Keppni: Sambandsdeildin
Tími, dagsetning: Fimmtudagur 24. október kl: 16:45.
Leikvangur: Olympiako Stadio Spyros Louis, Aþenu
Dómari: António Emanuel Carvalho Nobre (Portúgal)
Hvar sýndur: Stöð 2 Sport 4,
Upphitun eftir: Hafstein Árnason

Okkur sannarlega ekki kápan úr klæðinu í leiknum gegn Liverpool um liðna helgi. Það verður þó að segjast að við erum að nálgast Liverpool liðið í frammistöðu og getu, sem er jákvætt útaf fyrir sig. Fyrir leikinn hefði maður sætt sig við jafnteli á Anfield. Robert Sanchez sýndi okkur að hann er ekki beinlínis heimklassa markmaður. Chelsea fengu víti á sig í fyrri hálfleik sem Mohamed Salah skoraði örugglega úr. Jadon Sancho fann sig ekki í þessum leik og var skipt útaf í hálfleik fyrir Pedro Neto. Romeo Lavia og Reece James fengu að byrja leikinn, nokkuð óvænt, þar sem þeir eru að stíga uppúr meiðslum en þeim var skipt útaf fljótlega seinni hálfleik. Nico Jackson skoraði rétt áður jöfnarmark og leikar stóðu 1-1. Liverpool voru þó fljótir að komast aftur yfir eftir bras í varnarleiknum. Curtis Jones skoraði annað mark Liverpool. Raunar áttum við í bölvuðu brasi með Curtis Jones því hann var allt í öllu á miðjunni og vann hvern boltann með áræðni. Mjög þreytandi að lítt þekktir leikmenn Liverpool séu að stela senunni í okkar leikjum. Síðast Conor Bradley og nú þetta með Jones. Það sem er jákvætt við þetta er að enginn talar Chelsea niður núorðið. Áfram gakk.

Framundan er heimsókn á ólympíuleikvanginn í Aþenu. Heimavöllur ólympíuleikanna í hinni fornfrægu borg Aþenu. Þar á liðið Panathinaikos sitt aðsetur. Panathinaikos þýðir Pan-Aþenski klúbburinn. Þarna hittum við kunnuga Íslendinga, þá Sverrir Inga Ingason og Hörð Björgvin Magnússon. Sverrir Ingi er auðvitað fastamaður í byrjunarliði Grikkjanna en Hörður Björgvin er enn að ná sér af krossbandameiðslum sem hann hlaut fyrir ári síðan. Liðið lenti nýverið í áfalli þegar enski leikmaðurinn þeirra og fyrrverandi leikmaður ÍBV - George Baldock, lést á heimili sínu nýverið. Þrátt fyrir það situr liðið í 6. sæti grísku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum á eftir toppliðum Aris og PAOK frá Þessalóniku. Í sambandsdeildinni eru Grikkirnir með aðeins eitt stig, eftir að hafa gert jafntefli við bosníska liðið Borac Banja Luka á útivelli. Þessi leikur verður því fyrsti heimaleikur Panathinaikos í Sambandsdeildinni þetta árið - og eins og við er að búast af aðdáendum gríska liðsins, verður væntanlega rafmögnuð stemmning á leiknum, eins og þeim er einum lagið. Leikmenn sem ber að varast hjá Panathinaikos eru klárlega Dede sem spilar yfirleitt í holunni og Filip Djuricic sem er á vinstri kantinum. Þeir hafa skorað hvor um sig þrjú mörk á þessu tímabili. Framherjinn þeirra Andraz Sporar hefur ekkert skorað neitt sérstaklega á þessu tímabili og það verður áhugavert að sjá hvernig úrúgvæinn Diego Alonso stillir upp Panathinaikos liðinu.

Eins og venjan segir, þá verða Fofana, Lavia og Cole Palmer ekki með, þar sem þeir eru utan hóps í Sambandsdeildinni að þessu sinni. Enzo Maresca var spurður á blaðamannafundi hvernig það væri að koma aftur til Grikklands, en hann lék einmitt með Olympiacos sem leikmaður tímabilið 2009-10. Maresca var einnig spurður út í markvarðastöðuna og það liggur ljóst fyrir að Filip Jörgensen muni standa á milli stanganna í markinu. Maður myndi halda að Marc Cucurella og Renato Veiga munu sinna markvarðastöðunum á meðan Axel Disasi og Benoit Badiashile sjá um miðvarðastöðurnar. Josh Acheapong verður ekki með að þessu sinni, og ekki heldur með unglingaliðinu, þar sem fréttir bárust af því að núna eru samningamálin hans komin í hart. Ef hann samþykkir ekki samningstilboðin sem liggja til grundvallar, þá er hann ekkert að fara spila neitt frekar á leiktíðinni - sem er heldur dapurleg niðurstaða, því hann er klárlega einn besti ungi leikmaðurinn í liðinu. En aftur að uppstillingunni, þá er sennilegt að Enzo og Caicedo sjái um miðjuna, þó svo ég útiloki ekki þátttöku Dewsbury-Hall á kostnað annars hvors, sennilega Caicedo ef maður reynir að rýna í þankagang Maresca. Mikki Mudryk verður líklega vinstri kantur, Joao Felix í holunni og Pedro Neto á hægri, og svo Christopher Nkunku uppá topp.
Það þýðir ekkert fyrir liðið að slá slöku við á útivelli þar sem allt verður gjörsamlega tryllt í stemmningunni. Ætli við segjum ekki að þetta verði 0-2 og ég myndi giska á að Joao Felix og Nkunku skori sitthvort markið.
Áfram Chelsea og KTBFFH!!
P.s. við minnum á skráningar í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Það er alltaf besta leiðin til að verða sér út um miða hjá Chelsea í gegnum Chelseaklúbbinn á Íslandi. Það er enn opið fyrir nýskráningar og þið sem eigið eftir að endurnýja, þurfið að girða ykkur í brók. Allar leiðibeiningar á www.chelsea.is
Comments