Verður Ange rekinn? Leikur í Nottingham
- Jóhann Már Helgason
- 13 minutes ago
- 5 min read
Keppni: Enska Úrvalsdeildin 8. umferð
Tími, dagsetning: Laugardagurinn 18. október kl. 11:30
Leikvangur: City Ground, Nottingham
Dómari: Chris Kavanagh
Hvar sýndur: Sýn Sport
Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Það er ekkert betra en vera handhafi montréttarins yfir stuðningsmönnum Liverpool þessa dagana, hvað þá þegar heilt landsleikjahlé kemur í kjölfarið á glæsilegum sigri yfir þeim rauðu. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst alls ekki við því að Chelsea myndu sigra þá svona "auðveldlega", og hvað þá með alla þessa leikmenn meidda, og að hafa misst báða miðverðina útúr þessum leik! Moises Caicedo skoraði þetta glæsilega mark með föstu skoti rétt utan við teig. Varnartilburðir Virgil Van Dijk urðu efni í "meme" og háðsglósur sem stráði salti í sár stuðningsmanna Liverpool, undirrituðum til ómældrar þórðargleði. Hvað getum við sagt um Moises? Ekki nóg að hann sé að leiða deildina í tölfræði fyrir ýmis varnartilburði, en hann hefur verið að duglegur að skora utan við teiginn. Það er kærkomin viðbót, að lið þurfi núna að spá aðeins í skotógninni sem kemur utan teigs. Liverpool voru mjög slakir í fyrri hálfleiknum og vafalaust hefur Arne Slot sagt eitt og annað í hálfleik, því það var allt annar bragur á þeim í seinni. Þeir þjörmuðu vel að okkar marki sem uppskar erindi sem erfiði. Alexander Isak kom inná og náði að leggja boltann snyrtilega fyrir Cody Gakpo sem skoraði af stuttu færi. Enzo Maresca sem þurfti að hrókera miklu í varnarleik útaf meiðslum Acheampong og Badiashile, skipti líka Romeo Lavia og Estevao inn á þeim seinni. Romeo Lavia sem greinarhöfundur hefur nefnt öryrkjann sökum sífelldra meiðsla, stóð sig prýðilega. Þegar hann er heill heilsu, gefur hann liðinu svo mikið jafnvægi. Hann uppbyggður eins og ruðningshlaupari (e. running back) í NFL. Lavia gefur liðinu svo mikið jafnvægi með því að vera eins og skriðdreki fyrir framan vörnina, en samt svo léttur og lipur á löppunum. Lið eiga í erfiðleikum með að pressa og ná af honum boltanum en þetta var prýðileg frammistaða hjá Lavia.

Ég skil hreinlega ekki af hverju Estevao fær ekki fleiri mínútur en raun ber vitni. Það er alltaf einhver X-factor með þennan ágæta dreng. Hann skapaði hættu í sífellu með góðum krossum og virðist vera sanna sig sífellt betur. Það sem við höfum lært um Estevao er að hann mjög auðmjúkur að eðlisfari, guðhræddur og með hugarfar sigurvegarans. Ásamt því að vera með þessa hæfileika og jákvætt viðhorf, laus við hroka og yfirlæti sem einkennir suma heimsþekkta unga leikmenn frá Katalóníu. Estevao er demantur sem Maresca þarf að slípa örlítið til, svo það skín af honum ljóminn. Sagan á Stamford Bridge endaði náttúrulega á því að Chelsea liðið spilaði sig í gegnum Liverpool liðið á ögurstundu. Boltinn barst á Marc Cucurella sem negldi honum lágt fyrir markteiginn og Estevao kom hraðferð á fjær og setti hann í netið. Fyrsta markið hans fyrir Chelsea og það gegn Liverpool. Þetta var jómfrúarmark af hæsta klassa, beint fyrir framan Matthew Harding stúkuna. Aðdáun stuðningsmanna var ósvikin og Enzo Maresca tók sprettinn í átt að stúkunni og hlaut rautt spjald að launum - það fjórða í röð sem Chelsea fær. Hefði ég tekið það fyrirfram ef það væri fyrir "winner" á Liverpool? Klárlega.

Eftir leikinn gegn Liverpool kom landsleikjaglugginn. Maður fyllist stundum kvíða yfir þessum leikjum, í ljósi þess hversu margir eru meiddir. Í þetta skiptið meiddist Enzo Fernández með Argentínu á hné og er tæpur fyrir leikinn. Hann, Pedro Neto og Moises Caicedo æfðu ekki með liðinu í vikunni og verður því óvíst með þeirra þátttöku. Á móti kemur æfðu Andrey Santos og Tosin með liðinu þannig að við erum ekki eins þunnskipaðir og ætla mætti. Við fengum líka slæmar fréttir með Cole Palmer. Hann verður frá í sex vikur til viðbótar vegna bakslags í nárameiðslum. Það þýðir að hann kemur ekkert fyrr en aðventan gengur í garð. Benoit Badiashile sem stóð sig prýðilega í undanförnum leikjum varð fyrir slæmum meiðslum í leiknum gegn Liverpool. Við sjáum hann ekki á grasinu fyrr en í desember. Hann hefur því leikið aðeins fjóra leiki (Benfica, Brighton, Benfica og Liverpool) sem telja samtals 217 mínútur. Á þessu ári hefur hann leikið aðeins 13 leiki og flesta í Sambandsdeildinni. Það er ekki laust við að hann eigi einhverja vorkunn skilið. Josh Acheampong sem meiddist einnig gegn Liverpool er þó til taks eftir að hafa fengið landsleikjahléið til að hvílast og Vottur Chalobah snýr aftur úr leikbanni.

Í dag er leikur á City Ground. Ange Postecoglou tók við Nottingham Forest í september 2025, eftir að Nuno Espírito Santo var rekinn vegna átaka við eigandann Evangelos Marinakis. Ástralski stjórinn kom inn með miklar væntingar eftir að hafa unnið Europa League með Tottenham. Hann lofaði spennandi fótbolta og sigra, en gengið hefur verið vonbrigði. Í sjö leikjum – fjórum í ensku úrvalsdeildinni og þremur í Europa League – hefur Postecoglou ekki unnið einn sigur. Uppskeran hingað til er fimm töp og tvö jafntefli. Liðið situr í 17. sæti, rétt yfir fallhættusvæðinu, og stúkan á City Ground söng „sacked in the morning“ eftir tapið gegn Midtjylland í Evrópudeildinni á City Ground um daginn. Postecoglou segir leikmenn stjórna leikjum vel en missa af færum. Sambandið við Marinakis, grískan milljarðamæring og vin Postecoglous frá fyrri tímum, á að vera sterkt á yfirborðinu. Eigandinn styður hann enn sem komið er - en hann er samt þekktur fyrir sýna enga miskunn. Marinakis vill titla og þolinmæði hans er takmörkuð – eins og sást með Nuno, sem var rekinn eftir opinber átök. Postecoglou þarf brátt að sanna sig til að halda traustinu. Við setjum þó ákveðin spurningarmerki við að ráða svona ólíka knattspyrnuþjálfara. Stjóri eins og Ange þarf leikmannaglugga til að setja sitt handbragð á hópinn. Forest glímir við meiðsli Chris Wood og Ola Aina. Tap gæti leitt til enn meiri spennu um starfið hans jafnvel uppsögn, sem væri leitt, því geðþekkari mann er erfitt að finna. Forest þarf stig til að forðast fallbaráttu, en Chelsea myndi styrkja sína stöðu og nálgast efstu sætin. Sögulega séð hefur Chelsea gengið mjög vel gegn liðum Ange Postecoglu. Unnið í öll fjögur skiptin með markatöluna 11-4. Ef sá grísk-ástralski ætlar að spila hárri línu er næsta víst að Chelsea sigri leikinn örugglega. Ef hann bregður um leikstíl og ætlar að læsa teignum, þá gæti það þýtt að Chelsea ströggli. Okkur gekk illa gegn þeim á heimavelli á síðustu leiktíðum en á City Ground höfum við sótt 2-3 og 0-1 sigra.

Hvernig verður byrjunarliðið hjá Chelsea? Robert Sanchez verður í markinu að venju. Marc Cucurella á sína stöðu í vinstri bakverðinum. Votturinn og Tosin hljóta að byrja í miðvarðarstöðunum með Reece James í hægri bakverði. Öllu erfiðara er að ráða í miðjuna. Caicedo er tæpur en spilaði ekkert með Ekvador. Romeo Lavia er í álagsstýringu en Andrey Santos ætti að vera klár. Við tippum á að Andrey Santos og Caicedo byrji, en það myndi ekki koma á óvart ef Malo Gusto yrði settur í þessa stöðu líka. Estevao ætti að byrja á kantinum og Buonanotte fær mínútur í fjarveru Cole Palmer og Garnacho fær annað tækiværi á vinstri vængnum. Joao Pedro ætti að vera klár upp á topp. Hvernig fer leikurinn? Við verðum brattir og segjum 3-0 útisigur með mörkum frá Estevao, Pedro og einu marki af bekknum frá Marc Gjú!
Áfram Chelsea! P.s. það er enn opið í skráningar í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Við þreytumst seint við að minnast á þessa staðreynd. Við fáum ódýrari kjör á miðum í gegnum klúbbinn á leiki með liðinu. Við hvetjum ykkur öll til að skrá ykkur, nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments