top of page
Search

Svekkjandi tap gegn Arsenal og þáttur af Blákastinu



Ég vil byrja þessa skýrslu á að vekja athygli á nýjum þætti af Blákastinu. Þar var sérstakur gestur hann Alexander Harðarson sem fræddi okkur vel og innilega um kvennalið Chelsea. Einnig var hitað upp fyrir leikinn gegn Leicester og fjallað um leikina gegn Arsenal og Man City. Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hérna neðst og einnig á öllum helstu hlaðvarpsveitum.


Það er alveg sérstaklega leiðinlegt að tapa fyrir Arsenal. Það er ennþá leiðinlegra að tapa fyrir einhverju slakasta Arsenal liði síðari ára og það báðum leikjum tímabilsins. En það er engu að síður staðreyndin, við tökum 0 stig úr þessum tveimur leikjum gegn Arsenal.


Leikurinn í gærkvöldi var slakur en hann hefði ekki þurft að vera það. Ef Kai Havertz hefði nýtt færið sitt í fyrri hálfleik og komið okkar mönnum yfir þá hefði leikmynd leiksins breytst mikið. Mistök Jorginho voru dýr og hann á að vita betur. Allir þeir sem hafa æft fótbolta lengur en 5. flokk vita að þú gefur ekki til baka á markið sjálft þegar sent er á markmanninn. Þess vegna var staðsetning hans Kepa í góðu lagi og sökin öll Jorginho.


En að lenda undir á móti þessu Arsenal liði á ekki að vera neinn dauðadómur. En það vantaði neistann, kraftinn og áræðnina sem einkennt hefur liðið upp á síðkastið. Svo vantaði líka bara heppni. Chelsea hefðu getað fengið vítaspyrnu þegar Holding augljóslega ver boltann með hendinni eftir skot Mount. Okkur tókst líka að skjóta tvisvar í marksúlurnar í sömu sókninni – eflaust er hægt að kallað þessa frammistöðu bara „stöngin út“ í heild sinni.


Hvað þýða þessi úrslit?

Eftir sigur Liverpool á Man Utd fyrr í kvöld má segja að búið sé að opna baráttuna upp efstur fjögur sætin upp á gátt. Liverpool á þrjá leiki eftir og geta mest farið í 69 stig, West Ham eiga einnig þrjá leiki eftir og geta hæst farið í 67 stig. Leicester eiga svo tvo leiki eftir og geta með tveimur sigrum farið upp í 72 stig. Chelsea eru sem stendur í fjórða sætinu með 64 stig, við eigum tvo leiki eftir, m.a. gegn Leicester og gætum því farið upp í slétt 70 stig.


Það má eiginlega segja að það bíði okkar tveir úrslitaleikir gegn Leicester City. Annars vegar núna á laugardaginn um FA bikarinn og svo á þriðjudaginn 18. maí upp á sæti í Meistaradeild Evrópu!


Liverpool á létta leiki eftir og maður hreinlega gerir ráð fyrir að þeir nái 69 stigum. Við verðum því að vinna okkar tvo síðustu leiki, gegn Leicester og Aston Villa, ef við gerðum það, þá tryggjum við okkur 3. sæti deildarinnar.


Það þýðir hins vegar lítið að dvelja við þennan leik – núna fer allur fókusinn á úrslitaleikinn á Wembley!


Einkunnir leikmanna

Kepa – 6

T. Silva – 6

Azpilicueta – 6

Zouma – 5

Jorginho – 4

Gilmour – 6

R. James – 6

Chilwell – 6

Mount – 5

Pulisic – 5

Havertz – 4


Hudson-Odoi - 6

Giroud - 6

Ziyech - 7


KTBFFH

- Jóhann Már



bottom of page