top of page
Search

Nottingham Forest - Chelsea

Keppni:  Enska úrvalsdeildin

Tími, dagsetning:    Laugardagur 11. maí kl: 16:30

Leikvangur:   City Ground, Nottingham

Dómari: Tony Harrington

Hvar sýndur:  Síminn Sport

Upphitun eftir: Hafsteinn Árnason



Það er óhætt að segja að Chelsea hafi spilað frábærlega gegn West Ham á heimavelli um liðna helgi. Leikar enduðu 5-0 með mörkum frá Cole Palmer, Conor Gallagher, Noni Madueke og Nico Jackson sem skoraði tvö í leiknum. Jackson er þar með kominn í 13 mörk í deildinni á þessu tímabili, og framúr mörgum öðrum leikmönnum líkt og Darwin Nunez, Julian Alvarez svo einhverjir séu nefndir. Það er kannski ekki mikið að segja frá leiknum í sjálfu sér, nema það er ein eftirtektarverð breyting á málum. Hlutverk Marc Cucurella hefur breyst að því leytinu til að hann hefur fært sig meira inn á miðjuna til að styðja við Moises Caicedo á meðan Conor Gallagher færist ofar upp völlinn og Cole Palmer hliðrast þá nær Noni Madueke. Þetta skapar ákveðna yfirtölur á vellinum og Chelsea kemst í betri stöður til að pressa upp völlinn. Spekingar hafa gefið þessari ítarlegri skil. Í varnarstöðum hefur Cucurella verið afburða góður og látið finna vel fyrir sér. Í leiknum gegn West Ham vann hann boltann níu eða tíu sinnum í leiknum. Sannarlega erum við að sjá bara núna afhverju klúbburinn eyddi fúlgum fjár í leikmanninn sem á radarnum hjá Manchester City.


Thiago Silva lék gríðarlega vel í leiknum og uppskar heiðursskiptingu. Það er ljóst að hann er að klára síðasta tímabilið sitt hjá Chelsea og hefur núþegar samið við uppeldisklúbbinn Fluminense í heimalandinu. Það má búast við því að heimaleikurinn gegn Bournemouth í síðustu umferðinni verður tileinkaður Thiago sérstaklega. Forseti Fluminense lét það hafa eftir sér hvað þeim þótti vænt um að Chelsea sýndu þessum félagaskiptum skilning og virðingu. Það var strax stungið uppá vináttuleik milli Chelsea og Fluminense á hinum sögufræga Maracana velli. Samband milli klúbbana þykir einstaklega gott. Það berast líka önnur tíðindi frá Brasilíu, þar sem Chelsea er sagt hafa náð samkomulagi við Estevao, leikmann Palmeiras. Hann er 17 ára gamall, einnig nefndur Messinho (Litli-Messi) þannig að fólk getur ímyndað sér hvernig leikmaður hann er, eða leitað uppi myndbönd á Youtube. Hann mun þó kosta skildinginn, sagt er um 27,5 milljónir punda. Þetta er rosalega hátt verð fyrir svona ungan leikmann, en kannski, hefðum við betur eytt þannig pening í Neymar á sínum tíma, þegar við tímdum ekki uppsetta verðinu hjá Santos.


Framundan er leikur við Nottingham Forest á útivelli. Við eigum harm að hefna frá því fyrr á tímabilinu. Þá kom alvöru skellur þegar Forest unnu okkur með marki frá Anthony Elanga. Nottingham eru í bullandi fallbaráttu við Luton. Munurinn á liðinu er auðvitað sá að í þetta skipti er Nuno Esperito Santo við stjórnvölinn en ekki Steve Cooper. Gengið hefur verið á mis - unnu Sheffield United í síðasta leik en töpuðu fyrir Everton og Man City þar á undan. Callum Hudson-Odoi þekkjum við ágætlega í þessu liði, en annars er maður ekki að fylgjast mikið með klúbbnum, enda leikmannaveltan með eindæmum. Það má búast við því að þetta verði hörku leikur. Þrátt fyrir að Chelsea hafi spilað vel í undanförnum leikjum fær maður ónotatilfinningu fyrir því að leika gegn liðum sem við "eigum" að vinna. Tímabilið hefur verið á þann veg að skellirnir koma úr óvæntum áttum. Hinsvegar væri ekkert ljúfara en að vinna Forest og láta Luton halda sér uppi í deildinni. Mann dreymir alltaf um útileikinn á "The Kenny" í Luton, sjáið til.


Það styttist í meiðslalistanum. Christopher Nkunku, Axel Disasi og Malo Gusto komu inná gegn West Ham, þvert gegn öllum spám fyrir leikinn. Þeir verða amk í hóp núna fyrir leikinn á morgun. Pochettino sagðist vona að Reece James yrði einnig með í hópnum. Það er spurning hvort Wesley Fofana og Lesley Ugochukwue komast einnig í hóp, en það styttist í þá samkvæmt helstu fréttum. Hinsvegar má búast við því að Pochettino stilli upp svipuðu liði og gegn West Ham. Petrovic í markinu, Chalobah hægri bakverði, Thiago Silva og Badiashile miðverðir, Cucurella í vinstri bakvörð-djúpa miðjumanns hlutverkinu sínu. Caicedo, Conor og Palmer þarna á miðjunni. Noni Madueke hægri kantur, Mudryk vinstri og Nico Jackson uppá topp. Það væri gaman að sjá Jackson skora fleiri mörk og ná a.m.k. 15 mörkum áður en leiktímabili er lokið.


Hvernig fer leikurinn? Verum bjartsýn og segjum 2-0. Jackson með eitt og Nkunku kemur sterkur af bekknum!


Áfram Chelsea og KTBFFH!!

bottom of page