Keppni: Enska Úrvalsdeildin.
Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 18. ágúst 2019, kl.15:30.
Leikvangur: Stamford Bridge.
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports Main Event, Sky Sports Premiere League, NBCSN o.fl. (sjá nánar: https://www.livesoccertv.com/match/3328881/chelsea-vs-leicester-city/).
Upphitun eftir Elsu Ófeigsdóttur.
Chelsea
Seinasti leikur Chelsea var gegn Liverpool í Ofurbikarnum (Super Cup) sl. miðvikudag. Sá leikur spilaðist framar vonum og fannst mér lið Liverpool virka fremur andlaust án Roberto Firmino í fyrri hálfleik. Firmino var skipt inn á í hálfleik og átti þátt í jöfnunarmarki Liverpool á 48. mínútu. Þetta var skemmtilegur leikur þar sem sótt var á báða bóga. Leikurinn endaði auðvitað í vítaspyrnukeppni sem var hnífjöfn til síðustu spyrnu þegar Adrián varði frá Tammy Abraham. Það var margt jákvætt í þessum leik en það er ljóst að samspilið þarf að slípast til, sérstaklega hvað varðar lykilsendingar. Það kemur væntanlega með tímanum. Varnarlínan var mikið betri í þessum leik en gegn Man.Utd. Chelsea „stal“ boltanum 85 sinnum af Liverpool sem náði aðeins 70 boltum af Chelsea. Sóknarlega vorum við beittari og meira ógnandi en í síðasta leik. Til marks um það þá átti Liverpool 21 skot í leiknum og Chelsea 20 skot. Enn einu sinni áttu þeir bláu skot í tréverkið – við vonum að það verði ekki venjan í vetur.
Kepa átti góðan leik gegn Liverpool. Mér finnst hann hafa tekið miklum framförum frá síðasta tímabili, hvort það skrifast á aukinn þroska, aukna þjálfun eða bæði get ég ekki lagt mat á. Sérstakt hrós fyrir tvöföldu vörsluna á 74./75. mín.
Rudiger er að mér skilst orðinn heill og verður líklega í hópnum á sunnudag. Tomori átti góða innkomu gegn Liverpool og var alls ekki síðri en Christensen í hjarta varnarinnar. Ég vona að hann fái tækifæri í byrjunarliðinu á morgun. Emerson er fyrir mitt leyti aðalmaðurinn í vinstri bakvörðinn en ég spái því að hann verði hvíldur í þessum leik og Alonso fái tækifæri í byrjunarliðinu. Mér finnst Azpilicueta ekki alveg jafn traustur og áður en hann hefur þó verið klettur í vörninni hjá okkur í mörg ár. Hann fær því að sjálfsögðu að njóta vafans þrátt fyrir fremur slakt gengi í fyrstu leikjunum. Það styttist þó í að Reece James snúi aftur eftir meiðsli sem hann hlaut í sumar. Hann deildi tísti fimmtudaginn 15.ágúst með skilaboðunum „Loading..“.
Við vonum að hann verði leikhæfur sem fyrst en það verður spennandi að sjá hvernig hann kemur til með að leysa Azpi af í hægri bakvarðarstöðunni.
Willian er leikhæfur eins og Rudiger og spái ég því að hann verði í byrjunarliðinu gegn Leicester. Kannski að Pedro fái smá hvíld eftir flottan leik gegn Liverpool til að gefa Willian pláss. Pulisic átti mjög góðan leik gegn Liverpool og er ég orðin spennt að fylgjast með því hvernig hann þróast sem leikmaður. Jorginho átti einnig góðan leik gegn Liverpool og ég vona að hann haldi áfram á sömu braut.
Kovacic átti nokkuð „solid“ frammistöðu í 101 mínútu gegn Liverpool. Ég hugsa að Barkley og Mount komi inn í byrjunarliðið gegn Leicester þar sem þeir spiluðu töluvert skemur en Kovacic, Pedro og Jorghinho. Frammistaða Kanté gegn Liverpool var frábær og ekki að sjá á honum að hann hafi verið meiddur. Talandi um meiðsli þá segja nýjustu fréttir [https://www.football.london/chelsea-fc/players/chelsea-injury-news-leicester-city-16574172] að enn sé nokkuð í Loftus-Cheek en hann er þó farinn að æfa eitthvað sem er mjög jákvætt. Þá hefur Hudson-Odoi verið að æfa með U23-liði Chelsea undanfarið og lýsti því yfir á Twitter 9. ágúst sl. að hann væri mættur aftur.
Giroud skoraði fyrsta mark í leiknum um Ofurbikarinn og virkaði ferskur. Hann átti klárlega skilið að byrja leikinn eftir frábært gengi hans í Evrópukeppninni á síðasta tímabili. Ég tel þó að Abraham muni byrja inn á gegn Leicester. Abraham hefur ekki náð að skora mikið en hann er duglegur og hungrar augljóslega eftir mörkum.
Mín spá fyrir byrjunarliðið gegn Leicester :
Leicester City
Leicester City endaði síðustu leiktíð í 9. sæti með 52 stig. Hinn reynslumikli stjóri Brendan Rodgers tók við liðinu í lok febrúar á þessu ári. Hann hefur verið að byggja upp og keyptu Leicester meðal annars, framherjann Ayoze Pérez frá Newcastle, hægri bakvörðinn James Justin og belgísku miðjumennina Dennis Praet og Youri Tielemans sem var á láni hjá þeim á síðustu leiktíð. Leikmannahópurinn hjá Leicester samanstendur af mörgum ungum leikmönnum ásamt nokkrum reynsluboltum. Þannig voru þrír leikmenn byrjunarliðs Leicester um síðustu helgi rúmlega þrítugir, þeir Kasper Schmeichel, Jonny Evans og Jamie Vardy. Helmingur leikmanna sama byrjunarliðs er 23 ára og yngri. Ungur aldur leikmannanna gerir það að verkum að þeir gætu átt mikið inni hvað varðar þróun og þroska. Af þeim sökum gæti orðið áhugavert að fylgjast með Leicester þetta tímabilið.
Um síðustu helgi gerði Leicester markalaust jafntefli gegn Wolves á heimavelli. Ekki var að sjá að brotthvarf Harry Maguire hafi haft mikil áhrif vörnina og hefur Rodgers orðað ánægju sína með varnarleik Leicester í leiknum. Einn leikmaður fannst mér skara fram úr í leiknum gegn Wolves. Það var hinn 22 ára gamli Maddison, sókndjarfur miðjumaður sem var einn af fastamönnum í byrjunarliði Leicester á síðasta tímabili. Hann var virkilega skæður fram á við og ég held að hann gæti reynst erfiður viðfangs á sunnudaginn kemur. Þá þarf að hafa gætur á Vardy en hann getur enn tekið hraða spretti þrátt fyrir háan aldur (í fótboltaárum). Ben Chilwell er annar leikmaður sem vert er að fylgjast með hjá Leicester en slúðrið segir að hann sé númer eitt á óskalista Lampard þegar félagaskiptabanninu lýkur.
Til gamans má geta að Jóhannes Karl Guðjónsson lék með Leicester City á árunum 2004-2006. Hann spilaði 77 leiki, skoraði 10 mörk og var valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum klúbbsins áður en hann færði sig yfir til Alkmaar Zaanstreek.
Spá
Eigum við að vinna Leicester? Ekki spurning. Munum við vinna Leicester? Það er stóra spurningin. Mér finnst svo miklir hæfileikar í þessu unga liði hjá okkur að ég er bjartsýn á að við vinnum leikinn. Bæði lið eru með tiltölulegan ungan leikmannahóp. Meðalaldur byrjunarliðs þeirra gegn Wolves aðeins 25,3 ár (aldursbil leikmanna 21 – 32 ár). Meðalaldur byrjunarliðs Chelsea gegn Man.Utd. aðeins 25 ár (aldursbil leikmanna var 20 – 32 ár). Ég reikna því með hröðum leik með mikið af mörkum enda er Vardy mikill markaskorari auk þess sem ég bíð spennt eftir að Pulisic opni markareikninginn sinn í ensku úrvalsdeildinni.
Ég er frekar hátt uppi eftir seinasta leik og finnst við vera að fara að vinna þennan leik örugglega. Við sigrum, 5-2. Markaskorarar: Pulisic (2), Mount, Willian og Abraham.
KTBFFH
Comments