top of page
Search

Tottenham vs. Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 22. desember 2019 kl. 16:30

Leikvangur: Tottenham Hotspur Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? T.d. Símanum Sport og Sky Sports

Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson


Chelsea

Það er óneitanlega bölvað ströggl á okkar mönnum þessa dagana. Fjögur töp í síðustu deildarleikjum segja sína sögu. Tap gegn Man City á útivelli er svo sem ekkert til að skammast sín fyrir en verra hefur verið að horfa upp á liðið tapa gegn West Ham, Everton og Bournmouth, en til bæta gráu ofan á svart þá komu tvö af þessum þremur töpum á heimavelli! Því skal haldið til haga að þessi þrjú umræddu lið hafa öll verið í talsverðu basli á leiktíðinni. West Ham var til að mynda búið að fá heil tvö stig úr síðustu sjö leikjum áður en þeir höfðu betur Chelsea á Brúnni, Everton var “stjóralaust” og í frjálsu falli þegar þeir lögðu okkar menn að velli 3-1 og Bournmouth var stigalaust úr síðustu fimm leikjum áður en þeir komu, sáu og sigruðu okkar menn á Brúnni um síðustu helgi. Þessir þrjú töp eru því ekkert annað en níu glötuð stig - stig sem gætu reynst ansi þýðingarmikil þegar upp er staðið. Þetta hefur þýtt það að Chelsea hefur fjarlægst Man City og Leicester í baráttunni um 2. og 3. sætið og um leið hefur bilið í næstu lið á eftir minnkað til muna, en liðið situr þó ennþá í fjórða sætinu með 29 stig. Þremur stigum á eftir koma lærisveinar Mourinho í Tottenham, sem er einmitt okkar næsti andstæðingur.


Lampard er eflaust afar hugsi þessa dagana - pælandi hvað hefur farið úrskeiðis í undanförnum leikjum og hvað hann geti gert til að bæta gengi liðsins. Hann er því allt eins líklegur til að róta aðeins í byrjunarliðinu í leiknum gegn Tottenham. Lampard hefur úr góðri breidd að moða en hann greindi frà því á fréttamannafundi í gær að Tomori, Barkley and Giroud væru allir orðnir tiltækir á nýjan leik. Ég á þó ekki von á að neinn þeirra verði í byrjunarliðinu. Mount var dapur í síðasta leik og Pulisic sömuleiðis (reyndar ásamt fleirum) og því tippa ég á að hann setji Kovacic og Callum Hudson-Odoi inn í liðið á kostnað þeirra. Annars spái ég byrjunarliðinu svona:


Ég hef leyft mér að vera ansi bjartsýnn í spám mínum hingað til á leiktíðinni, en ég er hins vegar ansi svartsýnni en andskotinn fyrir leikinn á sunnudaginn. Þetta er vissulega mjög þýðingarmikill leikur og okkar menn munu eflaust leggja allt í sölurnar gegn Móra og co., en ég er hræddur um að það muni duga skammt, því miður. Eins og innilega ég vona að ég hafi rangt fyrir mér þá spái ég því að Tottenham vinni nokkuð sannfærandi 3-1 sigur þar sem Willian mun klóra í bakkann með einstaklingsframtaki undir lokin. Kepa og miðverðirnir munu standa uppi sem svörtu sauðirnir.


Tottenham

Ég leitaði á náðir Daða Kristjánssonar og bað hann um að koma með sína innsýn og spá fyrir leikinn, en Daði hefur haldið með Spurs frá blautu barnsbeini og gengið í gegnum súrt og sætt (aðallega súrt:)) með sínum mönnum í gegnum árin. En gefum Daða orðið.


Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið í baráttunni um sæti í meistaradeildinni. Tottenham getur með sigri komist upp fyrir Chelsea í töflunni.

Það verður gaman að sjá minn nýja uppáhalds mann, The Special One, stýra Tottenham á móti sínum gömlu félögum. Mourinho hefur náð að kveikja neista í Tottenham liðinu eftir komu sína í nóvember og liðið unnið 4 af síðustu 5 leikjum í deildinni. Liðið var í 14. sæti deildarinnar þegar hann tók við og 12 stigum á eftir Chelsea þannig að hlutirnir hafa breyst mjög hratt. Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýnn að spá því að Tottenham vinni titil undir hans stjórn ekki síðar en á næsta tímabili enda er maðurinn titlaóður.

Ég verð svo að viðurkenna að ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Frank Lampard. Hann var frábær leikmaður og er strax búinn að sýna að hann er efnilegur þjálfari. Hann er að byggja upp spennandi lið hjá Chelsea og í fyrsta skipti í mörg ár eru ungir leikmenn að fá alvöru séns. Svo ég haldi nú aðeins áfram að hrósa, þá er einn Chelsea leikmaður sem ég myndi virkilega vilja sjá í Tottenham treyjunni en það er N‘Golo Kante. Alveg magnaður leikmaður.

Tottenham vann heimaleikinn á móti Chelsea á síðasta tímabili 3-1 þar sem Son skoraði glæsilegt mark eftir 60 metra sprett upp völlinn. Jorginho var skilinn eftir í reyk og er enn að reyna að jafna sig á því. Ég var síðan svo óheppinn að vera staddur á Stamford Bridge í febrúar þar sem Chelsea vann 2-0 í arfaslökum fótboltaleik. Leikurinn var sérstakur fyrir þær sakir að það var aðeins 1 skot á mark í öllum leiknum (2 skot ef fáránlegt sjálfsmark Trippier er talið með).

Leikir liðanna eru yfirleitt miklir baráttuleikir og leikurinn á sunnudag verður engin undantekning. Ég spái því að Tottenham vinni leikinn 2-1 og að það verði a.m.k. eitt rautt spjald í leiknum.

Dele Alli er farinn að vakna aftur til lífsins og mun reynast Chelsea erfiður eins og oft áður. Dele skorar eitt mark og leggur upp annað fyrir Harry Kane. Pedro kemur inn af bekknum og skorar mark Chelsea.

COYS!

bottom of page