top of page
Search

West Ham v Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 1. júlí 2020 kl. 19:15

Leikvangur: London Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? T.d. Símanum Sport, Sky Sports og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson

Inngangur

Það er gaman að vera stuðningsmaður Chelsea þessa dagana. Liðið er flottu róli í deildinni og nálgast 3. sætið óðfluga eftir fjóra sigra í síðustu fimm leikjum. Þá tryggði liðið sæti sitt í undanúrslitum FA-bikarsins um síðustu helgi eftir sætan sigur á Leicester. Þar fyrir utan virðist klúbburinn loksins vera aftur farinn að að bítast um og fá til sín eftirsóknarverða bita á leikmannamarkaðnum, sbr. Timo Werner. Það er mikið fagnaðarefni enda stuðningsmenn orðnir þreyttir á metnaðarleysi og klúðri klúbbsins í þessum efnum undanfarin ár (Drinkwater, Zappacosta, Bakayoko o.s.frv.).


Chelsea Eftir að fótboltinn fór aftur af stað eftir langt hlé hefur Chelsea unnið þrjá góða sigra í jafnmörgum leikjum. Liðið hefur litið vel út og spilamennskan heilt yfir verið sannfærandi. Þá er einkar ánægjulegt að sjá Loftus-Cheek vera kominn aftur í hópinn og það er óskandi að hann nái að stimpla sig inn í næstu leikjum.

Bæði Pulisic og Christensen eru tæpir fyrir leikinn vegna meiðsla, sem er mikil synd enda hafa þeir báðir verið flottir í undanförnum leikjum og þá sér í lagi Pulisic. En sem betur fer er breiddin í hópnum fín og maður kemur í manns stað. Zouma heldur væntanlega sæti sínu í vörninni og stendur vaktina þar ásamt Rüdiger, Azpi og Alonso. Á miðjunni geri ég ráð fyrir Kanté og Kovacic og að Barkley verði verðlaunaður með byrjunarliðssæti eftir sigurmarkið gegn Leicester. Á vængjunum verða væntanlega Willian og Mount og þá tippa ég á að Tammy verði uppi á topp.

West Ham West Ham er í frjálsu falli um þessar mundir en eins og sakir standa situr liðið í 17. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og liðin í 18. og 19. sæti. Grimm fallbaráttan er því bláköld staðreynd fyrir Moyes og hans lærisveina. Liðið hefur einungis unnið einn sigur í síðustu 11 leikjum og smám saman hafa þeir færst neðar í töflunni. Þeir þurfa því að fara að vakna úr dvalanum ef sagan frá 2011 á ekki að endurtaka sig þegar liðið endaði í neðsta deildarinnar og féll með skít og skömm niður í Championship-deildina.


Leikmannahópur liðsins er óspennandi og ógnin fram á við lítil sem engin. Sú staðreynd að Robert Snodgrass hafi verið hættulegasti leikmaður liðsins það sem af er tímabilinu segir í raun allt sem segja þarf, en Skotinn knái hefur skorað fimm mörk og er að auki með fimm stoðsendingar. Hann verður hins vegar ekki með í leiknum á morgun þar sem hann er að glíma við bakmeiðsli.


Spá Við eigum svo sannarlega harm að hefna eftir afleitt tap á Brúnni í nóvember síðastliðnum. Það má því búast við því að okkar menn komi spinnegal til leiks, tilbúnir að hefna fyrir hamfarirnar í vetur. Lampard mun leggja leikinn listavel upp fyrir sína menn og skólar útbrunninn Moyes auðveldlega til í þjálfarafræðunum. Ég spái 0-2 sigri Chelsea þar sem Tammy þakkar traustið og skorar bæði mörkin.


KTBFFH

bottom of page