top of page
Search

Upphitun: Chelsea vs Manchester City

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: laugardagur 25. september kl 11:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Þór Jensen


Evrópumeistarar Chelsea mæta Englandsmeisturum Manchester City á Brúnni í hádeginu á laugardaginn 25. september, kosningadag Íslendinga. Í vikunni unnu okkar menn Aston Villa í deildarbikarnum Carabao bikarnum. Í lok venjulegs leiktíma var jafnt á liðunum en sem betur fer er engin framlenging í keppninni og var því farið beint í vító sem að okkar menn unnu 4-3. Tuchel róteraði mikið frá leiknum gegn Tottenham og hvíldi marga lykilmenn en þurfti þó að tefla fram Mason Mount og Lukaku sem hann hefði örugglega viljað hvíla í þessum leik. Á blaðamannafundinum fyrir City leikinn gaf Tuchel það út að Mount hefði orðið fyrir lítilsháttar meiðslum í leiknum og verður því ekki með gegn City á morgun, stórt skarð höggvið í hópinn okkar þar. Góðu fréttirnar eru að Mendy er kominn til baka úr meiðslunum sem hann varð fyrir í Zenit leiknum og byrjar leikinn gegn City.

Fjarvera Mount flækir málin fyrir Tuchel í vali byrjunarliðsins. Nú verður fróðlegt að sjá hvort að hann haldi sama kerfi og hann hefur byrjað alla leiki tímabilsins hingað til, 3-4-3 og setur Werner eða Ziyech inn fyrir Mount eða skiptir hann í 3-5-2 sem við sáum t.d. í seinni hálfleik gegn Spurs og spilar með Kanté, Kovacic og Jorginho í þriggja manna miðju. Í þessu kerfi spilum við með tvo uppi á topp, þá að öllum líkindum Werner eða Havertz með Lukaku. Persónulega myndi ég vilja sjá Tuchel tefla fram þessu kerfi og mæta þannig sterkri þriggja manna miðju City. Kovacic hefur verið að spila það vel undanfarið að mér þætti synd að geyma hann á bekknum í þessum leik og Kanté og Jorginho verða alltaf í byrjunarliðinu á morgun. Kovacic hefur verið að skila miklu betri sóknartölfræði í undanförnum leikjum en á fyrri tímabilum, kominn með 3 stoðsendingar og 1 mark það sem af er móti.

Taktískar breytingar gegn Tottenham

Við sáum leik liðsins gjörbreytast í seinni hálfleik gegn Spurs þegar Kanté kom inn fyrir Mount og við skiptum yfir í 3-5-2. Eftir að Werner kom inn fyrir Havertz virkaði kerfið enn betur og við spiluðum í raun besta bolta sem ég hef séð á þessu tímabili hjá Chelsea. Í fyrri hálfleik náðu Tottenham með sína 3 miðjumenn að loka á sendingaleiðir til Kocacic og Jorginho. Bakverðir þeirra pressuðu Azpi og Alonso, Kane og Lo Celso pressuðu Christensen og Rüdiger á meðan Son pressaði Silva sem átti að dreifa spilinu. Þegar Tottenham var með boltann dróg ​​Højbjerg sig oft niður á milli hafstentanna til að sækja boltann og voru þá í 3v3 stöðu við Lukaku, Havertz og Mount sem elti Højbjerg frá miðjunni. Ndombéle, Alli og Lo Celso voru þá 3 á 2 við Kovacic og Jorginho og 4 á 2 þegar að Kane droppaði niður. Í þessari stöðu þurftu hafsentarnir okkar að mæta þeim ofarlegra í pressunni og skapa pláss fyrir Son til að hlaupa inn í, sem kostaði okkur næstum því mark.



Í seinni hálfleik skiptum við yfir í 3-5-2 eins og áður sagði. Kanté kom inn fyrir Mount, þrátt fyrir að Havertz hafi í raun átt arfaslakann leik. Við vorum ekki lengur undirmannaðir á miðjunni og í raun yfirmönnuðum við Spursarana á miðjunni með að sækja oft í 3-3-4 eða 2-4-4 stöðu þar sem Alonso og Azpi sóttu hátt með Havertz/Werner og Lukaku og Christensen fór upp og var í línu við Kanté, Jorginho og Kovacic til að mynda 4 manna miðju og setja yfirtölu á miðju Tottenham manna. Þetta varð til þess að Tottenham hætti að pressa hafsetnana, Silva og Rüdiger, þar sem það skapaði mikið pláss á miðjunni fyrir Kovacic og Kanté að hlaupa inn í. Þetta gaf Silva meiri tíma á boltanum til að velja sendingar og finna sóknarmenn okkar með löngum boltum.




Með Mount út úr myndinni held ég að það sé nokkuð ljóst að Kanté, Kocacic og Jorginho byrji allir gegn City. Lukaku verður alltaf inn á og vonandi Werner með honum, miðað við slakar frammistöður Kai Havertz undanfarið og hversu vel Werner hefur spilað gegn City í síðustu 3 viðureignum. Hins vegar spilaði Werner allan leikinn gegn Villa og Havertz var hvíldur, svo það má búast við honum í byrjunarliðinu. Stærsta spurningin er hvort að James eða Azpi verði í hægri vængbakverði en ég giska á að Azpi verði fyrir valinu þar sem að James spilaði allan leikinn gegn Villa en Azpi var hvíldur. Byrjunarlið okkar manna ætti þá að líta nokkurn veginn svona út:



Manchester City

Félagsskiptagluggi City manna var ekki eins góður og þeir höfðu vonað. Þeir náðu ekki að kaupa Harry Kane og eru því í raun ekki með hreinræktaðan sóknarmann í hópnum fyrir utan Gabriel Jesús, sem virðist vera orðinn kantmaður í 4-3-3 kerfi Pep Guardiola. Manchester City hafa oft litið betur út en þeir gera í augnablikinu. Fyrir utan sóknarmannavandræði þeirra, hefur margt annað verið að bjáta á hjá þeim. Handtaka Benjamin Mendy hefur væntanlega tekið sinn toll í klefanum og nú nýlega hefur Pep komist í kast við stuðningsmenn City eftir að hann óskaði eftir betri mætingu á völlinn. Þá hefur besti leikmaður liðsins, Kevin De Bruyne, verið meiddur í byrjun leiktíðar en er nú að koma til baka og spilaði allan leikinn gegn Wycombe í deildarbikarnum. Þá hefur Phil Foden einnig verið meiddur, en spilaði líka allan leikinn í deildarbikarnum. Það verður að teljast ólíklegt að þeir byrji báðir leikinn gegn okkar á morgun eftir að hafa spilað sínar fyrstu 90 mínútur eftir meiðsli á þriðjudaginn, en mögulega verður annar þeirra í byrjunarliðinu (KDB líklegri).

City menn litu ekki sannfærandi út í 0-0 jafntefli við Southampton í síðasta deildarleik. Þá vantaði skerpu í leikinn þeirra, þeir voru flatir og hugmyndasnauðir gegn þéttu Southampton liði. Þeir voru með xG upp á 0,97 á móti 0,43 hjá Southampton og voru heppnir þegar að VAR dæmdi af víti og rautt á Kyle Walker sem dómari leiksins hafði flautað. City hafa átt 100 skot það sem af er móti, þar af aðeins 27 á markið eða 27%. Til samanburðar höfum við átt 73 skot, þar af 23 á markið eða 32% - ekki frábær tölfræði hjá okkar mönnum en þó mun betri en hjá City. Það er nokkuð ljóst að þá vantar "níu" í liðið og engin haka mun detta í jörðina ef þeir næla í einn slíkan í janúar.

Vörn City er líklega þeirra sterkasta vopn þessa stundina en Ruben Dias heldur uppteknum hætti frá síðustu leiktíð og er að spila virkilega vel eftir lélegt Evrópumót með Portúgal. Laporte er meiddur og mun ekki spila á laugardag og Stones meiddist í síðasta landsleikjahléi og hefur ekki spilað síðan þá en Pep vildi lítið gefa upp um hvort hann yrði heill fyrir Chelsea leikinn. Við gætum því séð okkar fyrrverandi Nathan Aké byrja við hlið Dias í vörninni eins og hann gerði gegn Southampton. Einnig eru Rodri, Zinchenko og Gündogan sagðir vera tæpir vegna meiðsla. Að giska á rétt byrjunarlið hjá City liði Pep Guardiola er eins og að giska á 6 réttar í Víkingalottó, en ég ætla að reyna að vera mér ekki til skammar. Hér er mín spá:


Við megum búast við taktískri skák á milli tveggja frábærra þjálfara sem virða hvorn annan mikið. Chelsea hefur unnið síðustu 3 viðureignir liðanna og það gefur okkur ábyggilega smá forskot andlega á hálf vængbrotið City lið. Við megum þó ekki vanmeta þá þar sem þetta er einn besti leikmannahópur í heiminum og geta unnið hverja sem er, hvenær sem er. Sigur í þessum leik myndi hins vegar að mínu mati stimpla okkur sem alvöru “title contenders” og setja okkur í framsætið á leið okkar í átt að titlinum.

Ég spái bláum sigri á laugardag, bæði á Stamford Bridge og í Alþingiskosningum. Ég spái okkar mönnum 2-0 sigri með mörkum frá Alonso og Lukaku.

KTBFFH

Þór Jensen


Σχόλια


bottom of page