top of page
Search

Newcastle vs Chelsea

Keppni: Premier League

Tími, dagsetning:  Laugardagur 25. nóvember kl: 15:00

Leikvangur: St. James' Park

Dómari:   Simon Hooper

Hvar sýndur:   Síminn Sport

Upphitun eftir:  Hafstein Árnason



Chelsea


Loksins, loksins byrjar enski boltinn að rúlla aftur, eftir drepleiðinlegt landsleikjahlé. Maður stendur yfirleitt með öndina í hálsinum eftir þessi hlé hvort eitthvað hafi bæst við meiðslalistann, en svo virðist ekki vera í þetta sinn. Síðasti leikur fyrir landsleikjahlé var hinn magnaði 4-4 leikur gegn Manchester City. Frammistaðan í þeim leik var einhver sú besta sem ég man eftir síðustu árin. Liðin hans Pep Guardiola hafa verið mjög erfið viðureignar á undanförnum árum, en þarna fannst manni Chelsea liðið veita City alvöru mótspyrnu með leikstíl sem allir stuðningsmenn eru stoltir af. Vissulega var vítspyrnan sem Haaland sótti á Cucurella hræódýr, en sá norski er brellinn og bröndóttur í teignum. Það sem er ánægjulegt er að Nicholas Jackson er farinn að skora reglulega með Chelsea. Reyndar skoraði hann ekki með Senegal, þar sem hann var notaður sem varamaður, og átti samtals 43 mínútur gegn Tógó og Suður Súdan. Það má einnig vekja athygli á viðtali sem Matt Law tók við Jackson. Í því kemur fram að það eru einugis sex ár síðan hann fór að spila í takkaskóm! Hann fékk sitt fyrsta par 16 ára gamall. Fram að því hafði hann spilað berfættur á götum Ziguinchor, rétt sunnan við Dhakar í Senegal. Jackson er kominn af fátæku fólki og er með sín gildi alveg á hreinu samkvæmt viðtalinu. Upprisa hans fram á stærsta sviðið í knattspyrnunni hefur verið býsna hröð. Það er því kannski rétt að hafa það í huga og sýna honum smá þolinmæði.



Miklar væntingar eru bundnar við það að Christopher Nkunku verði í hóp, en Pochettino eiginlega tók allan vafa af því á blaðamannafundi. Bæði hann og Romeo Lavia verða ekki í hóp, en styttist í þá. Sennilega verða þeir með gegn Brighton um næstu helgi. Eina spurningin sem er með liðsuppstillinguna varðar bæði Moses Caicedo og Enzo. Þeir spiluðu á miðvikudaginn í Suður Ameríku og náðu einungis einni æfingu með liðinu. Fyrsti leikurinn eftir landsleikjahlé í september var markalaust jafntefli gegn Bournemouth þar sem Caicedo var ekki með og Enzo átti ömurlegan leik þar sem honum var skipt útaf á 81. mín. Hinsvegar eru bæði Levi Colwill og Malo Gusto klárir í leik eftir að hafa hrist smávægileg meiðsl af sér. Pochettino sagði einnig á blaðamannafundinum að Reece James myndi vera í byrjunarliðinu.


Meiðslalistinn okkar telur 7 leikmenn. Fyrir utan Lavia og Nkunku, þá eru Chukwuemeka, Chilwell, Bettinelli, Chalobah og Fofana. Wesley Fofana er byrjaður að mæta í Cobham til æfinga, sem er ákveðið gleðiefni. Trevoh Chalobah er líka sagður hafa lent í bakslagi með sitt bataferli. Myndi ekki búast við honum fyrr en seint á þessu ári. Þetta gæti haft erfiðar afleiðingar hvað sölumál varðar. En ánægjulegt er að vita til þess að það styttist óðfluga í Nkunku, Lavia, Chilwell og Chukwuemeka. Valkvíðinn fyrir Pochettino á eftir láta kræla á sér.



Newcastle


Ef það er eitthvað lið fyrir utan Chelsea sem er í vandræðum með meiðsli, þá er það sannarlega Newcastle. Varnartröllin Sven Botman og Dan Burn eru ennþá meiddir og það hefur haft veruleg áhrif liðið. Fyrir utan þá eru Harvey Barnes, Jacob Murphy, Elliot Anderson og Matt Targett líka meiddir ásamt því að Sandro Tonali situr leikbann fyrir veðmálafíkn. Gengi Newcastle hefur verið svolítið upp og niður síðustu vikur. Liðið er í feykilega sterkum meistaradeildarriðli með AC Milan, Dortmund og PSG. Liðinu tókst þó að slá út Manchester United í deildarbikarnum þar sem okkar besti Lewis Hall skoraði eitt markið. Einnig vann liðið Arsenal 1-0 fyrir skemmstu en tapaði óvænt 2-0 fyrir Bournemouth á útivelli. Liðið er mjög sterkt á heimavelli og hefur einungis tapað fyrir Liverpool á þessu tímabili á St. James'. Liðinu tókst þó að vinna Arsenal, PSG og Manchester City þar sem af er tímabili. Geri aðrir betur. Framundan eru svo leikir við okkur, PSG, Manchester United, Everton, Tottenham og Milan næstu tvær vikurnar. Strembið prógramm hjá þeim í norðrinu.


Búast má við því að Howe stilli upp í 4-3-3 með Pope í markinu, Trippier, Lascelles, Schär og okkar besta Tino Livramento í vörninni. Sean Longstaff, Bruno Guimares og Joe Willock á miðju. Joelinton, Anthony Gordon og Miggy Almiron frammi.


Liðsuppstilling og úrslit.


Ég ætla að segja að Pochettino verði íhaldssamur en hrókeri aðeins til. Sanchez verður í markinu. Reece James hægri bakvröður. Levi Colwill í vinstri. Thiago Silva og Disasi miðverðir. Ég spái því að Lesley Ugochukwue byrji með Enzo á miðjunni. Tel frekar ólíklegt að tefla fram tveimur jet lagged leikmönnum í svona mikilvægum stöðum. Sterling, Conor og Cool Palmer verða fyrir aftan Nicholas Jackson.




Úrslitin verða 1-2. Jackson með bæði mörkin fyrir Chelsea. Lewis Hall skorar gegn okkur - það yrði týpískt.


KTBFFH!!!!


P.s. Núna eru allra síðustu sénsar á að skrá sig í Chelsea klúbbinn til ess að fá forgang í miðakaupum. 4. desember er deadline í því samhengi. Við hvetjum alla aðdáendur Chelsea á Íslandi að skrá sig í klúbbinn. Nánari upplýsingar á www.chelsea.is


P.p.s. Hefur þú áhuga á að skrifa pistla á CFC.is? Settu þig í samband við greinarhöfund. Við auglýsum eftir áhugasömum pislahöfundum!

Comments


bottom of page