top of page
Search

Shamrock Rovers

Keppni: Evrópska Sambandsdeildin

Tími, dagsetning:  Fimmtudagur 19. desember 2024 kl. 20:00

Leikvangur: Stamford Bridge, London 

Dómari:   TBC

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 2

Upphitun eftir: Hafstein Árnason



Sigurganga Chelsea heldur áfram og núna eru gagnrýnisraddirnar þagnaðar. Háðsglósunum hefur heldur betur fækkað með hverjum leiknum og allt í einu eru aðdáendur annara liða orðnir, tjah, smá óttaslegnir? Leikurinn gegn Brentford um liðna helgi var kærkominn sigur, sem er heldur úr takti við fyrri viðureignir liðanna á undanförnum misserum. Það sem var ánægjulegast við þennan leik var hvað Robert Sanchez var öflugur í leiknum. Hann varði nokkrum sinnum fanta vel og gerði eiginlega engin mistök, eða að minnsta kosti, engin afdrifarík mistök. Chelsea þjörmuðu að Brentford í fyrri hálfleik með algjörum yfirburðum. Thomas Frank og félagar voru mættir til að parkera rútunni á teignum. Spiluðu mjög þétt yfir miðjusvæðið til að loka á allt spilið þarna, en létu kantana vera opna. Madueke og Jadon Sancho náðu ekki alveg að færa sér það í nyt eins og maður hefði viljað, en það komu nokkur góð færi, m.a. eitt sem Madueke hefði átt að skora úr, einn gegn Flekken í markinu. En fyrsta markið kom þó á endanum, og úr ólíklegustu átt. Fyrirgjöf af kanti og enginn annar en sá hárprúði Marc Cucurella henti sér nánast í flugskalla sem hafnaði í netinu. Óverjandi fyrir Flekken.


Cucurella fagnar skallamarki

Upptakturinn í seinni hálfleik var með svipuðu sniði. Bryan Mbuemo var þó handfylli að eiga við í skyndisóknum hvað eftir annað. Brentford færðu sig upp skaftið eftir því sem lengra dróg á seinni hálfleik. Í raun mætti segja að þarna gæti maður gagnrýnt Maresca fyrir að rótera liðinu ekki nóg. Enzo Fernandez sendi afbragðssendingu í kanalinn fyrir Nico Jackson sem þakkaði fyrir sig með góðu slútti, eftir að hafa brennt af tveimur dauðafærum fyrr í leiknum. Það var ekki fyrr en þá að Maresca þorði að breyta liðinu og setti Nkunku inná í stað Jackson. Fram að því höfðu Brentford skipt út fjórum leikmönnum og þá kom meiri orka í þeirra spil. Það endaði á því að Mbuemo náði loksins að skora og hleypa leiknum upp í þónokkra spennu. Á þessum tímapunkti í leiknum hefði maður viljað sjá Maresca rótera liðinu meira til að fá ferskari lappir inn á völlinn. Þó var úrvalið á bekknum ekkert sérstaklega gott. Joao Felix ekki í hóp vegna smávægilegra meiðsla, Mudryk veikur, Neto í banni. Hann treysti ekki Dewsbury-Hall, né Renato Veiga. Kannski útaf flugþreytu frá Kasakstan. Marc Cucurella reyndist svo algjör örlagavaldur í uppbótartíma sem var hátt í 10 mínútur. Á lokametrunum hljóp hann viljandi á leikmann Brentford og sótti aukaspyrnu. Í raun frekar ódýrt "brot", eiginlega meira leikaraskapur, ef við eigum að vera heiðarlegir. Fram að þessu höfðu leikmenn liðanna stimpast mikið í föstum leikatriðum. Menn að ýta hvor öðrum og testósterón stemmningin orðin full mikil. Við lokaflautið sauð allt uppúr með þeim afleiðingum að Cucurella hefur sagt eitthvað, eða gert eitthvað sem verðskuldaði hans seinna gula spjald, og þar með rautt. Það var óþarfi. En þrír punktar eru þrír punktar og við erum aðeins tveimur frá Liverpool. Ef liðið sigrar Everton í næstu umferð, þá vermum við toppsætið - ef til vill í smástund þar sem Liverpool á leik aðeins eftirá.


Framundan er síðasti leikurinn í riðlakeppni Sambandsdeildarinar. Þar tökum við á móti íslandsvinunum í Shamrock Rovers. Írarnir frá Dublin hafa komið tvíveigis til Íslands á liðnum árum, fyrst 2023 þegar liðið lék gegn Breiðablik heima og að heiman, svo aftur núna fyrr í sumar þegar Víkingur dróst gegn þeim í Meistaradeildinni. Það er skemmst frá því að minnast að Nicolaj Hansen hefði getað eyðilagt evrópuævintýri Íranna með því að skora úr vítaspyrnunni sem Víkingur fékk á lokamínútum þess einvígis, en greyið Daninn skaut í stöngina eftirminnilega. Hefði hann skorað, þá hefði einvígið mögulega farið á annan veg, og leið íranna ekki verið eins farsæl eins og raun ber vitni. Það er í raun ótrúlegt að segja það, en líkt og Chelsea, þá eru Shamrock Rovers ósigraðir í Sambandsdeildinni. Undirritaður var svo lánsamur að kynnast nokkrum starfsmönnum Shamrock í gegnum við einvígið Breiðablik frá 2023. Ryan McDyer (fylgið honum á twitter hérna) er gallharður stuðningsmaður Rovers og ritar oft leikjadagskrá Shamrock Rovers (e. matchday program) og er í tengslum við samfélagsmiðlateymið hjá liðinu. Við ákváðum því að spurja hann álits um einvígið gegn Chelsea. Ryan nefndi sérstaklega að liðið byrjaði tímabilið mjög brösulega vegna meiðsla margra leikmanna í byrjun móts. Til að mynda hefur Rory Gaffney (þessi stóri rauðhærði) verið meiddur allt tímabilið. Liðið var til að mynda um miðja deild í írsku úrvalsdeildinni þegar liðið lék gegn Víking, en það endaði tímabilið í öðru sæti, nú í nóvember, á eftir lærisveinum Damien Duff í Shelbourne. Árangurinn í Sambandsdeildinni hjá Shamrock Rovers, er hreint út sagt magnaður. Ryan og félagar framkvæmdu könnun á netinu meðal aðdáenda, hvað þeir teldu líklegan stigafjölda liðsins. Flestir voru á því að liðið myndi fá sjö stig í riðlinum.



Andlit kjósenda fjarlægð af mynd. Mynd frá Ryan McDyer

Annað hefur komið á daginn, liðið gerði 1-1 jafntefli á Tallaght vellinum í Dublin gegn kýpverska liðinu APOEL. Þeir sigurðu Larna frá Norður Írlandi 4-1 á útivelli og welska liðið The New Saints 3-0 á heimavelli. Svo kom stóri sigurinn, sem var samt jafntefli, en liðið gerði þá 1-1 jafntefli við Rapid Vín frá Austurríki. Ryan segir það vera sennilega stærsta áfangasigur liðsins, síðan það vann Partizan Belgrad árið 2011. Í næstu umferð sigraði liðið Borac Banja Luka frá Bonsíu nokkuð örugglega á Tallaght. Þeir sitja núna í 6. sæti með 11 stig, öruggir um að komast áfram og eiga eftir leikinn gegn Chelsea á Stamford Bridge. Þessi vítaspyrna hjá Nicolaj Hansen situr enn í manni, þegar maður hugsar um hversu frábær árangur þetta er fyrir frændur okkar í Írlandi. Ryan segir að það sé uppselt hjá Shamrock liðum, þannig að 3000 Írar mæta laufléttir á Brúnna.


Johnny Kenny

Aðspurður um þrjá hættulegustu leikmenn Shamrock, þá nefndi Ryan sérstaklega Johnny Kenny. Ungur írskur framherji, sem skoraði 13 mörk í deildinni, en hefur verið alveg leiftrandi í Sambandsdeildinni með fimm mörk. Hann er á láni frá Glasgow Celtic í Skotlandi og hefur tekið miklum framförum á þessu tímabili. Kannski ætti Heimir Hallgrímsson að hafa augastað á þeim pilti. Hann er ekki ýkja stór, líkt og hnullungurinn Rory Gaffney. Hann er 177 cm, og spilar af öxlinni. Vafalaust með hugrekki til að valda okkar varnarmönnum allskonar vandamálum.


Dylan Watts

Ryan nefndi líka Dylan Watts, miðjumann sem var kosinn leikmaður ársins í írsku deildinni. Hann hefur leikið óaðfinnanlega og náð að skora tvö mörk í Sambandsdeildinni. Klárlega potturinn og pannan í öllu spili Shamrock Rovers. Að lokum nefndi Ryan svo fyrirliðann og varnartröllið Robeto "Pico" Lopes. Sá er fæddur í Írlandi, en á föður frá Grænhöfðaeyjum. Það gerði hann gjaldgengan í landslið Grænhöfðaeyja og hann byrjaði árið á því að leika á AFCON með þeim. Hann er því einn af tveimur landsliðsmönnum í liðinu og bindur vörnina saman. Hinn landsliðsmaðurinn er hinn eistneski Markus Poom (sonur Mart Poom).


Pico Lopes

Shamrock Rovers hafa leikið iðulega með þriggja manna vörn, 3-5-2 uppstilling og hafa því ýmist spilað djúpt og varist vel gegn góðum liðum, en gegn veikari andstæðingum finnst þeim gaman að spila boltanum og vera aggressífir. Leikstíllinn þeirra er því talsvert langt frá 442-kick-and-run, sem þykir vera hinn hefðbundni leikstíll á Írlandi. Það verður því mjög áhugavert að sjá hvernig Írarnir koma til með að spila gegn Chelsea, því þeir hafa í raun engu að tapa, sem og Chelsea. En líklegt þykir að Maresca muni örugglega gefa akademíuleikmönnum fleiri tækifæri, sem og Marc Cucurella fyrir að næla sér í leikbann. Ef við rýnum í uppstillinguna, þá er líklegt byrjunarlið hjá Chelsea svona: Jörgensen verður í markinu. Josh Acheampong í hægri bakverði. Disasi og Badiashile miðverðir. Cucurella vinstri bakvörður. Miðan verður líklegast Dewsbury-Hall, Carney Chukwuemeka og Cesare Casadei. Christopher Nkunku, Marc Guiu og Tyrique George líklegast frammi. Hvernig fer leikurinn? Ætli það verði ekki eitthvað stórkostlegt upset? Segi 2-2 þar sem Kenny skorar tvö og Nkunku og Guiu sitthvort. Allir sáttir með góða frammistöður í riðlakeppninni í frekar ligeglad leik.


Áfram Chelsea!


Comments


bottom of page