top of page
Search

Newcastle vs Chelsea - Upphitun

Keppni: English Premier League

Dag- og tímasetning: 18. janúar 2020 kl. 17:30

Leikvangur: St James’ Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports PL, NBC

Upphitun eftir: Þór Jensen



Við minnum á nýjasta þáttinn af Blákastinu! Hægt er að nálgast nýjasta þáttinn í öllum helstu hlaðvarpsveitum auk þess sem hann er aðgengilegur í spilaranum neðst í upphituninni.

Eftir góða frammistöðu og mikilvægan sigur gegn Burnley í síðustu umferð ferðast okkar menn í bláu norður til Newcastle þar sem þeir mæta þeim svarthvítu á St James’ Park.


Chelsea

Loksins sóttu okkar menn þrjú stig með sannfærandi sigri á Stamford Bridge gegn slakari andstæðing, kominn tími til. Fyrir leik óttuðust margir að við værum að stefna í svipaðan leik og gegn West Ham, Bournmouth, Southampton og Brighton þar sem Chelsea menn ná ekki að brjóta upp þéttann varnarpakka andstæðingsins og fá á sig klaufaleg mörk úr skyndisóknum eða föstum leikatriðum og tapa stigum. Þegar ég sá byrjunarliðið með Ross Barkley og Andreas Christensen inn á og Kanté ekki í hóp og Kovacic á bekknum óttaðist ég það svo sannarlega.


Allt annað var hins vegar upp á teningnum og okkar menn spiluðu ljómandi vel og komust yfir í fyrri hálfleik úr víti sem Willian fiskaði með hraða sínum og Jorginho skoraði auðvitað úr, þvílík vítaskytta. Að komast yfir tiltölulega snemma leiks hefur verið lykillinn að því að sigra smærri liðin á heimavelli í vetur og það sannaði sig í þessum leik. Tammy Abraham jók forystuna í fyrri hálfleik með skallamarki eftir frábæra fyrirgjöf Reece James en sá síðarnefndi átti stórkostlegan leik bæði í vörn og sókn og tengdi afar vel með Callum Hudson-Odoi á hægri kanntinum, spennandi tvíeyki að myndast þarna á hægri kantinum hjá Chelsea. Callum skoraði einnig þriðja mark Chelsea og gulltryggði okkur 3 stig í mikilvægum leik eftir vonbrigðin í síðustu leikjum á Brúnni.



Mennirnir sem ég hafði mestar áhyggjur af fyrir leikinn, Barkley og Christensen stóðu sig báðir með príði. Barkley var var fastur fyrir, var duglegur og sendi boltann vel frá sér (90% sendinga árangur). Christensen var með öryggið uppmálað í vörninni og stóð vörnina vel við hlið Rüdiger og virtust þeir ná vel saman. Christensen hefur verið mikið gagnrýndur í vetur og margir stuðningsmenn, þar á meðal undirritaður, farið fram á sölu leikmannsins í janúar. Daninn hefur verið orðaður við AC Milan undanfarnar vikur en Lampard sagði á blaðamannafundi fyrir leik að það væri alveg öruggt að félagið myndi ekki selja hann í janúar og að hann ætti mikið inni. Hann sagði það hreint út að Christensen þyrfti að vera líkamlega sterkari gegn liðum sem spiluðu meira “physical”. Það er spurning hvort að þetta sé hafsentaparið sem Lampard ætlar að vinna með í næstu leikjum á kostnað Tomori og Zouma, en það verður að koma í ljós.


Newcastle

Norðanmenn voru í töluverðu basli yfir jólatörnina og tóku aðeins 2 stig í síðustu fjórum umferðum. Chelsea hefur gengið vel á móti Newcastle í síðustu viðureignum liðanna og unnið 6 af síðustu 7 leikjum. Newcastle sitja nú í 13. sæti deildarinnar sem er ásættanlegur árangur miðað við þeirra hóp og bjuggust margir við slakari árangri en raun ber vitni frá Norðanmönnum á þessu tímabili.

Newcastle menn munu verjast af krafti og vonast til að refsa okkur með skyndisóknum og nýta sín föstu leikatriði. Vonandi ná okkar menn að skora fyrsta mark leiksins snemma í leiknum, það mun draga andstæðinginn úr skotgröfunum og opna svæði fyrir sóknarmenn okkar til að vinna með.


Spá

Ég spái því að Reece James og Callum Hudson-Odoi verði í stóru hlutverki í leiknum líkt og gegn Burnley. CHO skorar fyrsta mark leiksins og Mason Mount skorar það seinna í 0-2 sigri okkar manna.


KTBFFH


Comments


bottom of page