top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Qarabag FK gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 6 hours ago
  • 5 min read

Keppni: Meistadeildin, 4. umferð

Tími, dagsetning: Miðvikudagur 5. nóvember  kl. 17:45

Leikvangur: Tofiq Bahramov Republican Stadium, Baku, Azerbaijan

Dómari: Sebastian Gishimer (Austurríki)

Hvar sýndur: Sýn Sport

Upphitun eftir: Hafstein Árnason


ree

Það er komið, það er komið! Fimmti sigurnum í röð gegn erkifjendunum frá Tottenham! Laugardagskvöldið 1. nóvember 2025 varð enn eitt kvöldið sem Tottenham Hotspur völlurinn, einnig þekktur sem "Three Point Lane", breyttist í heimavöll Chelsea. 0-1 útisigur, þrír gullmolar á stigatöfluna í harðandi baráttu um topp 4 sæti. Hvernig gerðist þetta? Við skulum rifja upp þennan sæta sigur – með gleði og stolti. Leikurinn byrjaði af krafti en Tottenham missti Bergvall snemma vegna meiðsla og liðið átti erfitt með að finna taktinn. Á 34. mínútu mætti Moises Caicedo eins og naut í ródeó sýningu. Braut upp sókn Spurs, barðist um boltann og vann einvígi í tvígang af varnarmönnum Tottenham og sendi knöttinn hetjulega frá sér á João Pedro sem þrumaði tuðrunni í netið framhjá Vicario með fínni snertingu. 0-1 og fyrsta mark João Pedro síðan í september. xG-tölfræðin segir allt: Tottenham 0,05 - Chelsea 3,68. Þetta var eins og að horfa á meistaraflokk gegn þriðja flokki. Varnarleikur Chelsea var ótrúlegur. Spurs fengu aðeins þrjár skottilraunir og aðeins ein rataði á mark allan leikinn. Guglielmo Vicario var þó í miklu stuði og varði átta bolta og kom í veg fyrir stórtap. Chalobah, Fofana og Sánchez stóðu vaktina af öryggi, en Reece James stýrði miðjunni sem fyrirliði með 100% sendinganákvæmni og þremur lykiltæklingum. Á bekknum sýndu ungir leikmenn framtíðina: Jamie Gittens og Estevao komu inn seint og báðir sýndu glimrandi hæfileika. Gittens átti skot yfir á 93. mínútu í dauðafæri en lærir væntanlega af því og taka svona færum af meiri yfirvegun. Estevao var frábær í aðdragandanum. Raunar finnst manni alltaf meiri hætta þegar hann fær að leika boltanum, og Pedro Neto átti í raun frekar dapran leik þarna á hægri kantinum. Moises Caicedo var maður leiksins með réttu og maður furðar sig á því hverslags skrímsli þessi leikmaður er að verða. Hann er strax búinn skora meira en hann gerði allt síðasta tímabil. Hann er einnig að sýna okkur framúrskarandi tölfræði í varnarleiknum, eins og við var að búast, en önnur tölfræði er sláandi góð, en það sýnir hversu hratt hann ber boltann upp völlinn í samanburði við aðra leikmenn. Með þessu áframhaldi sýnir að hann verði betri en Claude Makelele og N'Golo Kante.


ree

Greyið Xavi Simons sem kom inná fyrir Bergvall og átti hræðilegan leik. Það kannski sýnir í dag, að stjórn Chelsea hafði á réttu að standa með því að draga þau leikmannakaup á langinn. Simons beið eftir símtalinu en það kom aldrei. Einhver hefur klárlega efast og reynst sannspár. Undir 60 kg. í þyngd sem telur undir fjaðurvigt í UFC, þá var ekkert mál fyrir nokkurn liðsmann Chelsea að hirða boltann af þeim hollenska. Hann virðist ekki vera með skrokkinn í Úrvalsdeildina. Greyið drengurinn á alla mína vorkunn. Leikurinn endaði á því að stuðningsmenn Spurs bauluðu á liðið sitt hvað eftir annað, og við lokaflautið ruku leikmenn til búningsherbergja í fússi, hunsuðu greyið Thomas Frank í 66°N jakkanum sínum. Það virðist vera reglan núna að sigra Tottenham heima og að heiman. Greyið stuðningsmenn þeirra á Íslandi. Þetta er svo brjóstumkennanlegt. Manni líður nánast illa við að gera grín að þessu. Að vera í banter gríni við stuðningsmenn Spurs, er eins og að gera grín að fötluðum börnum. Það getur verið fyndið, en það er eiginlega siðlaust.


ree

Meistaradeildin snýr aftur í þessari viku og að þessu sinni erum við að fara í ferðalag til Azerbaídsjan. Qarabag FK var stofnað árið 1951 í Ağdam (í Nagorno-Karabakh) og er ríkjandi meistari Azerbaídsjan (10 titlar síðan 2014) og eini aserski klúbburinn sem hefur leikið í Meistaradeildinni (fyrst 2017 í riðli með okkur, Benfica og Atletico Madrid). Klúbburinn varð tákn þjóðernisstolts í Nagorno-Karabakh-stríðinu þegar fyrra stríðið gegn Armeníu geisaði 1988–1994 (með yfir 30.000 látnum og milljón flóttamönnum) við upplausn Sovíetríkjanna. Það eyðilagði heimabæinn Ağdam, sem Armenar tóku og sprengdu leikvanginn, þannig að klúbburinn fluttist til höfuðborgarinnar Baku og kallaðist „Flóttamannaklúbburinn“. Azerar og Armenar hafa barist um svæðið þar sem Armenía hertók það, en þarna á milli urðu Azerar fastir í fjallahéruðum Nagorno, umkringdir Armenum, sem voru leppaðir af Rússum. Seinna stríðið 2020 (sex vikna átök með drónum, 7.000 látnir) og endurheimt Nagorno-Karabakh 2023 undir stjórn Azerbaídsjan (þar sem Rússar voru sokknir í átökum í Úkraínu), gerði Qarabag FK að fyrsta liðinu til að leika í bænum Khankendi (des. 2023) í Nagorno-Karabakh. Undir goðsagnakennda þjálfaranum (í azerskri knattspyrnusögu) Gurban Gurbanov hefur liðið unnið 17 titla, náð níu evrópskum riðlakeppnum og í ár unnið sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni, en það var 3-2 úti gegn Benfica og svo tóku þeir einnig FC Kaupmannahöfn á heimavelli. Liðið situr í 13. sæti í Meistaradeildinni með sex stig líkt og Chelsea. Liðið er einnig þekkt fyrir þá staðreynd að Hannes Þór Halldórsson staldraði stutt við 2018–2019 hjá klúbbnum. Hann byrjaði sem aðalmarkvörður en missti sætið eftir slakan leik gegn Sporting og fór heim í Val eftir níu mánuði með fjóra leiki á ferilskránni í Aserbaídsjan. Hannes sagði í viðtali við Vísi: „Mér var hent út eins og kúkableyju“. Ítarlegri frásögn Hannesar frá dvölinni í Baku má hlusta á í hlaðvarpinu Draumaliðið með Jóhanni Skúla Jónssyni.


Gurbanov þjálfarinn er merkilegur fyrir þær sakir að hann ákvað að breyta leikstíl Qarabag á sínum tíma og flutti inn erlenda leikmenn, andstætt þeirri menningu sem var ríkjandi á þeim tíma, að spila einungis á uppöldum leikmönnum. Hann spilar einnig flæðandi bolta sem hefur fært knattspyrnuna í heimalandinu á hærri stall. Í liðinu er pólskur markvörður Kochalski, miðvörður frá Kólombíu sem heitir Kevin Medina. Með liðinu leika einnig brassarnir Matheus Silva (bakvörður), Kady Malinowski, Dani Bolt og Pedro Bicalho (miðjumenn), úkraínski hægri kantmaðurinn Oleksii Kaschuk, vinstri kantmaðurinn Abdellah Zoubir frá Marokkó og í holunni er leikmaður frá Grænhöfðaeyjum, Leandro Andrade. Frammi er svo annar Kólombíumaður, Camilo Duran, en hann er tæpur fyrir þennan leik. Liðið er einnig skipað landsliðsmönnum Aserbaídsjan sem voru einnig rassskelltir af íslenska landsliðinu 5-0 í haust, en þar má nefna miðvörðinn Bahlul Mustafazade, bakverðirnir Elvin Jafarquliyev og Tural Bayramov og framherjarnir Narimann Akhundaze og Musa Gurbanly. Gurbanov þjálfari er því nokkurn veginn að stýra Sameinuðu þjóðunum í bland við uppalda, en þó með ágætum árangri. Síðast þegar hann mætti með liðið sitt á Stamford Bridge, þá var það árið 2017 þegar Antonio Conte stýrði liðinu. Fyrri leikurinn var í Baku fór 4-0 þar sem einn Azerana fékk rautt spjald, en í seinni leiknum steinlágu þeir 6-0. Meðal markaskorara í þeim leik voru hetjur á borð við Davide Zappacosta, Michy Batshuayi og Tiemoué Bakayoko (hans fyrsta og eina mark í Meistaradeildinni). Hvað getum við lesið í þetta lið? Það er erfitt að segja - lókal strákarnir eru ekki sérstakir ef marka mátti landsleikinn á Laugardalsvelli, en sigrarnir þeirra gegn Benfica og FC Kaupmannahöfn gefa tilefni til þess að liðið sé ekkert Sambandsdeildarlið. Ferðalagið til Baku frá London tekur líka tæpar sex klukkustundir sem hefur sitt að segja. Við búumst þó fastlega við því að Maresca stilli upp nokkuð sterku liði. Allir eru heilir nema Badiashile, Cole Palmer, Dario Essugo og auðvitað Levi Colwill. Líklegt byrjunarlið verður Robert Sanchez í markinu. Cucurella í vinstri bakverði. Reece James í hægri bakverði. Miðverðir verða Chalobah og Tosin, þar sem Fofana fær hvíld eftir frábæra frammistöðu. Caicedo og Lavia verða á miðjunni en við reiknum með Buonanotte í holunni í stað Enzo. Gittens fær sennilega traustið á vinstri og við sjáum fyrir okkur Estevao á hægri. Marc Guiu fær líklega að byrja leikinn í framherjastöðunni, þó það myndi ekki koma á óvart ef Delap myndi byrja til að fá mínútur í skrokkinn. Liðinu verður róterað eins mikið og það leyfir, eða krefst - eftir því hvernig gengur. Við segjum að þetta verði ekkert hálfkák. Leikurinn fer 3-0. Estevao, Guiu og Caicedo með mörkin.


Munið líka að leikurinn er nánast í Asíu og hann hefst 17:45. Góða skemmtun og áfram Chelsea! P.s. minnum enn og aftur á skráningar í Chelsea klúbbinn. Ef þú ert ekki búinn að skrá þig í félagið, þá ertu að tapa af tækifærum. Nánar um það á www.chelsea.is

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page