top of page
Search

Watford vs Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 2. Nóvember 2019 kl 17:30

Leikvangur: Vicarage Road

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport og SKY Sport

Upphitun eftir: Stefán Martein Ólafsson


Chelsea

Eftir árangursríkar vikur og sjö sigurleiki í röð í öllum keppnum var liðinu kippt niður á jörðina af Ole Gunnar Solskjaer og hans lærisveinum hans í Manchester United síðastliðin miðvikudag þegar þessi lið mættust í Carabao Cup (deildarbikarinn) og höfðu rauðu djöflarnir betur 1-2 á Brúnni.

Ég reikna fastlega með að strákarnir hans Lampard vilja bæta upp fyrir framistöðuna í þeim leik núna á móti Watford en það er lið sem við höfum í gegnum tíðina skilað skrambi góðum úrslitum á móti. Á síðasta tímabili sigruðum við báða leikina gegn þeim, fyrst 2-1 á Vicarage Road þar sem Eden Hazard skoraði bæði mörk Chelsea í leiknum en á Stamford Bridge fórum við með 3-0 sigur þar sem Ruben Loftus-Cheek, David Luiz og Gonzalo Higuain skoruðu mörkin. Eitt er þó víst að við fáum aðra markaskorara í þessum leik en við fengum á síðasta tímabili.

Ef við vippum okkur aftur um eina helgi og skoðum hvernig okkur gekk geng Burnley þá er ýmislegt áhugavert sem kemur í ljós. Í þeim leik komumst við 4-0 yfir áður en Burnley minnkar muninn í 4-2 og leikar enda. Christian Pulisic mætti til leiks og sá mætti með sprengju! Ekki nóg með að maðurinn hendi sér í þrennu, þá hendir hann sér í fullkomna þrennu! (hægri,vinstri og skalli). Willian ákvað síðar að klára þetta með mjög auðveldu marki en Burnley menn hafa oft litið betur út en í því. Ashley Barnes framherji Burnley átti blessunarlega hrikalegan dag fyrir framan markið en hann klúðraði vægast sagt dauðafærum í fyrri hálfleik sem við höfum oftar en einusinni og oftar en tvisvar séð hann nýta til fulls.


Ég ræddi um það í síðasta þætti Blákastsins að ég hafi ekki verið nógu sáttur með miðjuna okkar í þeim leik og nefndi þá Kovacic á nafn yfir þá sem maður hefur séð spila betur en ég verð að taka það á mig að ég skeit með þau ummæli þar sem hann átti frábæran leik þarna á miðjunni og vill ég nýta tækifærið núna til að leiðrétta þann misskilning en ég vildi endilega blanda saman afleitri framistöðu hans á móti rauðu djöflunum við Burnley leikinn sem var auðvitað svart og hvít framistaða, vonandi að Kovacic hafi það í sér að fyrirgefa mér það.

Nú dembum við okkur að því hvernig ég áætla að sjá Chelsea liðið spila. Ég athugaði meiðslalistann fyrir þennan leik og þar voru uppgefnir (með fyrirvara um breyttar aðstæður): N‘Golo Kanté (nárameiðsli[Groin injury]) , Andreas Christensen (Aftan í læri [Hamstring]), Antonio Rudiger (Nárameiðsli[Groin]), Ross Barkley (ökkli[Ankle]) og Ruben Loftus-Cheek (Hásin [Achilles tendon]).


Ég á von á að við höldum okkur við 4-3-3 kerfið en gæti svo sem alveg séð Lampard detta aftur inn á 5 manna varnarlínuna líkt og hann gerði þegar hann mætti síðast liði sem þá var undir rauðu línunni en þá væri hann líkast til að spegla uppstillingu Watford en ég reikna með að við höldum okkur í 4-3-3 og sjáum þá Caballero, Reece James, Guehi, Gilmour og jafnvel Pulisic detta út frá leiknum gegn Manchester United. Ég reikna með að við byrjum með Kepa milli stanganna, Captain Azpilicueta fer í hægri bakvörðinn, Zouma og Tomori manna miðverðina og Marcos Alonso mun verða titlaður vinsti bakvörður. Ég reikna með að Kovacic og Jorginho verði fyrstir á blað inn á miðju svo gæti Mason Mount verið með þeim á miðjunni svo frammi hjá okkur munum við sjá Callum Hudson-Odoi og Willian á sitthvorum kanntinum með Tammy Abraham uppi á topp.


Watford

Watford hefur farið skelfilega af stað á þessu tímabili en þeir eru enn í leit af fyrsta sigrinum sínum í úrvalsdeildinni þetta tímabilið og vonandi fyrir okkar menn þá lengist sú bið um allavega eina helgi í viðbót. Það eru fullt af frambærilegum fótboltamönnum í þessu liði en meiðsli hafa sett strik sitt í reikniniginn hjá Elton John og félögum í Watford en lykilmenn eins og fyrirliðinn Troy Deeney, Danny Welbeck, Ismaila Sarr og Etienne Capoue má finna á meiðslalistanum hjá geitungunum. Þeirra langhættulegasti maður er miðjumaðurinn/nautið Abdoulaye Doucouré

Þeir bjóða líklega upp á 3-5-2 kerfi þar sem Ben Foster verður í rammanum, Craig Dawson, Craig Cathcart og Christian Kabasele mynda þriggja manna miðvarapar með Daryl Janmat í hægri vængbakverði og þá má búast við Grikkjanum José Holebas tilbaka úr banni í vinsti vængbakvörð. Á miðjunni munum við líkast til finna Tom Cleverley, Nat Chalobah og Doucoure, framlínuna manna svo Gerard Deulofeu og Roberto Pereyra en Pereyra gæti líka dottið niður á miðju í stað Chalobah og Andre Gray byrjar þá frammi með Deulofeu.


Spá

Ég ætla leyfa mér að vera þokkalega bjartsýnn fyrir þennan leik en það virðist henta þessu Chelsea liði ágætlega að spila á útivelli en okkar bestu leikir í vetur hafa oftar en ekki komið á útivelli. Ég ætla leyfa mér að sjá fyrir 4-5 mörkum frá okkar mönnum í þessum leik.

Ég ætla gerast það djarfur og spá þessu 5-0 stórsigri þar sem Callum Hudson-Odoi brýtur ísinn, Tammy setur næstu tvö, fáum svo mark eftir fast leikatriði frá öðrum hvorum miðverðinum og svo bara draumsins vegna þá vona ég að Kovacic komist loksins á blað. KTBFFH

Comentarios


bottom of page