top of page
Search

Real Madrid vs Chelsea


Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: 12. Apríl kl 19:00

Leikvangur: Santiago Bernabeu

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport , ÖLVER

Upphitun eftir: Snorra Clinton





Chelsea

Hef sagt það áður og segi nú aftur…..“Myrkur og mannaskítur!!“. Þetta lýsir best ástandi okkar þessa dagana. Eins og allir eiga að vita þá tók stjórn klúbbsins í gikkinn um daginn og henti Potter þveröfugum út. Það var líklega orðið verst geymda leyndarmálið á Englandi að hann fengi ekki annað tímabil með liðið, þar sem bókstaflega engin framför hefur átt sér stað frá því að hann tók við. Þó kom það kannski flestum á óvart, að hann hafi ekki fengið að klára tímabilið. En við gáfum Bruno Saltor tækifærið á móti Liverpool á meðan leitað yrði að nýjum stjóra. Það má ætla að stjórnin ætli sér að vanda töluvert betur til verka við valið á næsta stjóra, og þar sem Saltor hefur aðeins einu sinni stillt upp byrjunarliði þá var metið svo að hann væri langt frá því að vera nógu hæfur, til að sitja í stjórastólnum í rimmunni gegn Real Madrid. Stjórnin ákvað því að það væri góð hugmynd að fá Frank Lampard aftur til að stýra liðinu út tímabilið. Það eru eflaust misjafnar skoðanir á því og er ég einn af þeim sem skilur ekkert í þeirri ákvörðun, en skoðanir eru eins og rassgöt, það eru allir með svoleiðis.


Endurkoma Lampard byrjaði aftur á móti skelfilega á móti Wolves á útivelli. Það var fátt í byrjunarliðinu sem kom á óvart fyrir utan kannski að Mount og Kante voru ekki í hóp og Ben Chilwell byrjaði á bekknum. Mount var líklega ekki leikfær og verið að passa upp á ástandið á Kante. Sá síðarnefndi verður okkar mikilvægasti leikmaður á móti Real, það er nokkuð ljóst. En aftur að Wolves leiknum. Að horfa á þann leik var eins og að horfa á lestarslys í slow motion, þvílíka hörmungin. Leikmenn Chelsea hlupu út um allan völl og voru jafn stefnu- og hugmyndalausir eins og hauslausar hænur. Það er því óhætt að segja að "new manager bounce" sé ekki eitthvað sem við náum að upplifa. Það er því augljóst að við þurfum að laga helvíti marga hluti, ef við ætlum okkur eitthvað á móti Real Madríd í komandi viðureign. Við höldum því áfram að festa rætur við miðja deild eða í 11. sæti með 39 stig. Við getum reynt að sýna smá bjartsýni og líta svo á að við séum 1 stigi frá því að tryggja okkur áfram í PL á næsta ári. En gárungarnir vilja meina að heilt yfir sé öryggistalan 40 stig.





Lampard sat fyrir svörum blaðamanna rétt í þessu og fór yfir málin fyrir leikinn. Hann staðfesti að Thiago Silva, Mason Mount og Ngolo Kanté séu allir tilbúnir og færir til að taka þátt í leiknum á morgun. Það verður því fróðlegt að sjá hvort Lamps hendi Gullkálfinum sínum beint í byrjunarliðið eða hvort hann komi inná seinna í leiknum.


Mér þykir því líklegt að byrjunarliðið verði einhvern veginn svona. Lamps mun halda áfram sölu uppstillingu í 4-3-3'ish kerfi. Kepa í markinu með James, Koulibaly, Fofana og Chilwell aftast. Á miðjunni verða Kova, Enzo og okkar allra besti Kanté. Fremstu þrír verða svo Sterling, Felix og Kai. Margir hafa þó réttilega gagnrýnt Kai fyrir ömurlegar frammistöður upp á síðkastið en sú ískalda staðreynd er sú að við eigum engan til að spila í hans stað.




Real Madrid:

Spænsku ommuletturnar frá Madríd sitja þessa stundina í 2. sæti í La Liga 13 stigum frá Barcelona. Í síðustu fimm leikjum í deildinni hafa þeir unnið aðeins tvo leiki, tapað tveimur og með eitt jafntefli. Þeir eru því á smá brothættum stað. Við skulum samt ekki gleyma því, að ef eitthvað lið kann að vinna meistaradeild Evrópu þá eru það þessir dónar. Það skiptir því litlu hvernig gengið er í deildinni hjá þeim er ég hræddur um. Papa Don Carlo Ancelotti er bara of fær þjálfari til að láta þetta hafa áhrif á liðið. Við þurfum að bera virðingu fyrir leikmönnum á borð við Dr. Ballon d´Or Benzema, Modric og Vinicius Jr. bara svona til að nefna einhverja nafni. Þeir fóru illa með okkur fyrir ári síðan á Brúnni og sendu okkur heim þrátt fyrir frábæran seinni leik okkar á Bernabéu. Við höfum sýnt það að við getum unnið þetta lið, spurningin er getum við það með Lampard á bakvið stýrið? Það mun koma í ljós.

Spá:

Mér reynist gríðarlega erfitt að finna ljósa punkta í augnablikinu sem gætu leyft mér að vera bjartsýnn hvað úrslit varðar. Þessi leikur verður líklega jafn hressandi eins fyrir okkur Chelsea menn eins og bráðanjálgur. Madrídingar munu sigla þessu heim öruggt að mínu mati og klára þetta 3-0

Comments


bottom of page