top of page
Search

West Ham - Chelsea

Keppni: Premier League

Tími og dagsetning: 20. ágúst 2023 kl. 15:30

Leikvangur: London Stadium

Dómari: John Brooks

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport og betri sportbarir landsins

Eftir: Hafstein Árnason




Chelsea


Nú hefur nýtt tímabil hafist og Chelsea rís vonandi úr öskunni eins og fuglinn Fönix. Jómfrúarleikur Mauricio Pochettino við Liverpool endaði 1-1. Chelsea hefur ekki spilað 3-5-2 á undirbúningstímabilinu og í vörnina kom hinn tröllvaxni Axel Disasi, í sinn fyrsta leik fyrir Chelsea og skoraði sitt fyrsta mark. Allir sparkspekingar landsins eru sammála um það að Chelsea ströggluðu fyrstu 20 mínútur leiksins, en tóku síðan öll völd á vellinum. Seinni hálfleikurinn var sérstakt augnayndi. Leikmenn Liverpool voru svoleiðis yfirspilaðir, að þetta var eins og að strauja skyrtur. Miðjumenn Liverpool gátu ekkert ráðið við Enzo og Conor Gallagher óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn, en hann átti erfitt í uppspili fyrri hálfleiks. En því miður, þá náðum við ekki að lauma inn öðru marki, þrátt fyrir að Nico Jackson og Mudryk hefðu fengið ágæt færi. Stuðningsmenn Liverpool mega eflaust telja sig svekkta, ekki bara fyrir lélega spilamennsku í seinni hálfleik, heldur líka að þeir hefðu mögulega átt að fá vítaspyrnu þegar bolti fór í höndina á Jackson. Það er ómögulegt að skilja hvað sé í gangi hjá enskum dómurum þessa dagana. Reglum og túlkunum er breytt milli tímabila og dómar falla sem eru í andstöðu við önnur eins atriði í öðrum leikjum. Niðurstaða leiksins var sú, að Chelsea var 65% með boltann, með hærra xG, tvöfalt fleiri sendingar (610 stk 87% á móti 301 stk. 80%) og 4 dauðafæri á rammann þegar Liverpool áttu aðeins eitt. Liverpool átti fleiri tilraunir 13, á móti 10 hjá Chelsea, en 7 skot fóru framhjá og og 5 voru blokkeruð. Þegar þessi tölfræði er skoðuð, þá er það nokkuð ljóst, að Chelsea eru á leiðinni upp, meðan Liverpool eru að spóla í sama farinu frá síðasta tímabili. Sérstaklega í ljósi þess að Chelsea spiluðu nýtt leikkerfi með nýjum leikmönnum. Það er margt jákvætt við þetta.



Í aðdraganda leiksins var einhver undarlegasti darraðadans á sviði leikmannakaupa. Liverpool voru búnir að reyna prútta verðið á Romeo Lavia fyrir einhver milljón pund við Southampton. Þegar það gekk ekki, þá fóru þeir að bjóða í Moises Caicedo, leikmann sem við vorum búnir að vera í nánu sambandi við í þrjá mánuði. Allt klárt við Caicedo gagnvart Chelsea, en þessi tilraun þeirra Liverpool manna, setti viðræður Chelsea við Brighton í uppnám. Paul Winstanley var ekki að ráða við þetta sjálfur, þannig að Behdad Egbhali, eigandi Clearlake capital og Chelsea, einnig þekktur sem hákarlinn við samningaborðið, bretti upp ermarnar og kom málum fyrir borð við Brighton. Auðvitað mikið hærra verð en upplaflega var áætlað, takk fyrir ekkert Liverpool. Viðbragðið hjá Chelsea við þessu stönti var líka að heyra í Southampton og bjóða þá hærra verð í Romeo Lavia en þeir höfðu gert. Liverpool rjúka þá til og bjóða þá uppsett verð. Þetta hátterni hjá Liverpool teyminu fór illa í Romeo Lavia. Lavia ákvað þá að hafna Liverpool, líkt og Moises Caicdeo.




Carragher og Neville hneykslaðir á framferði stjórnenda Liverpool.


Stuðningsmenn Liverpool eru duglegir að benda á Chelsea sem vonda kallinn í þessu samhengi, en í raun stendur það eftir að Liverpool hafa haft fjóra yfirmenn knattspyrnumála á síðustu tveimur árum. Tími til að líta í eigin barm. Liðið gat ekki verslað úr efstu hillu í þetta skiptið, en fóru í afsláttarkörfuna og fundu einhvern japana þar. Til hamingju með það! Það verður fróðlegt að fylgjast með Gullkasti kop.is, Einar Matthías og félagar flytja kannski einhverja dramatíska tragedíu af Melwood fyrir hlustendur á næstu misserum.


Að öðrum leikmannamálum má einnig nefna að Chelsea virkjuðu klásúlu í samningi Michael Olise hjá Crystal Palace. Hann var hjá okkur í Cobham í einhver ár. Sá hefur staðið sig prýðilega hjá Crystal Palace á liðnu tímabili og var einn mest skapandi leikmaðurinn í deildinni. Pochettino vill greinilega fá sóknarleikmann á hægri vænginn. Eins og er, þá erui Noni Madueke og Raheem Sterling þeir einu sem geta spilað þessa stöðu, þó Sterling sé yfirleitt vinstra megin. Yfirmenn Crystal Palace urðu bálreiðir yfir að Chelsea komst einhvernveginn að því að það væri kaupklásúla í samningi í Olise. Þeir brugðust þannig við að bjóða leikmanninum betru samning en Chelsea sem Olise þáði. Leitin að hægri vængmanni heldur því áfram og einhverjir leikmenn verða keyptir, öðrum stuðningsmönnum, sérstaklega Arsenal og Liverpool, til mikils ama.



Á ofangreindri mynd sést glöggt að Arsenal hafa bruðlað meira en Chelsea.


Öll þessi kaup hjá Chelsea eru þó að fylla út FFP kvótann. Til þess að örskýra þetta, þá þarf að selja leikmenn með hagnaði. Í því samhengi eru t.d. Cucurella og Lukaku nánast óseljanlegir nema að koma á sléttu eða í tapi. Það mun enginn greiða verðið Cucurella sem þarf til að breika núllið - þannig að hann er ekki á förum, því miður. Þeir leikmenn sem hafa söluhagnað í FFP bókhaldinu eru yfirleitt uppaldir leikmenn, eða hátt verð sem býðst í leikmenn á síðari hluta samningstíma. Þeir leikmenn sem eru sagðir vera á sölulista eru Conor Gallagher, Trevoh Chalobah og Ian Maatsen. Ef það er hægt að selja þá, þá verður til aukinn kvóti til innkaupa.


Það virðist vera gerast í tilfelli Lewis Hall. Hann er að fara á 35 milljónir punda þegar allt er samtalið með bónusgreiðslum, til Newcastle. Það er dálítið svekkjandi því flestir stuðningsmenn hafa mikið álit á Lewis Hall. Hann er 18 ára og stóð sig bara prýðilega með liðinu á liðnu tímabili, og er kominn lengra á sínum ferli en t.d. Reece James, Mason Mount og Levi Colwill voru þegar þeir voru 18 ára. Á móti kemur fékk hann lítið hlutverk á undirbúningstímabilinu hjá Pochettino og Newcastle er að bjóða tilboð sem er í raun ekki hægt að hafna. Leikmaðurinn vill fara til þeirra, þar sem hann var aðdándi Newcastle frá barnæsku og flestir í fjölskyldu hans eru stuðningsmenn félagsins. Hann á eflaust eftir að blómstra undir stjórn Eddie Howe. Þegar við teljum saman alla uppalda leikmenn sem hafa verið seldir síðan 2020, frá Tomas Kalas til Mason Mount og Lewis Hall, þá er samtalan í kringum 240 milljónir punda (fengum líka sell-on greiðslu þegar Livramento var seldur frá Southampton til Newcastle). Sú upphæð hefur klárlega skapað jákvæð skilyrði í FFP bókhaldinu. Við getum ekki sagt það sama um önnur lið samanber Arsenal, Manchester United, Manchester City eða Liverpool. Hafið það í huga þegar þið heyrið aðdáendur þeirra væla um hvað Chelsea eyðir miklum pening. Hinsvegar er það ljóst að Chelsea eru komnir að þolmörkum í FFP bókhaldinu.


Þeir leikmenn sem eru til sölu en skapa ekki sölukvóta, eru t.d. Hakim Ziyech (sem er líklega farinn til Galatasaray), Callum Hudson-Odoi (sem fer einhvert Premier league líklega), Malang Sarr og Romelu Luaku. Chelsea mega lána að hámarki 7 leikmenn frá félaginu. Eitt þeirra sæta er klárlega ætlað Lukaku, ef það tekst ekki að selja hann. Fjölmiðlar á Ítalíu fylgjast vel með málinu og hafa sagt að Juventus sé eini klúbburinn sem hefur samið við Lukaku persónulega, en þeir geta ekki tekið hann nema losa út Dusan Vlahovic. Þeir buðu PSG að kaupa Vlahovic, en Qatarnir keyptu frekar Goncalo Ramos. Gazzetta Dello Sport hefur einnig greint frá því að Tottenham séu að skoða Lukaku en ekkert haldbært hefur komið fram. Saudi Arabía er ennþá von - en það er nokkuð ljóst að þetta muni örugglega verða leyst við lok gluggans. Ef Chelsea detta í örvæntingargírinn, þá er alveg eins líklegt að klúbburinn kaupi Vlahovic til að losa út Lukaku. Að öðrum leikmannakaupum þá er nokkuð ljóst að Chelsea eiga bara eftir að kaupa varamarkvörð og mögulega hægri bakvörð. Þetta með hægri bakvörðurinn kemur af illu tilefni, þar sem Reece James, tognaði aftan í læri og verður frá í einhvern tíma, líklega meira en mánuð. ESPN greindu frá því að Chelsea væru að skoða Ivan Fresneda, hægri bakvörð Real Valladolid. Barcelona eru að reyna við hann og hugur hans er klárlega þar, ef þeir geta keypt hann. Að lokum hafa AC Milan verið duglegir að bera víurnar í Armando Broja, en klúbburinn vill ekki láta hann af hendi, þegar málin með Lukaku eru óljós, og enginn annar sóknarmaður er í liðinu.


West Ham


Framundan er útlieikur við West Ham á London stadium. West Ham byrjuðu tímabilið á að gera 1-1 jafntefli við Bournemouth á útivelli í drepleiðinlegum leik. Lucas Paqueta var valinn maður leiksins, enda er hann að spila fyrir Pep Guardiola. Síðustu fregnir herma þó, að díllinn við Man City sé ekki lengur á borðinu. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Paqueta bregst við því. West Ham hafa misst frá sér Declan Rice, Manuel Lanzini og Gianluca Scamacca. Þeir hafa þó keypt prýðilega leikmenn eins og James Ward-Prowse frá Southampton og Edson Alvarez frá Ajax (sem við reyndum að kaupa síðasta sumar). Líklegt byrjunarlið hjá David Moyes verður Areola, Emerson, Aguerd, Zouma, Coufal, Soucek, Ward-Prowse, Bowen, Paqueta, Benrahma og Antonio.


Byrjunarlið Chelsea.


Gamalt vandamál er að gera vart við sig. Sjö leikmenn eru á meiðslalista, Wesley Fofana út tímabilið, Nkunku sennilega fram í desember, jafnvel lengur. Armando Broja, Marcus Bettinelli og Benoit Badiashile fram til miðjan september. Reece James örugglega fram í september-október hið minnsta og Vottur Chalobah eitthvað fram í lok ágúst. Ef það bætist meira í þennan hóp fer maður að hafa verulegar áhyggjur. En að leiknum sjálfum. Aðalspurningin er - hvernig stillir sá argentínski upp liðinu? Ég ætla að segja að hann fari úr þriggja manna vörninni og í fjögurra manna línu í 4-2-3-1. Sanchez auðvitað í markinu en Malo Gusto kemur inn í hægri bakvörðinn. Chilwell verður í vinstri og Thiago Silva og Levi Colwill verða miðvarðaparið. Ég giska að hann byrji með Enzo og Moises Caicedo á miðjunni. Vinstri kantur verður Mudryk, Chukwuemeka í holunni og Raheem Sterling á hægri. Nico Jackson að sjálfsögðu í strikernum.




Ég ætla að vera bjartsýnn núna og spá því að Chelsea vinni leikinn 0-3. Vanalega eru Moyes leikirnir leiðinlegir en ég er bjartsýnn. Mörkin koma frá Jackson, Mudryk og Malo Gusto! Ekkert annað í boði en að vera vongóður um góð úrslit.


KTBFHH!

Commentaires


bottom of page