top of page
Search

Til Kasakstan

Keppni:  Evrópska sambandsdeildin

Tími, dagsetning:   Fimmtudagur 12. desember 2024 kl. 15:30

Leikvangur:   Ortalyq stadion í Almaty í Kasakstan 

Dómari:   Sven Jablonski (Þýskaland)

Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay

Upphitun eftir Elsu Ófeigsdóttur



Chelsea

Af leikmannahópi Chelsea í Evrópudeildinni eru Fofana og James fjarverandi vegna meiðsla. Mudryk er veikur þegar þetta er skrifað og vafasamt hvort hann fljúgi með liðinu. Maresca staðfesti á blaðamannafundi að Noni Madueke ferðist ekki til Kasakstan, væntanlega með það í huga að hann verði úthvíldur fyrir sunnudagsleikinn. Þá lét hann einnig hafa eftir sér að hinn 18 ára Josh Acheampong gæti spilað allan leikinn gegn Astana. Acheampong er réttfættur varnarmaður og vill helst spila hægra megin en getur einnig spilað sem miðvörður. Maresca talaði um að það væri mikið tækifæri fyrir unga leikmenn að ferðast með aðalliðinu og mögulega er þetta merki um að hann ætli að spila meira á yngri leikmönnum gegn Astana, enda er leikurinn ekki mikilvægur fyrir okkar menn sem eru þegar búnir að tryggja sér sæti í 16 liða úrslitum. 

Hér er smá yfirlit yfir aðra unglinga en Acheampong í Evrópuhópnum sem gætu spilað gegn Astana: 


  • Richard Olise, 20 ára varnarmaður – aðalstaða: hægri bakvörður 

  • Harrison Murray-Campbell, 18 ára varnarmaður – aðalstaða: miðvörður

  • Kaiden Wilson, 19 ára varnarmaður – aðalstaða: miðvörður

  • Kiano Dyer, 18 ára miðjumaður – aðalstaða: hreinn miðjumaður (central midfield)

  • Harrison Mcmahon, 18 ára miðjumaður – aðalstaða: miðja (varnar og sóknar)

  • Ato Ampah, 18 ára sóknarmaður – aðalstaða: hægri vængmaður

  • Schumaira Mheuka, 17 ára sóknarmaður – aðalstaða: framherji


Og þessa ungu leikmenn höfum við þegar séð spila í Sambandsdeildinni, þeir hljóta að vera einstaklega líklegir til að koma við sögu í leiknum: 

  • Tyrique George, 18 ára miðjumaður hefur spilað 5 leiki

  • Samuel Rak-Sakyi, 19 ára miðjumaður hefur spilað 2 leiki



Andstæðingurinn

FC Astana er fótboltalið frá stórborginni Almaty í Kasakstan. Kasakstan er á mörkum Evrópu og Asíu en borgin Almaty er staðsettt í suðausturhluta landsins, nær Kína en meginlandi Evrópu. FC Astana er frekar ungt fótboltalið, það var stofnað árið 2009 með samruna félaganna FC Almaty Megapost og FC Alma-Ata. Sameinað fótboltafélag endaði í 2. sæti úrvalsdeildar Kasakstan á fyrsta ári sínu og unnu svo bikarkeppni Kasakstan ári síðar. Liðið hefur síðan þá unnið sjö úrvalsdeildartitla (2014-2019 og 2022), þrjá bikara í bikarkeppni Kasakstan (2010, 2012, 2016) og núna síðast sinn fyrsta deildarbikar árið 2024. Þetta virðist því vera þaulreynt lið sem getur skorað, en þeir sitja núna í 2. sæti úrvalsdeildar Kasakstan með 46 stig eftir 24 leiki og hafa skorað 39 mörk en aðeins fengið á sig 19. Klúbburinn er með bestu markatöluna í deildinni. 

Leikmenn liðsins eru helst frá Kasakstan (12 manns) og Króatíu (4 manns) og svo nokkrir frá öðrum þjóðum. Helstu markaskorarar Astana í Evrópu eru sóknarmaðurinn Geoffrey Charles (nr.9) og miðjumaðurinn Marin Tomasov (nr.10). Yan Vorogovskiy (nr.6) virðist ná að búa til hættulegar sóknir og þá gætu varnarmennirnir Kipras Kazukolovas (nr.5) og Aleksandr Marochkin (nr.22) verið erfiðir viðureignar. 


Leikurinn

Leikurinn er spilaður í Kasakstan sem er eitt austasta ríki Evrópu, beint flug tekur rétt rúmar átta klukkustundir. Þrátt fyrir langt ferðalag ætti Chelsea að vera í yfirburðastöðu til að vinna leikinn örugglega. Samkvæmt lista UEFA yfir sterkustu félagslið Evrópu 2025 eru Chelsea í 9. sæti og FC Astana í 134. – 138. sæti. Eftir blaðamannafund Maresca er það mín tilfinning að hann muni spila leikinn á yngri leikmönnum en hann minntist á að hópurinn flygi seinni part miðvikudags út, borði kvöldmat, hvílist, svo undirbúningur fyrir leik, spila leik og flogið heim en áætlað er að liðið lendi á Englandi um klukkan átta á föstudagsmorgun. Þrátt fyrir langt ferðalag þá vona ég að Chelsea sýni sínar bestu hliðar í leiknum og valti yfir Astana, 0-5. 


Ég spái byrjunarliði Chelsea svona: 

  • Mark: Jörgensen 

  • Vörnin: Disasi, Adarabioyo, Veiga og Acheampong

  • Miðja: Dewsbury-Hall, Chukwuemeka og George

  • Fremstu menn: Neto, Felix og Guiu. 


Áfram Chelsea! 

KTBFFH


P.s. Við minnum svo á að það eru nokkrir dagar til að endurnýja áskriftir og nýskrá aðgang að Chelsea klúbbnum á Íslandi, til þess að njóta forgangs í miðakaupum á leiki í vetur. Við hvetjum ykkur til að drífa í því, ef það hefur ekki verið þegar gert. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is. Svo er rétt að minnast á að Blákastið var með þátt í vikunni. Hvetjum ykkur öll til að hlusta.

Comments


bottom of page