top of page
Search

Skelfilegt tap gegn WBAÞvílík örlög að þurfa að rita þessa leikskýrslu. Ég blandaði mér tvöfaldan Tom Collins til þess að nenna því að byrja á þessu...


Þegar West Bromwich Albion, með Sam Allardyce í broddi fylkingar, mættu á Stamford Bridge í dag þá voru þeir búnir að skora 20 mörk í 29 leikjum - sem er í besta falli hroðalegt. Þegar þeir yfirgáfu Brúnna í dag voru þeir heilum FIMM mörkum ríkari.


Ég nenni ekki að rekja gang leiksins frá A - Ö. En eftir að Christian Pulisic kom okkar mönnum yfir á 27. mín hélt ég að þessi leikur myndi enda sem öruggur sigur - líklega hafa flestir verið sammála mér. En aðeins tveimur mínútum seinna gaf slakur dómari leiksins Thiago Silva sitt annað gula spjald. Þetta spjald var fáranlega "soft" og stórfurðulegt að VAR megi ekki skipta sér af seinna gula.


Gestirnir byrjuðu strax að banka á dyrnar og í uppbótartíma fyrri hálfleiks, sem var einhverjar 5 mínútur, voru þeir búnir að skora tvö mörk. Var þar að verki þeirra besti maður, Matheus Pereira, sem skoraði bæði mörkin. Leikurinn var svo "game-over" á 63' mínútu þegar Callum Robinson skoraði 3-1. Diagne og Robinson bættu svo við tveimur öðrum mörkum en í millitíðinni hafði Mount minnkað muninn eftir undirbúning Werner.


Hörmulegt tap!


Umræðupunktar

  • Að vera einum manni færri með 1-0 forystu gegn botnliði á ekki að vera flókin útfærlsa fyrir jafn öflugt lið og Chelsea. Okkar menn áttu bara að þétta sig, standa á 16 metrunum, drekka í sig pressuna og beita flugbeittum skyndisóknum - rétt eins og við gerðum t.d. gegn Liverpool.

  • Eitt allsherjar panikk ástand átti sér stað í uppbótartíma síðari hálfleiks þar sem Jorginho, Zouma og R. James voru í aðalhlutverki. Það var eins og fyrsta mark WBA hafi hreinlega rotað okkar menn en það var einkar klaufalegt.

  • Jorginho spilaði einn sinn lélegasta leik í treyju Chelsea - slakar sendingar hans urðu til þess að T. Silva lenti í þessum aðstæðum sem uppskáru gulu spjöldin.

  • WBA hefur skorað 8 af 25 mörkum sínum gegn Chelsea - þetta eru 32% af öllum mörkum þeirra. Ég hreinlega veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta!

  • Skiptingar Tuchel voru stórfurðulegar en þær útskýrast líklega mest á meiðslum Pulisic.

Einkunnir leikmanna

Mendy - 5: Eins furðulegt og það nú er þá átti Mendy ekki mikla möguleika í mörkin.


Zouma - 3: Skelfilegur leikur hjá Zouma sem var hikandi og óöruggur á boltanum allan leikinn. Átti beina sök að fyrsta marki WBA sem var Lengjudeildar varnarleikur hjá Frakkanum.


Azpilicueta - 4: Það vantar aldrei baráttuna í Azpi, en þetta var slakur leikur hjá honum. Lét Pereira fífla sig einum of oft.


Thiago Silva - 5: Ég hef vissa samúð með Silva því mér fannst þetta seinna brot ekki verðskulda gult spjald. Var samt mjög ryðgaður.


Alonso - 4: Lét allksonar miðlungsleikmenn WBA fífla sig út um allan völl. Var óheppinn að skora ekki - hækkar því um einn heilan m.v. Zouma.


R. James - 4: Byrjaði ágætlega en var svo skelfilegur þegar á leið.


Jorginho - 4: Eins og fyrr segir, einn hans versti leikur í treyju Chelsea. Kom Silva í svakaleg vandræði og gerði mjög illa í öðru marki WBA. Hefði átt að vera skipt útaf í hálfleik.


Kovacic - 5: Króatinn var skelfilegur í fyrri hálfleik en var einn af þeim sem reyndi í þeim síðari - hann breytist samt í Lengjudeildarspilara þegar hann sér markið.


Pulisic - 6: Skoraði loksins mark og átti þokkalega spretti inn á milli. Var skipt út af í hálfleik vegna meiðsla. Er að verða einn allsherjar meiðslapési.


Ziyech - 6: Ekki við Ziyech greyið að sakast, var fórnað eftir hálftíma til þess að setja Christensen í vörnina. Vel hann mann leiksins - því þegar hann fór af velli vorum við að vinna!


Werner - 4: Heillum horfinn mest allan leikinn. Þegar 36 ára gamall Ivanovic tekur þig á sprettinum, þá er eitthvað mikið að. Myndi gefa honum 3 í einkunn ef ekki væri fyrir stoðsendinguna á Mount.


Christensen - 4: Var fíflaður all hressilega í einu marka WBA og náði ekki að binda vörnina saman.


Mount - 6: Skoraði fínt mark og barðist eins og ljón, en það bara dugði engan veginn til.


Havertz - 5: Ég mundi ekki eftir því að Havertz hefði komið inn á fyrr en ég leit á Live Score appið. Gerði ekki rassgat.


Next up - Meistaradeildin. Eins gott að menn mæti þar með hausinn rétt á skrúfaðan.


Gleðilega Páska


KTBFFH

- Jóhann MárComments


bottom of page