top of page
Search

Tottenham - Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Mánudagurinn 6. nóvember 2023 - kl. 20.00

Leikvangur: Tottenham Stadium

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport og sportbarir víða um land.

Dómari: Michael Oliver

Upphitun eftir: Hafstein ÁrnasonChelsea

Eftir vonbrigðin gegn Brentford var komið að því að mæta Blackburn í 16. liða úrslitum Carabao bikarkeppninnar. Lið Blackburn reyndist furðu lítil fyrirstaða, þrátt fyrir gott gengi í Championship deildinni. Það virðist vera að bilið á milli deildanna sé að breikka töluvert, ekki síst hversu lélegir nýliðarnir í úrvarlsdeildinni eru í ár, og hvað liðin úr Championship deildinni eru býsna langt frá úrvalsdeildinni í getu. Blackburn fengu ekki mörg tækifæri í leiknum gegn okkur á Stamford Bridge, en það reyndi einu sinni á Sanchez í markinu þegar Arnór Sigurðsson slapp fyrir fyrir Axel Disasi en sá spænski varði laglega skot Arnórs á nærstöng. Og talandi um Sanchez, þá var það nokkuð sérstakt að sjá, að hann fékk traustið í þessum leik. Það þýðir beinlínis að Petrovic mun ekki fá leiki, nema Sanchez meiðist. Í raun veit maður ekki hvor er framar í goggunarröðinni, Bettinelli eða Petrovic. Hinsvegar fengu Benoit Badiashile og Lesley Ugochukwue traustið í byrjunarliðinu og stóðu sig prýðilega.


Badiashile skoraði laglegt mark uppúr hornspyrnu í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik gerðist ekki mikið en Cole Palmer stal bolta á vallarhelmingi Blackburn sem barst til Raheem Sterling. Sá krullaði boltann í af vinstri kanti í fjærhornið, glæsilegt mark. Enzo Fernandez steig varla feilspor og stjórnaði leiknum eins og herforingi. Að mínu mati var hann besti leikmaður liðsins. Það sem var einkum dapurlegt í leiknum var frammistaða Nico Jackson. Þetta hefði átt að vera leikur sem færði honum tækifæri og sjálfstraust, en Senegalinn kom sér örsjaldan í færi og þegar hann fékk tækifæri, þá þrumaði hann boltanum beint yfir. Maður hefur vissar áhyggjur af honum þarna, og hann er ekki sjón að sjá, miðað við undirbúningstímabilið. Við erum ekki að sjá hann taka leikmenn á, eða fara djúpt til að sækja boltann, eða búa til einhvern usla með hlaupum. Þetta er eitthvað sem Pochettino verður að taka á. En Chelsea er komið áfram í bikarnum í átta liða úrslit þar sem það mætir Newcastle United á Stamford Bridge þann 19. desember næstkomandi.


Þessi framherjavandræði liðsins gera um orðróma um kaup á Ivan Toney frá Brentford enn háværari. Sagt er þó að Brentford sjái fyrir sér að fá 100 milljónir punda fyrir hann, og þá væntanlega frá Chelsea eða Arsenal. Victor Osimhen hjá Napoli er einnig sagður vera til skoðunar, en ég helt það sé óhætt að fullyrða að Osimhen komi ekki í janúar. Varðandi hina framherjana okkar, Armando Broja og Christopher Nkunku, þá eru þeir auðvitað ekki klárir, en Nkunku er sagður verða klár eftir landsleikjahléið í þessum mánuði. Broja gæti verið á bekknum, sagður samt vera tæpur með hnéið á sér. Vöðvameiðsli eru að stríða Mykhailo Mudryk og er hann því einnig tæpur. Carney Chukwuemeka lenti í bakslagi með sín hnémeiðsli. Það er bara alls óvíst hvort hann verði klár á þessu ári. Sömu söguna má segja með Trevoh Chalobah - hann glímir við meiðsli í læri og það er ekki klárt hvenær hann verður tilbúinn. Það má búast við því að hann verði á sölulistanum í janúar, en ef hann verður ekki búinn að spila einhverja leiki, þá hefur það neikvæð áhrif á þær áætlanir. Romeo Lavia er einnig sagður vera langt frá því að verða klár með sín ökklameiðsli en Ben Chilwell á að vera farinn að æfa þegar líður nær desember. Við erum að tala um að a.m.k. sex leikmenn hafa verið á meiðslalistanum í lengur en þrjá mánuði. Er það óheppni eða krísa hjá læknateymi? Dæmi hver fyrir sig.Meiðslakrísan hefur þó haft jákvæð áhrif á aðra leikmenn, þá sérstaklega Conor Gallagher sem hefur aldeilis fengið mínútur og fyrirliðabandið. Sagt er að Chelsea séu búnir að ákveða það að fara í samningaviðræður við leikmanninn. Gallagher hefur verið í náðinni hjá Pochettino með vinnuframlagi sem er honum að skapi. Það má þá leiða líkur að því að Conor verði því ekki á sölulistanum eins og hann var í sumar. Önnur stórtíðindi í samningamálum hjá klúbbinum eru þau að Emma Hayes, knattspyrnustýra kvennaliðs Chelsea hefur ákveðið að taka við bandaríska kvennalandsliðinu eftir þetta tímabil með Chelsea. Óhætt er að segja að það sé eitt stærsta starfið í kvennaknattspyrnunni og óskum við henni velgengni á þeim vettvangi.


Að leiknum í kvöld. Framundan einn stærsti lundúnaslagurinn. Leiknirnir gegn Tottenham Hotspur hafa verið í gegnum tíðina mjög harðir og ekkert gefið eftir, samanber handaband Antonio Conte og Thomas Tuchel eða blóðbaðið á Brúnni 2016. Þeir hvítklæddu hafa farið frábærlega af stað í vetur, með einhvern þann geðþekkasta stjórann í bransanum. Ástralski Grikkinn Ange Postecoglu, sem gæti þessvegna verið knattspyrnuþjálfari í Neighbours þáttunum, hann er það áströlsk týpa. Hann hefur verið hnyttin í tilsvörum á fréttamannafundum og alltaf gefið að góða nærveru af sér, að manni er skapi næst að skála við hann einum hrímköldum Foster’s bjór. Ekki nóg með að hann sé með þessa skemmtilegu nærveru, þá spila liðin hans skemmtilegan fótbolta og það hafa Tottenham gert á þessu tímabili, og sitja í öðru sæti deildarinnar. Með sigri komast þeir á toppinn. Liðið saknar Harry Kane nákvæmlega ekki neitt. Heung-Min Son hefur tekið við stöðunni og spilað alveg hreint glimrandi vel. Það verður líka að segjast, að Tottenham hafa unnið heimavinnuna einstaklega vel á leikmannamarkaðinum. James Maddison kaupin hafa verið framar öllum vonum eins og nánast allir fantasy spilarar landsins þekkja, en það verður að gefa sérstakt credit að fundið miðvörðinn Micky Van De Ven hjá Wolfsburg og markvörðinn Gugiliemo Vicario. Undirritaður vissi þó af Vicario hjá Empoli á síðustu leiktríð þar sem átti vörslur sem þóttu gjarnan vera ómannlegar. Aðrir þættir hafa batnað undir stjórn Postecoglu og nú virðist Vicario, sem hefur verið þriðji markvörður ítalska landsliðsins undir stjórn Roberto Mancini, vera færa sig upp í goggunarröðinni undir stjórn Spalletti. Það myndi ekki koma undirrituðum á óvart ef hann velti Donnarumma úr sessi. En nóg um þetta Tottenham skjall - það er tími til kominn að velta þeim af stalli í bili.


Gengi Chelsea hefur verið upp og niður á þessu tímabili, en ein trendlína virðist vera ljós. Liðið stendur sig betur gegn betri liðunum í deildinni, þar sem meira pláss er til að athafna sig, ólíkt litlu liðunum sem pakka í vörn inn á teig, líkt og gerðist í Brentford leiknum. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Pochettino og Postecoglu koma til mðe að reyna skáka hvor öðrum í taktík. Ég er á því að Chelsea spili 4-2-3-1 kerfið og spegli Tottenham. Liðsuppstillingin verður nokkuð snúin þar sem Badiashile skoraði gegn Blackburn og stóð sig vel. Cucurella hefur verið á góðu runni en Colwill og Thiago Silva voru hvíldir. Það er því ákveðinn höfuðverkur að púsla vörninni saman en við hljótum að starta með Reece James. Aðrar stöður verða nokkuð konservatífar.
Hvernig fer leikurinn? Ég myndi búast við opnum og skemmtilegum leik. Þori ekki alveg að spá sigri en, myndi taka stig fyrirfram af Tottenham Stadium. Við segjum að leikurinn fari 2-2 þar sem Cole Palmer og Reece James skora. Richarlison skorar tvö, því það er týpískt að gæjinn sem skorar aldrei skori gegn okkur. Christian Romero fær samt rautt því hann á það inni eftir að hafa togað í hárið á Cucurella.


Áfram Chelsea og KTBFFH! P.s. - þið sem eruð að leita ykkur að miðum á Chelsea leiki. Skráið ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi fyrir 4. desember nk. Þá nær klúbburinn að redda miðum í forgangi. Það er hagkvæmt! Nánari upplýsingar á www.chelsea.is

Comments


bottom of page