top of page
Search

Sigur í ,,úti" leiknum gegn Porto - Leikskýrsla og einkunnir



Gangur leiksins

Leikmenn Porto voru án tveggja sinna bestu manna í gær er við heimsóttum þá til Spánar á heimavöll Sevilla. Gangur leiksins í upphafi var nokkuð eins og ég bjóst við, þ.e.a.s. okkar menn varkárir og Porto snældu vitlausir með blóðbragð á tungunni. Þeir pressuðu okkur stíft út um allan völl. Porto voru gríðarlega þéttir fyrir, þau fáu skipti sem við náðum að spila okkur upp völlinn þá stjórnuðu þeir miðjunni gríðarlega vel. Porto sýndu þó nokkrar sprungur í brynjunni sinni og gáfu okkur nokkur færi á að komast hratt upp völlinn.


Porto náðu að koma sér í nokkur hálffæri og uppskáru sex hornspyrnur í fyrri hálfleik einum og sér. Blái herinn virkaði á tíma stressaður og ekki alveg vissir um hvernig þeir ætluðu sér að sækja fram. Það verður að segjast að Porto voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og var það því þvert á gang leiksins sem við uppskárum mark frá Mason Mount eftir góða sendingu frá Jorginho og Mount kláraði sitt frábærlega. Var þetta eina skot okkar á markið í hálfleiknum sem gefur góða mynd af því hversu vel Porto héldu okkur niðri.


Svipuð saga hélt svo áfram í seinni hálfleik, þó voru okkar menn með meiri sjálfstraust varnarlega og voru töluvert stöðugri. Um miðjan seinni hálfleik henti Bragðarefurinn Pulisic og Konungi Lundúna inná og við það límdist leikur okkar töluvert betur saman sem gerði okkur kleift að byggja sóknarleik okkar betur upp. Við óðum kannski ekki í færum en Pulisic gerði gríðarlega vel í skyndisókn og var óheppinn að skora ekki bráðfallegt mark en knötturinn söng í tréverkinu í stað netmöskvanna. Það var svo einstaklings framtak frá Torres, nei ég meina Chilwell sem sigldi sigrinum í höfn. Gerði hann virkilega vel í pressunni og vann boltann rétt fyrir utan teig Porto og spilaði sig fram hjá Marchesin, markverði Porto og lagði boltann í netið, virkilega snyrtilega klárað hjá Torres…..ég meina Chilwell.


Heilt yfir voru Porto betri í leiknum og við einfaldlega stálum þessum leik þar sem bæði mörkin voru gegn gangi leiksins.


Umræðupunktar:

  • Enn og aftur mæta Þjóðverjarnir til leiks hlaðnir púðurskotum. Þó til að gæta sanngirni þá voru Porto menn það þéttir fyrir að ég efa að nokkur af okkar strikerum hefðu náð betri árangri inn á vellinum. Samt bitlaus frammistaða.

  • Enn og aftur stígur gullkálfurinn hann Mount upp þegar við þurfum á honum að halda. Þeir sem eru enn að efast um hans ættu bara að fá sér snuð, hætta þessu væli og skammast sín. Hann er okkar ALLRA verðmætasti leikmaður.

  • Enn og aftur sjáum við flottan leik frá Kovacic. Þessi frábæri Króati virðist ekki ætla að stíga feilspor undir handleiðslu TT. Hann var yfirvegaður og klókur á boltanum þegar kom að því að spila sig úr rosalegri pressu Porto.

  • Jorginho fær líka klapp á bakið fyrir sína frammistöðu. Gerði rosalega vel í aðdraganda marksins frá Mount. Ég myndi lýsa þessu sem falinni frammistöðu, engin flugeldasýning en vann sína vinnu gríðarlega vel

  • Mendy, hafði lítið að gera í leiknum og þurfti að verja nokkra bolta en voru þeir voru samt nokkurn veginn beint af æfingarsvæðinu fyrir Heimaklettinn.

  • Ef þessi frammistaða Chilwell geirneglir hann ekki í byrjunarliðið næstu leiki þá legg ég til að Bragðarefurinn verði rassamældur. Hann vann sýna vinnu gríðarlega vel varnarlega og þá sérstaklega sóknarlega 😊 Eitthvað segir mér að hann eigi eftir að stinga puttanum í matinn hans Werner á næstu æfingu og bjóðast til að kenna honum hlut eða tvo.

Einkunnir

Byrjunarliðið

Mendy – 7

James – 7

Azpilicueta – 6,5

Rudiger – 6,5

Christiansen – 6,5

Chilwell – 8,5 - Maður leiksins

Kovacic – 8

Jorginho – 8

Werner – 5,5

Mount – 8

Havertz – 6


Varamenn

Giroud - 6

Pulisic – 6,5

Kante – 7,5

Silva -- 6

Emerson – Spilaði ekki nógu mikið til að fá einkunn


- Snorri Clinton


bottom of page