top of page
Search

Wolves - Chelsea

Tími & dagsetning: Sunnudagur 24 desember kl: 13.00

Leikvangur: Molineux stadium, Wolverhampton, West Midlands

Dómari: David Coote

Hvar sýndur: Síminn Sport

Upphitun eftir: Þráinn BrjánssonNú er Gunna á nýju skónum, nú eru að koma jól - og okkar menn ætla að bregða sér af bæ og heimsækja Wolverhampton Wanderers, svona rétt áður en klukkurnar hringja jólin inn. Þeir taka væntanlega möndlugrautinn í hádeginu og koma hressir og endurnærðir út á Molineux völlinn. Leikmenn mæta Úlfunum fullir sjálfstrausts eftir fínan leik gegn Newcastle í enska deildarbikarnum síðastliðinn þriðjudag. Það er kannski ekki hægt að lesa mikið út úr þeim leik, þar sem bikarleikir spilast oft öðruvísi, en þó var ýmislegt jákvætt hægt að lesa úr leiknum.


Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur, en okkar menn mun meira með boltann. Tækifærin voru ekki nýtt, frekar en venjulega, en Gallagher átti þó hörkuskot sem small í slánni og Cole Palmer sem hefur verið okkar besti maður átti fínan leik. Newcastlemenn voru þó fyrri til að skora og var það Callum Wilson sem skoraði mark eftir hræðileg varnarmistök okkar manna. Gaman var að sjá Nkunku koma inná þegar korter var eftir, en hann náði ekki að setja mark sitt á leikinn og var örlítið ryðgaður, en virkilega gaman að sjá að hann er þó mættur til leiks. Ekki vantaði það að okkar menn reyndu hvað þeir gátu. Liðið átti 15 skottilraunir á móti 4 tilraunum Newcastle, en það var ekki fyrr en á annari mínútu í uppbótartíma sem Mudryk bjargaði okkar mönnum fyrir horn með góðu marki. Raunin varð vítaspyrnukeppni þar sem ekki er framlengt í deildarbikarnum.


Vítaspyrnukeppnin var hin besta skemmtun og byrjaði okkar besti maður hann Palmer á því að hamra boltann í netið. Það gaf góð fyrirheit og svöruðu Magpies með góðri spyrnu frá Wilson. Gallagher skoraði örugglega úr annari spyrnu Chelsea, en Kieran Trippier skaut framhjá í næstu spyrnu og hlutirnir farnir að líta ágætlega út. Næstur á punktinn var Nkunku og skoraði hann örugglega sem og Bruno Guimaraes fyrir Newcastle. Mudryk átti ekki í neinum vandræðum með að finna netmöskvana svo Matt Ritchie varð örlagavaldur Newcastlemanna. Það var Djordje Petrovic sem stóð í marki Chelsea sem gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Richie! Við erum komnir í fjórðungsúrslit og mætum Middlesborough í janúar.
Sem betur fer virðist sem menn hafi komið nokkuð heilir frá þessum leik, að undanskyldum Enzo sem meiddist örlítið, en fréttir eru ekki góðar af fyrirliðanum okkar. Reece James gekkst undir aðgerð í Finnlandi á fimmtudaginn var, og verður frá í það minnsta fram í apríl. Það er sannarlega skellur og undanfarin misseri hafa verið hálfgerð hörmungarsaga fyrir James. En mér segir svo hugur að veskið verði opnað í janúar og FFP reglurnar verði þandar til hins ýtrasta, þó frekari vangaveltur um janúargluggann verði lagðar í marineringu yfir hátíðarnar. Poch hefur gefið það út að það sé frekar stutt í það að Lavia verði leikfær og Chilwell nálgast leikform, en þegar hann var spurður hvort að Nkunku yrði klár til að spila heilann leik, þá sagði hann að það yrði ekki raunin. Hann gaf í skyn að það væru kannski tvær vikur í að hann yrði klár í byrjunarlið. Fleiri eru að nálgast leikform og það mun ekki vera langt í Lesley Ugochukwu og Carney Chukwuemeka. En það væri óskandi að nú myndu menn nota andrúmið og stíga upp. Manni sýnist að liðsandinn sé að verða sterkari og betri. Það mátti sjá að Mudryk passaði vel upp á sína menn, þegar Bruno Guimaraes fór í glórulausa tæklingu gegn Ian Maatsen. Litlu mátti muna að Mudryk lúðraði Brassann fyrir þá fólskulegu tæklingu. Gallagher var gríðarlega vinnusamur að venju og var valinn maður leiksins. Fleiri bláklæddir stóðu sig prýðilega og Palmer var sterkur og er óðum að stimpla sig inn. 

Chelsea:

Eins og áður sagði, er andrúmsloftið greinilega að breytast í liðinu, menn virðast vera að slípast til og finna sig betur og betur í sínum stöðum. Það er ekkert launungarmál að gæðin eru til staðar. Moises Caiceido hefur bætt sig og virðist vera öruggari með sjálfan sig. Ég er frekar bjartsýnn á að hann komi allur til og Enzo er að verða stabílari. Reunar tel ég að það sé farsælla að spila honum framar eins og Poch virðist vera farinn að gera. Gallagher er alltaf sami vinnuhesturinn og lykilatriði að semja við hann sem fyrst. Það eru klárlega batamerki, og jú það væri kirsuberið á kökuna, ef Nico Jackson myndi hrökkva almennilega í gang og skipta loksins í 5. gírinn og fara að hlaupa af sér rassgatið. Hann hefur fínan kraft, en virðist einhvernveginn vera latur að hreyfa sig og gæti gert svo miklu meira. Ég held því fram að það sé eitthvað ekki í lagi hjá sjúkraþjálfurum liðsins og aðferðarfræði þeirra, það er ekki eðlilegt hvað margir menn eru endalaust á sjúkralista og endalaust meiddir svo vikum skiptir. Ég hef áhyggjur af því að Nkunku sé ekki búinn að klára sína veru á meiðslalistanum þar sem hans saga er ekki beinlínis beysin, en það þýðir þó ekkert annað en að vera bjartsýnn og krossa fingur.


Wolves

Wolves eru þessa stundina í 13. sæti deildarinnar með 19 stig og eru aðeins þremur stigum frá Chelsea. Gary O'Neill hefur verið að gera ágæta hluti með liðið. Þeir hafa ekki verið að gera neinar rósir svosem og sigla sæmilega rólegan sjó um miðja deild. Á góðum degi ættum við að geta þó ruggað bátnum þeirra duglega og nú finnst mér vera kominn tími á að sýna okkar rétta andlit og fara inn í hátíðarnar með góðan sigur.


Liðsuppstilling og spá :

Já, vandi er um slíkt að spá og á það vel við þessa dagana. Ég held að Poch haldi sig við sömu smákökuuppskriftina líkt og áður, en tekur þó smá twist á glassúrinn þegar það á við. Það er þó ljóst að Petrovic kemur til með að standa á milli stanganna en málið vandast með vörnina. Ég ætla að leggja aurinn á að það verði sama lína fyrir framan Petrovic og var í síðasta leik. Það er, Disasi, Silva, Badiashile og Colwill. Þar fyrir framan verða þeir Caicedo og Gallagher. Svo verða þeir Sterling, Palmer og Mudryk og fremstur verður Jackson. Þetta verða þeir fyrstu 11 en Nkunku mun fá sínar mínútur og ég spái sigri. Þetta fer 1-2 og það verða þeir Palmer og Nkunku sem skora mörkin, en Nkunku kemur inná á 60. mínútu og setur hann.

Að lokum langar mig til að óska öllum Chelsea aðdáendum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og er sannfærður að 3 stig koma í hús áður en við setjumst við jólakræsingarnar.


KTBFFH!!

Comments


bottom of page