er Brexit kvótinn hjá AC Milan fullnýttur. Hinsvegar herma fréttir frá Ítalíu að Lazio horfi einnig til Carney. Cesare Casadei er eftirsóttur hjá liðum í heimalandinu hans. Chelsea höfnuðu tilboði frá Torino uppá 12 milljónir evra. Napoli eru sagðir vera líklegir að bjóða 15 milljóna evra tilboð, en Chelsea setja verðmiða uppá 25 milljónir evra. Í ljósi mikillar eftirspurnar eftir Casadei, þá er ólíklegt að verðmiðinn lækki.


Hreyfingar í framherjastöðunni eru sagðar velta algjörlega á því hvað Christopher Nkunku gerir. Ef hann heimtar að fara mun eitthvað gerast í málunum. Greinarhöfundur telur líklegt að sumarið verði notað til að opna veskið fyrir stóru framherjanafni eins og Victor Osimhen. Osimhen hefur ekki áhuga á að fara frá Tyrklandi eins og sakir standa. Liam Delap hjá Ipswich er líka á radarnum og hefur þótt vekja mikla lukku meðal útsendara Chelsea. Ætli það sé ekki skynsamlegra að bíða eftir því að Ipswich falli í staðinn fyrir að kaupa hann á uppsprengdu verði í janúar?


Trevoh Chalobah farinn að æfa aftur með liðinu
Trevoh Chalobah farinn að æfa aftur með liðinu

Nóg af silly season sögum í bili. Við eigum að þessu sinni kvöldleikinn á mánudaginn kemur við Úlfana. Fyrri leikurinn á útivellinum var skyndisóknarveisla þar sem Neto hljóp líkt og spretthlaupari í úrslitum á Ólympíuleikum í 100 metrunum. Þá voru Úlfarnir tómu tjóni undir stjórn Gary O'Neil. Síðan þá hefur hann horfið á braut og nú stjórnar Vitor Pereira liðinu. Úlfarnir spila 3-4-3 kerfið og hafa náð í ágætis úrslit annað slagið meðal annars 2-0 sigur á Man Utd, 2-2 jafntefli við Tottenham svo dæmi séu tekin. En síðan hafa þeir fengið rosalega skelli inn á milli eins og síðast 3-0 tap gegn Newcastle. Það liggur enginn vafi á að liðið spilar samt betur undir Pereira en O'Neil. Hjá Úlfunum eru sex leikmenn á meiðslalista meðal annars Cunha sem er einn þeirra besti leikmaður. Sömu sögu er hinsvegar líka að segja úr okkar herbúðum. Levi Colwill, Enzo og Cole Palmer fengu högg í leiknum gegn Bournemouth og eru tæpir fyrir leikinn á mánudaginn kemur. Þeir tóku ekki þátt í æfingum á föstudeginum sem og Romeo Lavia. Disasi er ennþá orðaður við brottför og er ólíklegur til að vera í hóp. Það þýðir að miðverðirnir fyrir leikinn verða sennilega Tosin og Chalobah. Ef við ættum að giska á byrjunarliðið, þá myndi það vera líkast þessu: Sanchez í markinu. Cucurella í vinstri bakverðinum. Tosin og Chalobah ef Colwill er ekki klár. Malo Gusto hlýtur að starta í hægri bakverðinum þar sem Caicedo þarf að vera á miðjunni. Allir hinir miðjumennirnir eru tæpir þannig að ég ætla að segja að Reece James verði settur í stöðuna til að leyfa Enzo og Lavia fá smá breik. Ef Palmer er ekki í holunni, þá fær Nkunku það hlutverk. Neto hlýtur að starta í stað Madueke sem átti dapran leik gegn Bournemouth. Jadon Sancho heldur stöðunni vinstra megin og Jackson verður að fara að skora.


Uppstilling greinarhöfundar
Uppstilling greinarhöfundar

Hvernig fer leikurinn? Eigum við ekki að vera bjartsýn og segja núna kemur sigurinn? 3-0 takk. Nkunku og Jackson með mörkin, svo kemur Cole Palmer af bekknum og setur eitt víti í lokin.


Áfram Chelsea!

Comentarios


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page