top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Nottingham Forest gegn Chelsea

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • 21 hours ago
  • 4 min read

Keppni:   Premier League

Tími, dagsetning:  sunnudagur 25. maí kl: 15:00

Leikvangur:   The City Ground, Nottingham, Nottingamshire 

Dómari:   Anthony Taylor 

Hvar sýndur:   Síminn sport 2

Upphitun eftir:   Þráinn Brjánsson



Það er ekki líklegt að við Chelsea aðdáendur munum eiga náðugan sunnudag. Síðasta umferðin í ensku úrvalsdeildinni verður leikin um helgina og oft hafa leikir verið mikilvægir, en sjaldan eins og núna þar sem við förum í heimsókn langleiðina í Skírisskóg og mætum Nottingham Forest í lokaleik deildarinnar. Við erum í bullandi samkeppni við þá um að vinna okkur inn sæti í Meistaradeild Evrópu að ári. Bæði lið eru í þeirri stöðu að þurfa jafnvel að treysta á hagstæð úrslit annara leikja til að tryggja sæti í Meistaradeild en sigur fyrir okkar menn fleytir þeim langt, en Newcastle og Aston Villa eru jöfn Chelsea að stigum og til alls líkleg og verðum við bara að vona að við löndum sigri, og vona að Aston Villa og Newcastle misstígi sig. Það sem gerir þennan leik sérstaklega spennandi (eða tragíkómískan, fer eftir sjónarhorni) er að eins og áður sagði eru bæði lið að berjast um Meistaradeildarsæti. Já þú heyrðir rétt. Chelsea liðið sem byrjaði tímabilið eins og fíll í sundlaug, og Forest sem keypti leikmenn eins og enginn væri morgundagurinn fyrir tímabilið, gæti líka farið út að leika með þeim stóru. En það er með enska boltann eins og svo margt annað að enginn veit fyrr en allt í einu. Nottingham Forest hafa verið sterkir á heimavelli og ef innbyrðis viðureignir félaganna er skoðaðar þá hafa þeir aðeins tapað einum af sjö síðustu leikjum gegn Chelsea en okkar menn hafa verið glataðir á útivelli sérstaklega eftir áramót og hafa skorað 5 mörk á útivelli frá áramótum. Chelsea á erfiðan leik fyrir höndum næstkomandi miðvikudag þar sem við mætum Real Betis í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar og þeir eru sýnd veiði en ekki gefin og verðum við að vona að menn verði ekki með hugann við þann leik á sunnudaginn. Ef einhver ætlar að horfa á þennan leik með von um taktíska snilld, slökktu þá strax . Ef þú hefur hins vegar gaman af drama, dassi af vonbrigðum, átökum og umdeildri dómgæslu þá gæti þetta orðið okkar Super Bowl. 



Chelsea

Chelsea hefur náð ákveðnum stöðugleika undanfarið, þeir vinna tvo leiki, tapa einum og þrír leikmenn meiðast í hverri viku og það er næstum eins og Maresca sé að spila Football Manager í “chaos mode” og við fáum að fylgjast með í beinni. Maresca hefur leikið sér að hugmyndum eins og “pressa”, “stutt spil” og “hvað ef við reyndum að skora fleiri mörk en andstæðingurinn?” og mesta furða hvað þetta hefur gengið upp seinnipart tímabils en hefði gjarnan viljað sjá þessa hluti gerast fyrr. Miðjan hefur verið brothætt og allt of oft hafa leikmenn verið eins og skólastrákar sem eru búnir að týna nestisboxinu sínu. Margar af breytingunum hafa jú skilað sér og það að færa Caicedo aftar og Reece James framar var afskaplega umdeild ákvörðun en ekki alslæm. Palmer er vonandi farinn í gang aftur eftir sögulega markaþurrð en jarðálfurinn Jackson verður fjarri góðu gamni eftir glórulaust brot í leik gegn Newcastle og gæti það haft veruleg áhrif, þar sem Nkunku hefur nú ekki verið að gera neinar rósir hingað til. Þetta er raunar rannsóknarefni þessi hegðun hjá Jackson í leiknum gegn Newcastle og verð ég að segja að ég held að þetta hafi ekki ýtt undir traust og áhuga Maresca til að halda þessum manni. En það er ekki hægt að taka það af okkar mönnum að þeir eru komnir þetta langt og eru í blússandi baráttu um sæti meðal þeirra bestu á næsta ári og ef svo fallega fer að við vinnum Sambandsdeildina þá væri skemmtilegur bónus að vera eina félagsliðið sem hefur unnið allar keppnir sem félagslið getur keppt í. Ég hef allavega góða tilfinningu fyrir leiknum gegn Forest og gleymum því ekki að við eigum ennþá inni besta leikinn á tímabilinu og upplagt að sýna okkur hann á sunnudag.



Nottingham Forest

Hið gamalgróna lið Nottingham Forest verða gestgjafar okkar þennan sunnudaginn en klúbburinn er hvorki meira né minna en 160 ára gamall og er að koma upp aftur eftir allmörg mögur ár en núverandi stjóri liðsins Nuno Espirito Santo hefur verið að gera aldeilis góða hluti og áttu ekki margir von á að þeir yrðu á þeim stað sem þeir eru á í dag. Í lok tímabils þar sem þeir enduðu í 17 sæti tímabilið 2023 - 2024 og eru klárlega eitt af spútnik liðum deildarinnar. Klúbburinn hefur gott bakland í aðdáendum sem láta sannarlega í sér heyra á leikjum og þykir City Ground vera ljónagryfja hin mesta. Það er ljóst að verkefnið í Skírisskógi verður engin ganga í garðinum og hver einasti leikmaður Chelsea þarf að eiga sinn besta leik. Forest er vel spilandi lið sem hefur á að skipa góðum leikmönnum og má þar nefna helsta þá Morgan Gibbs White, Chris Wood og Callum Hudson Odoi sem við bláliðar könnumst vel við.


Liðsuppstilling og spá:


Ég held að Maresca breyti voðalega lítið út af vananum varðandi uppstillingu og komi til með að spila 4 - 2 - 3 - 1 og Sanchez verði í markinu og haldi púlsinum háum með sínum umdeildu og stórskrítnu ákvörðunum og þar fyrir framan verða James, Tosin, Colwill og Cucurella. Þar fyrir framan verður tvíeykið Enzo og Caicedo og framan við þá verða þeir Palmer, Madueke og George og Neto byrjar fremstur en klárlega þa munu bæði Nkunku og Guiu koma við sögu en Maresca hefur gefið það út að þeir séu báðir klárir í slaginn. Ég ætla að klára tímabilið bjartsýnn og held að besti leikurinn komi loksins á sunnudaginn og leikurinn fer 1-3 og Palmer kemur með 2 og Cucurella hendir í eitt


Góða Skemmtun og áfram Chelsea !!


P.s. Kæru Chelsea aðdáendur á Akureyri. Við ætlum að hittast á Verksmiðjunni á Glerártorgi á miðvikudaginn þegar Chelsea mætir Real Betis í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar. Nánari upplýsingar í Chelsea á Íslandi facebook grúppunni okkar. Við hvetjum alla til að mæta. Chelsea menn á höfuðborgarsvæðinu eru að skipuleggja sín mál, og munum við hjá CFC birta þær upplýsingar þegar þær liggja fyrir.






 
 
 

Comentários


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page