top of page
Search

West Ham vs. Chelsea - Upphitun

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 24. apríl 2021

Leikvangur: London Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Eftir mjög fjöruga síðustu daga getum við stuðningsmenn Chelsea loksins einbeitt okkur að því sem mestu máli skiptir: Fótbolta. Allt tal um Ofurdeild, græðgi, Bruce Buck og mótmæli verða hér með sett á ís og fókusinn settur á leikina framundan.


Chelsea

Jafnteflið gegn Brighton voru slæm úrslit í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu. Við erum eftir sem áður í þessu blessaða 4. sæti, en einungis á markatölu. Gengi Chelsea í ensku Úrvalsdeildinni er í raun frekar slakt, aðeins tveir sigurleikir af síðustu fimm leikjum, tvö jafntefli og svo tapið gegn WBA. Núna er því kominn tími á sigur og það gegn liði sem við erum í beinni samkeppni við - West Ham. Það er líka eins gott að vinna þennan leik, því liðin í kringum okkur eiga frekar létta leiki þessa helgina svo það er ekki hægt að treysta mikið á önnur úrslit.


Eins og vanalega er það meira en að segja það að spá fyrir um byrjunarliðið. Eitt er víst að Mendy verður í markinu því Tuchel staðfesti það á blaðamannafundinum fyrir leikinn. Mateo Kovacic er eini leikmaðurinn sem er fjarverandi vegna meiðsla. Ég reikna með að Tuchel setji sína sterkustu vörn í þennan leik, þannig að Rudiger, Silva og Azpilicueta verða í þriggja manna miðvarðarlínu.


Ég vona það heitt og innilega að Hudson-Odoi fái traustið hægra megin og að Chilwell verði vinstra megin. Inni á miðsvæðinu spái ég svo Kante og Jorginho.


Um framlínuna er erfitt að spá. Ég held að Tuchel láti Mount aftur upp í stöðuna fyrir aftan framherjann og að með honum þar verði Pulisic. Ég spái því svo að Timo Werner byrji leikinn þó ég vilji verulega mikið sjá annað hvort Tammy eða Giroud fá traustið.


Ef ég fæ 6-7 leikmenn rétta í þessu byrjunarliði kalla ég það sigur! :)



West Ham

Hamrarnir hans David Moyes eru klárt spútník lið ársins. Flestir voru búnir að bóka þá í fallbaráttuslaginn en annað hefur komið á daginn. Þeir eru í 5. sæti með jafn mörg stig og okkar menn þegar aðeins 6. leikir eru eftir.


Frá því að Moyes tók aftur við West Ham er hann búinn að gera frábæra hluti á leikmannamarkaðnum. Tomas Soucek, Vladimir Coufal og Craig Dawson hafa allir leikið frábærlega í vetur og eru lykilmenn í liðinu. Svo fékk Moyes hinn steingleymda Jessie Lingard frá Man Utd, það er skemmst frá því að segja að Lingard hefur slegið í gegn og er með 9 mörk og 4 stoðsendingar í ellefu leikjum - gjörsamlega lygilegt!


Moyes lætur West Ham spila fótbolta sem minnir mig gríðarlega mikið á leikstíl Antonio Conte. Liðið spilar með þrjá miðverði, og tvo vængbakverði sem eru með svakalegt úthald og geta hlaupið upp og niður vængina allan leikinn. Soucek og Declan Rice eru svo báðir tveir frábærir miðjumenn, með líkamlegan styrk og gott jafnvægi á milli varnar og sóknar. Frammi eru svo leikmenn eins og títtnefndur Lingard, Michail Antonio, Jarrod Bowen, Pablo Fornals og Saïd Benrahma.


West Ham eru þéttir fyrir, verjast á mörgum mönnum en setja pressu á boltann um leið og hann er kominn inn á þeirra eigin vallarhelming, rétt eins og Conte gerir svo vel. Þeir eru snöggir fram, þar sem Bowen og Lingard hafa verið sérstaklega hætturlegir upp á síðkastið.


Það kemur sér eflaust vel fyrir okkur að West Ham verða líklega án þriggja lykilmanna, Rice og Antonio eru báðir sagðir meiddir og svo er Dawson í leikbanni.


Spá

Þetta verður ekki auðveldur leikur. Ég ætla samt að spá því að okkar menn mæti mun ákveðnari til leiks heldur en gegn Brighton. Fjórða sætið er undir í þessum leik og það trekkir okkur í gang.


Spái 2-0 sigri þar sem Mount kemur okkur á bragðið og Pulisic bætir um betur.


KTBFFH

- Jóhann Már

Bình luận


bottom of page