top of page
Search

Nottingham Forest - Chelsea


Keppni: Enska úrvalsdeildin


Tími og dagsetning: Sunnudagur 1. janúar 2023


Leikvangur: City Ground


Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport

Eftir ágætan fyrsta leik okkar manna eftir HM liggur nú leiðin á slóðir Hróa og félaga í Nottingham þar sem The Reds verða heimsóttir.

Lið Nottingham Forest ávann sér rétt til að leika í deild þeirra bestu vorið 2022 og hefur eigandinn gríski skipakóngurinn Evangelos Marinakis miklar hugmyndir um að koma liðinu aftur í fremstu röð.

Eins og staðan er í dag eru Steve Cooper og hans piltar í 19 sæti deildarinnar með 13 stig og hafa átt í talsverðu basli og hafa tínt þessi stig upp mest með jafnteflisleikjum en það verður þó ekki tekið af þeim góður 1-0 sigur á Liverpool.


Fyrsti leikur okkar manna eftir HM var gegn Bournemouth á dögunum og fannst mér menn koma hungraðir og ferskir í leikinn og var virkilega gaman að sjá Reece James aftur á vellinum og hann sýndi það og sannaði hvað hann er ofboðslega mikilvægur liðinu og ekki var laust við að um mann færi þegar hann meiddist og þurfti að fara af velli en meiðslin reyndust ekki alvarlegri en það að hann verður frá í minnsta kosti 4 vikur.

Okkar uppáhalds Kai skoraði fyrra mark bláliða eftir góða sendingu frá Raheem “the dream” Sterling og var eins og reyndar aðrir leikmenn Chelsea mjög góður í þessum leik því heilt yfir spiluðu þeir flottann bolta og ég er alveg öruggur að Cucurella myndi bæta sendingarnar heilmikið ef hann léti klippa sig þar sem hárið byrgir honum orðið sýn og hann er ekki alveg klár á radarnum.


Mason Mount tryggði okkur svo sigurinn með fallegu marki og var fínn í leiknum. Sigurinn hefði klárlega getað orðið stærri en Pulisic var togaður niður innan teigs en allir nema dómarinn sáu að þetta var augljós vítaspyrna. Ef maður á að taka eitthvað út úr leiknum við Bournemouth þá kom leikformið hjá mönnum mér þægilega á óvart og vonandi er liðið komið á sigurbraut.

Potterinn hefur talað og eru silfurmaðurinn frá HM hann Kovacic kominn úr fríi og sama er að frétta af Ziyech og eru þeir til í slaginn gegn Forest. Ég held að ef menn eru rétt gíraðir og halda tempóinu úr leiknum gegn Bournemouth þá ætti Nottingham Forest ekki að vera mikil fyrirstaða en óþægilega oft hafa þó “litlu” liðin strítt okkur. Ég held þó að nýtt ár komi til með að verða okkar mönnum hagstætt og janúar verður forvitnilegur og mörg nöfn komin fram en sárlega vantar okkur kraftmikinn framherja til að klára færin en sterkir varnarmenn eru líka á óskalistanum og einna ánægjulegast eru fréttirnar um að Eva Carneiro sé að ganga til liðs við læknateymið og verður ef af verður óneitanlega ánægjulegra að horfa á leiki.

Ekki ætla ég að viðra neinar hugmyndir varðandi nýja leikmenn enda ekkert fast í hendi en leyfi mér að vera bjartsýnn. Einnig ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir leikinn gegn Forest og spái góðum og öruggum sigri sem mun gefa góð fyrirheit fyrir næsta ár.


Nottingham Forest


Ekki hefur gengið neitt sérstaklega vel hjá nýliðum Nottingham Forest til þessa og eru þeir eins og áður kom fram í 19 sæti deildarinnar með 13 stig og eru ekki líklegir til mikilla afreka en hafa þó náð að landa góðum sigri gegn Liverpool 22. október þar sem þeir sigruðu með einu marki gegn engu. Það hafa verið stór plön fyrir þetta fornfræga og sigursæla lið sem sannarlega hefur mátt muna sinn fífil fegurri. Jesse Lingard hefur verið þeirra besti maður en hann mun vera tæpur fyrir leikinn og óvíst með þáttöku hans. Fyrsti leikur Forest manna eftir HM var gegn Manchester United og voru United menn ekki í neinum vandræðum með Forest og sigruðu 3-0Byrjunarlið:


Það er alveg klárt að Graham Potter kemur ekki til með að gefa neitt eftir í þessum leik og er staðráðin í að koma liðinu aftur á sigurskrið. Eftir leikinn gegn Bournemouth held ég að hann haldi sig við 4-3-3 leikkerfið og hefur jú úr aðeins fleiri leikmönnum að velja.

Kepa verður í markinu þar sem Mendy er enn ekki heill heilsu og hefur Kepa verið að finna sig vel í markinu undanfarið.

Vörnina skipa þeir Azpilicueta, Koulibaly, Cucurella og Silva sem var hreint frábær eins og alltaf í síðasta leik.

Þar fyrir framan verða þeir Kovacic, Mount og Jorgi og fremstir verða þeir Sterling, Kai og spái ég að Pulisic fái sénsinn.


Fullvíst þykir mér að Ziyech fái einhverjar mínútur. Um áramót hefur maður ávallt einhverjar væntingar og er ég þess fullviss að nú fer landið að rísa hjá okkar mönnum.

Ég spái því að Chelsea sigri 4-0 og held að Kai setji 2 og Sterling eitt og Pulisic tekur upp á því að hitta markið og setur eitt.Að þessum vangaveltum loknum vil ég óska ykkur gleðilegs árs og segi enn og aftur.


ÁFRAM CHELSEA!


Comments


bottom of page