top of page
Search

Trevoh Chalobah - Óvænt hetja?



Það er hægt að slá því á föstu að fyrir tímabilið hafði engum stuðningsmanni Chelsea dottið það til hugar að okkar menn myndu byrja tímabilið með akademíu strákinn Trevoh Chalobah í öftustu línu og þá er ég að telja með ættingja stráksins. Annað hefur komið á daginn og hefur Trevoh spilað hvað mest á undirbúningstímabilinu og staðið sig virkilega vel. Það sem meira er þá hefur hann tekið þessar frammistöð ur með sér inn í ,,alvöru leikina” og átt frábæra byrjun bæði í Ofurbikarnum gegn Villarreal þar sem hann fékk stórt hlutverk og stóðst prófið og svo núna gegn Crystal Palace í frumraun sinni í ensku Úrvalsdeildinni. Chalobah stóð vaktina með prýði og ásamt því að skora þriðja mark Chelsea í leiknum þá varð hann útnefndur maður leiksins í þokkabót.


Hvað vitum við um Trevoh Chalobah? Ég ætla að reyna varpa smá ljósi á það hver þessi ungi varnarmaður er og hvað hann hefur gert til þessa.


Trevoh Tom Chalobah er 190cm hávaxin miðvörður fæddur 5.júlí 1999 og er því 22 ára. Hann er fæddur í Sierra Leone en fluttist ungur til Englands. Trevoh Chalobah er yngri bróðir Nathaniel Chalobah sem einnig kom upp í gegnum akademíu Chelsea en erfið meiðsli og aðrir þættir urðu til þess að hann varð á endanum seldur til Watford þar sem hann er enn í dag. Báðir bræðurnir hafa spilað með yngri landsliðum Englands frá u16-u21 en Nathaniel Chalobah hefur þó spilað einn A-landsleik.

Trevoh Chalobah var hluti af u-19 ára liði Englendinga sem unnu Evrópumeistaramótið 2017. Þá var hann einnig fenginn inn í æfingarhóp Enska landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi 2018 og var hann þáttakandi í undibúningi liðsins þó svo hann hafi ekki verið valinn í hópinn. Það er því klárt mál að þarna er mikið efni.


Trevoh Chalobah sagði í nýlegu viðtali að helsta ráð sem hann hefur fengið á ferlinum hafi komið frá okkar fyrrum leikmanni Daniel Sturridge þegar hann talaði um mikilvægi svefns og að hugsa vel um sig, hafa agann í að segja nei við öllum freistingum um skemmtanarlíf og mikilvægi þess að setja fótboltann í fyrsta sæti til þess að ná árangri. Trevoh Chalobah segir að þessi ráð hafi setið í sér þegar hann var að stíga fyrstu skrefin á ferlinum með Ipswich og Huddersfield þar sem freistingar til þess að sleppa sér voru svo sannarlega til staðar.


Það er því nokkuð skýrt að okkar maður virðist vera með hausinn rétt skrúfaðan á og verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með framþróun hans í framtíðinni og aldrei að vita nema hann taki skrefið og stígi upp í átt að goðsögnum eins og John Terry. Það er einnig áhugavert að Trevoh er mjög trúaður og tilheyrir trúarhópnum Vottum Jehóva og þakkar yfirleitt æðri máttarvöldum á samfélagsmiðlum þegar vel gengur, eins og sést hér að neðan.

Það er ekki laust við því að sjá smá “Deja vu” áru yfir þessum strák sem minnir örlítið á það þegar Fikayo Tomori steig á sjónarsviðið tímabilið 2019/20. Lítt þektur strákur frá Cobham æfingasvæðinu sem kemur eins og stormsveipur inn í liðið.


Trevoh Chalobah var mikilvægur hlekkur í sigursælu unglingaliði Chelsea. Þar spilaði hann með Mason Mount, Tammy Abraham o.fl leikmönnum sem hafa getið sér gott orð síðan þá. Trevoh Chalobah byrjaði sem djúpur miðjumaður en færði sig neðar á völlinn og er í dag miðvörður. Hann hefur spilað alls 113 leiki með yngri liðum Chelsea og skorað í þeim 7 mörk.


Lánsferillinn

Tímabilið 2018/19 samdi Trevoh Chalobah við Ipswich Town í Championship deildinni (Ensku B-deildinni). Hann spilaði sinn fyrsta aðalliðs leik fyrir Traktor strákana í fyrstu umferð tímabilsins þegar Ipswich mættu Blackburn Rovers og enduðu leikar 2-2. Chalobah skoraði sitt fyrsta mark gegn Aston Villa í 1-1 jafntefli stuttu seinna og þá skoraði hann sigurmarkið í fyrsta sigri Ipswich manna þetta tímabil þegar þeir sigruðu Swansea City 3-2. Trevoh Chalobah spilaði þetta tímabil með Ipswich sem miðjumaður og kom við sögu í 43 leikjum(þar af 35 í byrjunarliði) og skoraði 2 mörk. Strax þarna var ljóst að þessi strákur hefði töluverða hæfileika enda ekki sjálfsagt að 19 ára gamlir guttar höndli hörkuna í ensku B-deildinni.



Tímabilið 2019/20 var Trevoh Chalobah lánaður til Huddersfield Town sem höfðu vorið áður fallið úr Ensku Úrvalsdeildinni. Fyrir lánið skrifaði Trevoh Chalobah undir nýjan samning við Chelsea út tímabilið 2021/22. Trevoh Chalobah spilaði sinn fyrsta leik fyrir Huddersfield rétt tæpri viku eftir vistaskiptin þegar hann byrjaði gegn Lincoln City í fyrstu umferð Carabao Cup. Hjá Huddersfield spilaði hann oftast sem djúpur miðjumaður og lék 36 leiki(þar af 30 í byrjunarliði) fyrir félagið og skoraði 1 mark. Nokkur meiðslu voru aðeins að hrjá Trevoh á þessu tímabili en þrátt fyrir það spilaði hann nokkuð mikið í frekar slöku Huddersfield liði.



Tímabilið 2020/21 ákvað Trevoh Chalobah að reyna fyrir sér utan Englands og fór á lán í efstu deild Frakklands til Lorient. Aftur skrifaði hann undir nýjan samning sem gildir út tímabilið 2022/23 áður en hann hélt af stað á lán. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Lorient þegar hann kom inná þegar 13 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma í leik gegn RC Lens. Trevoh Chalobah vakti athygli fyrir flottar frammistöður á láni hjá Lorient þar sem hann var búin að færast aftar á völlinn og í miðvörð. Hjá Lorient spilaði Trevoh Chalobah 29 leiki(þar af 24 í byrjunarliði) og skoraði 2 mörk, meðal annars í lokaleik tímabilsins gegn Strasbourg í 1-1 jafntefli.


Hvað næst?

Eins og flestir vita hefur Thomas Tuchel hrifist mikið af frammistöðum Chalobah bæði í leikjum og á æfingum. Heldur kostir hans eru að hann er stór, sterkur og kraftmikill leikmaður sem er góður að verjast í stöðunni einn á móti einum. Það hjálpar honum mjög mikið að hafa leikið sem miðjumaður á árum áður því hann er mjög yfirvegaður á boltanum og flæðir spilið mjög vel í gegnum hann - eitthvað sem Tuchel vill sjá hjá sínum miðvörðum.



En samkeppnin um leiktíma er ekkert grín. Thiago Silva er ekki byrjaður að spila og mun líklega spila töluvert þegar á líður. Andreas Christensen er alltaf að verða betri og betri og nýtur mikils traust hjá Tuchel. Rudiger og Azpilicueta virðast svo vera fyrstu menn á blað hjá Tuchel og munu alltaf spila mikið. Svo hafa verið fregnir að því að Chelsea ætli sér að kaupa hinn unga Jules Kounde frá Sevilla, hvort að upprisa Chalobah muni hafa áhrif á þau kaup skal ósagt látið, orðrómarnir um Kounde hafa a.m.k. ekki algerlega horfið.


Kurt Zouma er orðaður frá félaginu svo Chelsea mun alltaf þurfa annan leikmann hans stað - líklega verður það Chalobah fyrst um sinn. Svo ef Chelsea kaupa Kounde þá er Englendingurinn ungi kominn í mikla samkeppni um spiltíma.


Sjáum hvað gerist - það er alla vega virkilega gaman að sjá uppgang Chalobah þessar fyrstu vikur tímabilsins.


KTBFFH

- Stefán Marteinn

bottom of page