top of page
Search

We need to talk about Kepa


Árið 2003 kom út góð skáldsaga sem bar heitið We need to talk about Kevin. Bókin (sem árið 2011 var kvikmynduð) fjallar í mjög stuttu máli um ungan dreng sem endar með því að vera slæmur í alla staði. Getum við heimfært þetta, fótboltafræðilega, yfir á okkar eina sanna Kepa?

Chelsea kaupir Kepa þegar hann er frekar ungur (23 ára) og borgar fyrir hann metfé í stöðu markvarðar. Miklar væntingar voru því strax gerðar, því stórum verðmiðum fylgja alltaf væntingar - svo einfalt er það. Segja má að fyrsta tímabilið hafi gengið ágætlega þó að gustað hafi hressilega um Spánverjann í úrslitaleik Carabao deildarbikarsins. Þá sögu þekkja allir: Kepa, sem var búinn að liggja tvisvar vegna meiðsla, neitaði að fara að velli þegar Sarri ætlaði að skipta honum út af fyrir vítabanann Willy Caballero. Kepa baðst afsökunar og endaði tímabilið nokkuð sterkt. Á þessu tímabili hefur Kepa engan vegið fundið taktinn og eru núna uppi háværar gangrýnisraddir sem jafnvel leggja það til að reyna losa sig við hann næsta sumar. Í þessari grein skulum við reyna að leggja heiðarlegt mat á það hversu slæmur Kepa hefur í raun og veru verið.


Hvað segir tölfræðin?

Tölfræðin er versti óvinur Kepa, svo einfalt er það. Í raun er tölfræðin hjá Kepa svo slæm að þegar kemur að fimm stærstu deildum Evrópu er hann í 127 sæti af 132 mögulegum markvörðum þegar kemur að vörðum skotum vs. mörk fengin á sig. Kepa er aðeins með 41 skot varið en 23 mörk fengin á sig - þetta gerir ca. 44% markvarsla - það versta í ensku Úrvalsdeildinni.


Fleiri tölfræðilegir þættir hafa einnig dúkkað upp í kringum Kepa og má þá benda á frábæra grein sem Sky Sports birti og hægt er að nálgast hér. Þar kemur m.a. fram að "xG kortið" hans Kepa, sem stendur fyrir "Expected goals" eða væntanleg mörk er það lang versta í deildinni. Eins og sést á myndinni hér að ofan má ætla, út frá tölfræði sem byggir m.a. á gæðum skotanna sem hann er að fá á sig, að hann sé búinn að leka inn næstum 8(!) fleiri mörkum en hann ætti í raun að vera búinn að fá á sig. Þetta er auðvitað flókin tölfræði og skv. henni er hinn spænski Vicente Guaita að standa sig manna best í ensku Úrvalsdeildinni, að hluta til vegna þess að hann er að verja skot sem koma úr dauðafærum, skot sem hann á ekki að verja. Takið eftir að bæði Alisson og Ederson, sem oftast eru sagðir bestu markmenn deildarinnar, eru nokkurn veginn á núlli sem er bara í góðu lagi, þá ertu ekki að gera nein mistök. Munurinn á milli þeirra tveggja og t.d. Guaita er að sá spænski fær á sig mun fleiri skot hjá Crystal Palace heldur en Ederson og Alisson fá á sig hjá Man City og Liverpool.


Hvað segja fræðimennirnir?

Í greininni sem minnst er á hér að ofan er vitnað í markvarðasérfræðinginn Richard Lee. Kappinn sá er gamall markvörður og núna markmannsþjálfari sem starfrækir markmannsskólann Goalkeeping Intelligence. Lee er ekkert alltof hrifinn af tæknilegu hlið Kepa og þá sérstaklega hvernig hann staðsetur hendurnar sínar fyrir aftan axlirnar sem gerir það að verkum að hendurnar þurfa að fara lengri vegalengd en ella. Þetta háir Kepa mikið þegar kemur að sköllum og skotum af stuttu færi, eins og t.d. skallinn hjá Hayden í leiknum gegn Newcastle og þegar Carlos Soler skoraði fyrir Valencia á Mestalla - hendurnar hans Kepa voru einfaldlega of seinar að bregðast við því þær eru illa staðsettar fyrir. Þetta er eitthvað sem hann þarf að laga. Í annari greint sem birtist um Kepa á miðlinum The Athletic er rætt við bæði Richard Green og Mark Schwarzer. Green var auðvitað samherji Kepa á síðustu leiktíð og gat því veitt góða innsýn á persónulega hlið Spánverjans. Green segir Kepa vera góðan dreng sem sé virkilega einbeittur og sérstaklega duglegur á æfingasvæðinu. Hann tiltekur að þó hann sé ekki hár í loftinu að þá búi hann yfir miklum sprengikraft og sé með virkilega þykk læri og góða kálfavöðva sem gefi honum góðan stökkkraft. Báðir taka þeir fram að hann sé að einhverju leiti fórnarlamb óstöðugleika í varnarleik Chelsea, því varnarlína Chelsea er langt frá því að vera sannfærandi og má segja að Lampard hafi ekki hugmynd um hver sé hans sterkasta varnarlína.

Hvað hefur Kepa gert mörg mistök?

Þetta er eflaust flóknasta spurningin af þeim öllum. Sama hvort maður svari henni út frá tölfræði eða bara almennri tilfinningu. Það er oft þunn lína á milli skoðanna okkar sófasérfræðinga um hvort eitthvað tiltekið mark sé markmannsmistök eða hvort markmaðurinn "hefði" getað gert betur.


Ég tók hraða yfirferð yfir öll mörkin sem Chelsea hefur fengið á sig hingað til, get ekki sagt að það hafi verið mikið skemmtiáhorf, engu að síður var það afar fróðlegt. Það er tvennt sem sker sig úr hjá okkur. Annars vegar hvað við erum fá á okkur ótrúlega mikið af mörkum eftir föst leikatriði (þekkt staðreynd) og svo hins vegar hvað mörg mörk koma eftir viðkomu varnarmanns og í netið (e. deflection), eitthvað sem Super Franky Lampard gerði að listgrein á sínum ferli. Slík mörk er erfitt að verja og nánast aldrei hægt að kenna markmanni um þau. Hið sama má ekki segja um föstu leikatriðin, þar verður Kepa að taka hluta af skömminni. Eins og fram hefur komið er Kepa ekki nema 186 cm að hæð sem mögulega hamlar honum að hafa þetta mikla "presence" í teignum. Hann fer nánast aldrei út í fyrirgjafir eftir föst leikatriði sem gerir það að verkum að andstæðingar okkar geta áhyggjulaust dælt hættulegum boltum inn í markteiginn. Zouma, Rudiger, Tomori, Azpilicueta, Christensen og restin af liðinu eiga auðvitað líka sína sök en Kepa þarf að vera atkvæðameiri inni í teignum.


Hvað varðar bein mistök í opnum leik að þá taldi ég sex mörk þar sem Kepa hefði klárlega átt að gera betur og átti í raun sök á markinu. Það er samt merkilegt að ekki neitt af þessum mistökum eru svona "skelfingarmistök" sem enda á youtube um ókomna tíð, þetta eru meira mörk eins og gegn Newcastle um daginn, þriðja markið sem hann fær á sig gegn Everton og svo markið sem Daninn Weiss skoraði fyrir Valencia á Mestella vellinum. Þetta eru í raun og veru mörk sem við Chelsea stuðningsmenn eru vön því að sjá varin af annað hvort Petr Cech og Thibaut Courtois. Akkúrat þar liggur hundurinn grafinn, við Chelsea stuðningsmenn erum eflaust allof góðu vön hvað markmenn varðar. Petr Cech er líklega besti markvörður í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar og arftaki hans var Thibaut Courtois sem t.d. var valinn besti markvörður HM 2018 og vann með okkur tvo Englandsmeistaratitla. Þessir markverðir kostuðu okkur sjaldan eða aldrei stig, þvert á móti þá unnu þeir reglulega stig með heimsklassa markvörslum. Eins og er, þá kemst Kepa einfaldlega ekki nálægt þeim félögum og þess vegna erum við stuðningsmennirnir fúlir, því nógu andskoti mikið var borgað fyrir hann.


Á Chelsea að selja Kepa næsta sumar?

Ég persónulega er pirraður út í Kepa í augnablikinu og skiljanlega. Hins vegar er ekki gott að taka erfiðar ákvarðanir með slíkar tilfinningar í blóðinu. Ég væri samt klárlega til í að selja Kepa ef það myndi finnast kaupandi sem væri tilbúinn að borga alvöru peninga fyrir hann og einnig ef það lægi algerlega fyrir að markvörður eins og Oblak kæmi í staðinn. Það myndi bara kosta okkar gríðarlega fjármuni að skipta út Kepa fyrir annan svipaðan markmann - ef það á að taka þann slag, þá verðum við að vera viss. Það eina sem ég sé fyrir mér er að vinir okkar í Atletico Madrid selji okkur Oblak á einhverja X upphæð og fái Kepa í kaupæti. Slík félagaskipti eru eflaust draumórar.


Kepa er líklega kominn til að vera og það er þjálfarateymisins og hans að rífa sig upp úr þessari lægð og byrja að sýna það á vellinum hvers vegna Chelsea gerði hann að dýrasta markverði heims. Höfum líka í huga að mönnum getur farið fram, David De Gea átti í töluverðu basli með að aðlagast ensku Úrvalsdeildinni fyrstu tvö tímabilin og Wojciech Szczęsny var í miklu basli hjá Arsenal þangað til hann var seldur til Roma og síðar Juventus - í dag þykir hann af betri markmönnum Evrópu.


Vonum að Kepa feti í fótspor De Gea og sýni okkur öllum úr hverju hann er gerður.


KTBFFH

Comentários


bottom of page