Chelsea - Liverpool
Keppni: Premier League
Tími og dagsetning: Þriðjudagur 4. apríl kl: 19.00
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson og Hafstein Árnason
Eftir sorglegt tap gegn vampírunni Unai Emery og skósveinum hans í Aston Villa er það orðið ljóst að Graham Potter hefur lokið störfum hjá okkar ástsæla klúbbi. Það er óhætt að segja að hinn þéttsetni “#PotterOut” vagn hefur náð í mark. Þar með hefst leitin að manninum sem er ekki til, enn og aftur og verður eflaust fróðlegt að fylgjast með þeirri leit. Stjórn klúbbsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að Bruno Saltor, aðstoðarþjálfari Graham Potter, sem kom með honum frá Brighton verði stjóri liðsins þar til nýr yfirþjálfari verði ráðinn. Bruno þessi er spænskur, fyrrum varnarmaður og lék meðal annars með Espanyol, Lleida, og Valencia, áður en hann gekk til liðs við Brighton árið 2012 og lék með liðinu allt til ársins 2019. Eftir það lagði hann skóna á hilluna og sneri sér að þjálfun hjá Brighton, þar til hann fluttist með Potter til Chelsea.
Fréttum af brotthvarfi Potters ber ekki saman og er ekki alveg ljóst hvort hann hafi fengið stígvélið, eða kosið sjálfur að stíga til hliðar. Það má kannski liggja á milli hluta, en það breytir því ekki að okkar skoðun er sú, að þessi staða sem komin er upp hjá klúbbnum, er svo gallsúr að pungarnir í janúar frá Múlakaffi eru bragðlausir í samanburði við þetta. Við erum ekki sérstakir aðdáendur Graham Potter og vissum í raun lítið um hann, þegar hann kom til Chelsea, nema að hann náði eftirtektarverðum árangri hjá minni klúbbum eins og Brighton og Östersund. Hinsvegar fullyrða greindarhöfundar að það eru fáir stjórar hjá Chelsea sem hafa mætt eins miklum mótbyr og hann. Heilt byrjunarlið á meiðslalista svo vikum og mánuðum skipti. Mikilvægir leikmenn eins og Ben Chilwell, Wesley Fofana og Reece James meiddust allir á svipuðum tíma og N‘Golo hefur verið frá nánast allt tímabilið. Mjög margir leikir þar boltinn var beinlínis stöngin út, eiginlega gríðarleg óheppni. Ofan í stóran hóp koma svo furðulega margir leikmenn í janúar, og það mistekst að selja leikmenn fyrir slysni. Aftur á móti þá virkaði Graham Potter ekki sannfærandi á blaðamannafundum. Gaf út skrítnar yfirlýsingar eftir leiki þegar illa gekk. "The boys gave everything" - "we huffed and puffed". Allt blandaðist þetta saman og úr varð eitraður kokteill í eitruðu andrúmslofti stuðningsmanna.
Það er þó ljóst að stjórastarf hjá Chelsea er ekki, og hefur aldrei verið öruggasti starfsvettvangur í heimi. Það virðist ekki verða nein breyting þar á. Það er í raun mjög glatað, að geta ekki notið stöðugleika af nokkru tagi. Hvenær á að breyta um kúrs og leyfa mönnum að fá svo sem eins og eitt tímabil til að slípa menn saman og þá kannski þegar megnið af leikmönnum eru heilir. Hvers vegna gerist þetta ár eftir ár hjá okkar mönnum? Söguþráðurinn er einhvernveginn svona: Það er ráðinn einhver yfirhæpaður þjálfari sem hefur náð flottum árangri einhversstaðar, hann nær árangri og fer í guðatölu um stund og vinnur jafnvel Meistaradeildina. Svo fer að halla undan fæti og nokkrir leikir tapast og þá byrjar kórinn, þessi “out” og hinn “out” og hetjan verður að andhetju. Hvers vegna er þetta nánast einskorðað við okkar ástsæla klúbb?
Auðvitað er markmiðið alltaf að ná árangri og vinna titla en hvernig í andskotanum eiga menn að ná árangri ef þeir fá ekki tíma til að vinna vinnuna sína? Það er fullljóst að menn hafa verið misjafnir sem fengnir hafa verið í starfið, en hitt er líka jafnljóst að frábærir stjórar sem hafa verið tengdir við klúbbinn, þegar leit að stjóra hefur staðið yfir hafa afþakkað starfið vegna þess að þeir vita að þeir munu aldrei fá tíma til að klára verkefnið og þar ber sérstaklega að nefna Pep Guardiola. Hann gaf það út að hann kærði sig ekki um að koma til Chelsea aðeins vegna þessa. Við hljótum að geta gert þá kröfu að menn fái tíma og svigrúm til að vinna vinnuna sína án þess að þurfa að hafa stöðugar áhyggjur af því að fá stígvélafarið flúrað á þjóhnappana, ef nokkrir leikir fara ekki eins og til var ætlast.
Lykilmenn hafa hellst úr lestinni í stjórnartíð Potters og hann fékk að nota til dæmis Kante í heilar 30 mínútur í sinni stjóratíð og var með 11 til 12 menn á meiðslalista heilu og hálfu misserin. Ef við horfum til baka þá höfum við haft óþægilega marga stjóra eins og við vitum og hver og einn þeirra felldi fínustu fjaðrirnar ansi fljótlega, og má nefna að Jose Mourinho sem gerði fína hluti og átti að vera “The special one” og gerði jú fína hluti og fékk tvær tilraunir en fallið var hátt. Maurizio Sarri var fenginn frá Ítalíu og spilaði svokallaðan Sarri-bolta sem vakti athygli og hrifningu og var árangursríkur til að byrja með, en aðrir stjórar voru ansi fljótir að finna svör við hans leikkerfum og þá var dansleikurinn fljótt búinn. Thomas Tuchel kom svo inn eins og stormsveipur og gerði magnaða hluti en um leið og kom þetta “down” tímabil hjá honum var ekki að sökum að spyrja og þýski “töframaðurinn” hvarf í pyttinn með hinum brottreknu stjórunum. Þetta hefur mikil áhrif á spilamennsku leikmanna þegar sífellt er farið á byrjunarreit. Það getur vel verið að maður teljist frekar íhaldsamur þegar kemur að stjórnunarháttum en en eins og Skrámur sagði um árið “boy ó boy”, finnst manni einhvern veginn nóg komið.
Potter hefur vart yfirgefið Stanford Bridge, þegar menn fara að ræða hver kemur til greina í djobbið og ef við skoðum þau nöfn sem helst hafa heyrst þá eru það Julian Nagelsmann, Luis Enrique, Mauricio Pottechino, Zinedine Zidane og Ruben Amorim. Skoðum þetta aðeins nánar:
Ef við byrjum á Julian Nagelsmann, þá er það álit greinarhöfunda að hann hafi ekki nógu mikla reynslu, þótt efnilegur sé. Hann var jú stjóri hjá Bayern Munchen en fékk sparkið. Það eitt og sér vekur upp spurningar. Þar fyrir utan hefur hann ekki unnið neina titla, nema einn deildartitil með Bayern – sem er helvíti erfitt að klúðra, ef við erum alveg hreinskilin. Hann er 35 ára, sem útaf fyrir sig er aðdáunarvert, en það er einhver Andre Villas Boas fílingur í kringum þennan mann. Hann á eftir að ná örugglega miklum árangri, en hvort hann sé rétt maðurinn í Chelsea giggið á þessum punkti, verður að teljast kannski hæpið. Hefur hann hæfileika til að eiga við stóra karaktera í klefanum? Reynslan hjá Bayern virðist benda til annars. Eina sem þó jákvætt, er að hann þekkir til stjórnenda okkar sem voru hjá RB Leipzig. Það er stefna, sem er verið að framkvæma til legri tíma. Vandamálin hjá klúbbnum eru þó skammtímavandamál.
Greinarhöfundar eru hvað minnst hrifnir af Mauricio Pocchettino. Sá virðist úthaldslítill og höndlar pressu nokkuð illa. Það að hafa klúðrað Ligue 1 titli með PSG, er ákveðið afrek útaf fyrir sig. Við teljum það einnig seint til afreka að velja íkoníska Tottenham stjóra. Það minnir óneitanlega á ráðninguna á Rafael Benítez á sínum tíma. Ef það á að byggja upp stemmingu og spennu á Stamford Bridge, þá er ekki heppilegt að fá gæjann sem var „næstum því“ búinn að vinna meistaradeildina fyrir Tottenham Hotspur. Það fer ólíklega vel í stuðningsmenn Chelsea.
Zinedine Zidane er hálfgert ólíkindatól og það kannski kann að teljast soldið „franskt“, að tala ekki stakt orð í ensku. En líklegt þykir að sé nokkuð góður í spænsku og ítölsku, eftir að hafa leikið þar á sínum leikferli. Hann náði fínum árangri með Real Madrid en getið þið nefnt einhvern stjóra sem ekki hefur gert það? Kannski má varlega áætla að Zidane muni ekki líða að menn leggi sig ekki fram, eins og sannaðist með Gareth Bale hjá Real Madrid. En þetta með tungumálaörðugleikana situr dálítið í greinarhöfundum. Meðal annars varðandi samskipti á leikvelli og líka við dómara. Það minnir óneitanlega á tímann þegar Luis Felipe Scolari stjórnaði klúbbnum.
Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting í Lissabon hefur líka verið orðaður við starfið. Nafn hans hefur dúkkað upp á síðustu misserum, en það verður að segjast að við greinarhöfundar þekkja ekki nógu vel til hans. Hann virðist þó naskur á að finna góða leikmenn og ná miklu útúr litlu – og er þekktur fyrir áferðarfallegan fótbolta. Sporting hefur jú verið löngum talið litla liðið – af þeim sem sem hafa unnið titlana í Portúgal af einhverju ráði. Það er því einn titill og svona þokkalegur árangur í Evrópu sem ber nafn Amorim hátt uppi þessi misserin. Aðalatriðið er að ná miklu, úr litlu. Það minnir beinlínis eiginlega á Graham Potter. Er þá ekki ráð að prófa eitthvað annað að sinni?
Luis Enrique er svo annað nafn sem hefur verið í bakgrunninum um nokkurt skeið. Hann lét það í ljós í viðtali fyrir nokkru síðan, að hann vildi helst taka við starfi á Englandi. Vinir okkar í El Chiringuito á Spáni sögðu strax í desember að Chelsea átt í einhverjum samræðum við Luis Enrique og líkast til væri þriggja ára samningur á borðinu. Luis Enrique hefur unnið meistaradeildina með Barcelona, og náði að búa til hið dúndurgóða MSN tríó. Messi. Suarez og Neymar – sem var gríðarlega effektíft sóknarlið, og hvarf frá þessum tiki-taka fótbolta yfir í transition sóknarbolta. Einnig endurbyggði hann spænska landsliðið með því að spila á ungum og efnilegum leikmönnum. Að mörgum talinn með besta liðið á EM2020 (2021), þó svo að Ítalir hafi á endanum hreppt fyrsta sætið. Það sem vakti sérstaka eftirtekt var að Luis Enrique var óhræddur við að nota unga leikmenn, svo lengi sem þeir myndu standa sig. Það er líklegt til þess að falla í kramið bæði hjá stjórn og stuðningsmönnum Chelsea. Hann er líka einn af þeim fáu mönnum sem hafa bæði leikið fyrir Real Madrid og Barcelona. Upplifði strax mótlæti sem stjóri hjá Róma og hefur þurft að eiga við gríðarlega erfið, persónuleg áföll eins og barnmissi. Hann er þó aðeins 52 ára, en ýmsu vanur. Fyrir greinarhöfundum er Luis Enrique að tikka í hvert einasta box.
Veðbankar og slúðursnápar á við Fabrizio Romano eru farnir að hallast að Julian Nagelsmann verði fyrir valinu. Meira að segja hafa einhver samtöl átt sér stað, en greinarhöfundar vona að fleiri möguleikar verði skoðaðir. Af þessum fimm ofantöldu líst höfundum einna best á Luis Enrique, hann er maður með reynslu af stórliðum, naskur á flotta leikmenn og winner! Þó má minnast kannski á einn annan valmöguleika. Antonio Conte er víst á lausu. Eins og gömul, heimtufrek, kærasta. Eitt er víst, að ráðning á Conte myndi kannski laga þetta Lukaku mál. Menn í bókhaldinu yrðu vafalaust sáttir, en þetta er harla ólíkleg niðurstaða, þar sem hagsmunir Conte og stjórnar eru kannski ekki á sömu blaðsíðu.
En nú er mál að linni varðandi þjálfaramál og það telst ólíklegt að þessi skrif rati inná skrifborðið hjá Boehly og Egbhali. Vindum kvæði okkar í kross og snúum okkur að leiknum gegn Aston Villa. Það er óhætt að segja að við höfum komið öflugir til leiks og lékum okkur nánast að Villa en eins og áður þá reyndist okkur fyrirmunað að koma boltanum yfir línuna. Ætli við höfum ekki verið svona sirka 80% með boltann í leiknum og fengum að ég held 25 tilraunir á móti 5 hjá Villa, en eins og svo oft áður notuðu andstæðingarnir færin sín. Eini jákvæði punkturinn var að Kante kom inná í 30 mínútur og setti sannarlega mark sitt á leikinn. Nú held ég að sé samt komið að rýmingarsölu á leikmönnum, og ekki er vanþörf á. Marc Cucurella verður að fara á sölulista, þar sem hann sér hvort eð er ekkert fyrir hári. Í fyrra markinu skallaði hann svona reffilega afturfyrir sig, og það hárfínt í hlaupalínu Ollie Watkins, sem þakkaði kærlega fyrir og skoraði fyrra mark Villa. Ég held að tíma Cucurella sé lokið hjá okkur. Ruben Loftus Cheek átti afleitan leik sem svo oft áður og hann má fara sem fyrst. Ef maður á að vera jákvæður þá var Chilwell frábær og Joao Felix var ógnandi og frískur. Heilt yfir ef við tökum þennan leik út þá var hann eins og svo margir aðrir, yfirburðir en lánlausir fyrir framan markið. Næstu vikur verða fróðlegar, endurtekur Di Matteo ævintýrið sig? Það er margt sameiginlegt með aðstæðum þá og núna, hver veit. Það virðist vera mjög óljóst hver framtíðarsýn klúbbsins er, en við verðum að treysta þeim til þess að fara að taka ákvarðanir og mynda skýra stefnu. Látum þetta vera nóg af stjóraskiptum og vangaveltum því nóg á eftir að ræða þau mál og vindum okkur í komandi leik gegn Liverpool
Chelsea
Ég er hræddur um að leikmenn Chelsea hafi verið í einhverskonar existensíalískri tilvistarkreppu á morgunæfingunni á mánudaginn. Það þarf enginn að segja okkur að þetta hafi ekki gríðarleg áhrif á leikmenn. Þeir hafa tvo daga til að grauta saman kerfi og stilla saman strengi fyrir leikinn gegn Liverpool. Eru menn tilbúnir til að leggja sig fram fyrir nýjan stjóra? Vonum að þeir fái góðan hárblásara frá Spánverjanum sem er eflaust ekki eins mikið ljúfmenni og Potter. Það er spurning hvort Bruno eigi eitthvað uppi í erminni til að slengja fram og kveikja í mönnum. Hvort menn fari að skora með nýjum stjóra er ég ekki viss um og kannski verður lögð áhersla á þéttan varnarleik og treyst á jafntefli? Það er ómögulegt um að segja. Eitt er þó víst að það bíður stórt verkefni þar sem Liverpool menn eru á góðum degi illviðráðanlegir þó heldur hafi dregið af liðinu síðustu misseri. Kannski er lag á að nýta sér þá veikleika sem hafa verið að koma í ljós en ég held að menn verði að koma þokkalega vel girtir í þennan leik.
Byrjunarliðið ætti að vera keimlíkt því sem var í leiknum gegn Aston Villa. Við reiknum ekki með miklum breytingum hjá Bruno Saltor. 3-4-3 líklegasta uppstillingin með Kepa í búrinu. Badiashile og Fofana hljóta að koma í vörnina ef þeir eru heilir. Koulibaly verður á sínum stað með Enzo og Kovacic fyrir framan sig. Reece James færist í hægri vængbakvörð, en Ben Chilwell þann vinstri. Mudryk og Felix verða því undir Kai Havertz.
Hvernig fer leikurinn? Nú reynir á leikmenn að sanna sig, að þeir séu ekki algjörir kjúklingar. Þetta þarf að vera bounce back leikur, gegn Liverpool liði sem er heldur viðkvæmt þessa dagana. Þar sem þetta er á Stamford Bridge, þá segjum við að leikurinn fari 2-1 fyrir Chelsea. Kai Havertz og Joao Felix verða með mörkin í spennandi leik.
Við hvetjum svo okkar stuðningsmenn til að mæta á Ölver í Reykjavík og Verskmiðjuna á Akureyri í treyjum yfir leiknum. Við stöndum saman þegar á reynir! Ef þið voruð svo ekki búin að hlusta á Blákastið - þá hvetjum við ykkur til þess! Nýr þáttur var að droppa um málefni líðandi stundar. KTBFFHH!
Comments