Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagur 7. apríl kl: 16:30
Leikvangur: Bramall Lane, Sheffield
Dómari: Robert Jones
Hvar sýndur: Síminn Sport 2
Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason
Það hefur sýnt sig í vetur að það er aldeilis tilfinningarússíbaninn að halda með Chelsea football club. Leikurinn gegn Manchester United í vikunni fer í sögubækurnar. Aðdáendur liðsins fóru í gegnum sorgarferlin fjögur á meðan leiknum stóð. Liðið komst í 2-0 með mörkum frá Conor Gallagher og Cole Palmer, sem skoraði úr frekar ódýrri vítaspyrnu, ef við eigum að vera alveg heiðarlegir. Mesta furða að ástralski dómarinn var ekki sendur í VARsjánna til að athuga það betur. Garnacho og Bruno Fernandes náðu svo að jafna muninn fyrir Man Utd. Þar kom bersýnilega í ljós hvað varnarmennirnir í liðinu okkar geta verið feykilega miklir pappakassar. Badiashile virðist bara ekki vera leikmaður fyrir þessa deild. Axel Disasi nær frammistöðum endurum og eins. Einn daginn finnst maður eins og hann sé Alessandro Nesta endurfæddur, fagnandi góðum tæklingum og hendir sér fyrir hættulega bolta. Maður er varla búinn að sleppa orðinu þegar hann mætir svo með silfurfatið í næstu sókn. Þá virðist einhver bumbuboltaára hvíla yfir honum. Í þriðja marki United, kom stoðsending aldarinnar frá Anthony - af öllum mönnum, á Garnacho þar sem Malo Gusto og Disasi hefðu getað gert betur. Einnig setur maður spurningamerki við Petrovic fyrir að vera soldið ragur við að ráðast á boltann. 3-2 var staðan og venjulegur leiktími liðinn. Myrkur og mannaskítur!
Síðan gerist eitthvað það ótrúlegasta sem ég man eftir. Noni Madueke hægeldar Diogo Dalot. Reyndar voru Cole Palmer og Malo Gusto líka búnir að gera það allan leikinn. Í árás Madueke lendir sá portúgalski í því að detta á Madueke og vítaspyrna var dæmd. VAR tekur sér nægan tíma til að fara yfir það mál en á endanum er vítið staðfest og Palmer skorar af öryggi. Svo í næstu sókn vinna Chelsea boltann í miðjunni og skeiða upp völlinn og fá horn. Af einhverjum ástæðum var Cole Palmer ekki dekkaður og Mason Mount var seinn til verka. Palmer skoraði og einhver ótrúlegustu úrslit á Brúnni voru staðreynd 4-3. Þrátt fyrir allt fannst Erik Ten Haag sitt lið vera það betra, þótt staðreyndir benda til annars. Svakalegur sigur Chelsea staðreynd. Sá fyrsti á Manchester United í deildinni í alltof mörg ár. Þetta var svo sætt. Að hlusta á stuðningsmenn Manchester United í hlaðvörpum landsins í vikunni var einhvernveginn ennþá sætara. Að sjá lið sem er hugsanlega í meiri vandræðum en okkar lið er grátbroslegt. Svo skal böl bæta með að benda á annað!
Framdundan er útileikur við Sheffield United. Án efa, lélegasta lið deildarinnar sem á ekkert erindi. Getum við búist við sigri? Alls ekki. Chelsea eru nefnilega til alls líklegir þegar kemur að því að valda vonbrigðum. Sérstaklega í útileikjum gegn "lélegri" liðum. Við munum hvernig fór gegn Nottingham Forest (á Brúnni!), Everton, Middlesborough og svo framvegis. Leikurinn er með því allra mest óspennandi móti og hugsast getur. Fyrri viðureign liðanna fór 2-0 á Brúnni. Ég hreinlega þori ekki að spá fyrir um þennan leik. Maður fyllist nánast hjátrú við að spenna væntingarnar upp. Það má búast við því að Pochettino hreyfi eitthvað við liðinu og fáir ferskar lappir. Thiago Silva er búinn að verma bekkinn í fimm leiki í röð. Það er augljóst að sá argentínski telur hann vera dragbít á heildarspilinu, en þegar hann notar Gøg og Gokke frá Monaco í miðvarðarstöðunum, þá eru þeir tilbúnir með silfurfatið. Hinsvegar finnst mér líklegra að hann haldi tryggð við Disasi og noti Chalobah að þessu sinni. Sterling og Madeuke er líklegir í liðið til að hvíla Mudryk og annað hvort Enzo eða Caicedo, á meðan Gallagher fer aftar á miðjuna. Það væri samt áhugavert að gefa Casadei sénsinn því þetta ætti að vera leikur fyrir hann. Aðrar hrókeringar eru ólíklegar í ljósi þess hversu mikil meiðsli eru enn til staðar. Byrjunarliðið ætti því að vera Petrovic, Cucurella, Chalobah, Disasi, Gusto, Caicedo, Gallagher, Sterling, Palmer, Madueke og Jackson.
Hvernig fer leikurinn? Hjátrúin blokkar allar spár í augnablikinu. Sjáum hvað setur! Áfram Chelsea!
Commentaires